Fara í efni
Pistlar

Eltu drauminn þinn – því draumar geta ræst

MENNSKAN - 6

„Mig hefur lengi langað til að geta spilað á harmoniku,“ segir kona við mig og horfir með aðdáun á harmonikuna mína. „Hefurðu lært á hljóðfæri?“ Spyr ég á móti. „Já, þegar ég var barn og síðan erfði ég harmonikuna hans pabba.“ „Drífðu þig þá af stað. Skráðu þig í tónlistarnám og prófaðu. Eltu drauminn þinn!“

Hvað þarf til að láta drauma sína rætast? Okkur dreymir öll um eitthvað. Draumarnir geta verið um miklar og stórar breytingar í lífinu eða kannski eitthvað minna og einfaldara. En af hverju halda draumar áfram að vera fjarlægir hjá sumum á meðan öðrum tekst að láta drauma sína rætast?

Heilinn okkar er yfirfullur af hugmyndum og stundum þarf að taka stökkið og láta vaða. Það er okkur hollt að prófa eitthvað nýtt og draumarnir þurfa ekki að vera svo stórir að þeir kollvarpi öllu. Það má líka elta litlu draumana sína, vonir og væntingar.

Í sögunni um Pílu pínu segir amma litlu músinni sögu um aðra litla mús sem langar til að fljúga. Litla músin með flugdrauminn sagði einn daginn: „Ég vildi að ég hefði vængi eins og þrösturinn. Þá skyldi ég fljúga upp í tré og syngja þar allan daginn. Þaðan myndi ég sjá yfir allan heiminn í einu.“ Annan dag sagði hún: „Flugurnar eiga það svo gott. Þær geta flogið á milli blómanna og sogið hunang. Hvað á ég að gera til þess að það vaxi á mig vængir?“ Einn daginn varð henni að ósk sinni og hún var komin með fagurbláa, stóra vængi. Hún flaug á milli blóma og trjágreina, hitti fugla sem furðuðu sig á þessum skrýtna fugli sem þeir höfðu aldrei séð áður. Hún flaug allan daginn og þegar það kom myrkur og stjörnurnar birtust á næturhimninum flaug hún upp á eina stjörnuna. Þar sat hún og horfði niður á jörðina. En allt í einu heyrði hún í bjöllu eins og þeim sem kettir hafa um hálsinn og henni brá svo mikið að hún datt niður af stjörnunni. Hún gleymdi því að hún væri með vængi og hrapaði þar til hún skall niður á jörðina. Við það vaknaði litla músin upp af flugdraumnum sínum með verki í öllum kroppnum. Hún hafði dottið út úr rúminu niður á gólf. Þetta hafði þá bara verið draumur.

En þó að þessi litla mús fengi drauminn sinn um að fljúga ekki uppfylltan í það skiptið þá geta sumir draumar ræst. Sannleikurinn er sá að enginn draumur verður að veruleika án skipulags. Það þarf að marka leiðina og finna út hvernig við getum elt drauminn.

Oft er erfitt að stíga út fyrir þægindarammann en það er eitt af því sem fylgir breytingum ásamt hugrekki, þor og dug. Það er nefnilega ekki nóg að láta sig dreyma. Oftast þarf átak til að koma draumnum í framkvæmd. 

Að skrifa hjá sér óskir og markmið hefur meiri áhrif heldur en mann grunar. Ég hef góða reynslu af því að nýta áramót til að fara yfir liðið ár og setja mér ný markmið. Ekki eru allir sammála um að nota þau tímamót og segja að áramótaheit séu ekki endilega líkleg til árangurs. Það kann alveg svo að vera hjá einhverjum en það hentar mér vel að taka þá stöðuna, fara yfir liðið ár og skoða hvaða draumum mér tókst að fylgja eftir.

Mikilvægt er að setja hugsanir í orð og skipta draumunum niður í langtíma og skammtímamarkmið og huga að áföngunum. Leiðin að settu marki getur verið jafn mikils virði og að ná sjálfum áfanganum. Því það að lifa drauminn sinn getur verið ferli en ekki lokaniðurstaða. Á leiðinni að settu marki þroskumst við og finnum að við erum búin að breyta einhverju til góðs. Drift, kraftur og ástríða þarf einnig að fylgja með þegar elta á draumana sína. Einhver innri rödd þarf að hvetja mann áfram í að grípa drauminn og framkvæma hann.

Hlustið eftir því í hjarta ykkar hvort þar sé einhver rödd sem segir við ykkur, mig langar svo til að gera eitthvað. Mig langar til að læra á skíði, mig langar til að prjóna peysu, mig langar til að skrifa bók, mig langar til að spila á hljóðfæri, mig langar til að syngja, dansa, búa í útlöndum ...

Ef þessi litla rödd er þarna og hvíslar þessu að ykkur þá skulið þið hlusta og spyrja á móti. Er þetta eitthvað sem hægt er að framkvæma? Hvað þarf ég þá að gera til að láta drauminn rætast?

  • að hafa trú á því að það sé hægt
  • að takast á við áskoranir sem geta verið krefjandi
  • að sigrast á hindrunum og vera í lausnaleit
  • að prófa áfram, læra af mistökum og finna nýjar leiðir til að takast á við hlutina
  • að fagna litlu sigrunum og njóta þess að lifa drauminn

Litla músin vaknaði af flugdraumnum sínum en ef hún hefði haldið áfram að láta sig dreyma um að fljúga þá hefði hún að lokum fundið leið til þess. Einu sinni voru ekki til flugvélar en síðan voru menn sem prófuðu sig áfram þangað til þeim tókst að hanna flugvél og fljúga.

Það er hægt að lifa drauminn sinn því draumar geta ræst

Hver er þinn draumur?

Hrund Hlöðversdóttir er rithöfundur

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30