Fara í efni
Umræðan

Sjúkrahúsið á Akureyri

Ísland er fámennt en stórt land. Íbúaþróun síðustu áratugi hefur á margan hátt verið óskynsamleg. Samkvæmt gögnum frá Hagstofunni búa nú nálægt 80% landsmanna á stórhöfuðborgarsvæðinu en 20% landsmanna á gríðarlega víðfeðmu landsvæði utan þess. Fá dæmi eru um slíka samþjöppun búsetu í nokkru landi og fyrir vikið er það flókið verkefni að tryggja öllum landsmönnum fyrsta flokks lögbundna þjónustu, þótt sannarlega sé það bráðnauðsynlegt. Það á ekki síst við um réttinn til heilbrigðisþjónustu.

Sjúkrahúsið á Akureyri, SAk, er stærsta sjúkrahúsið utan höfuðborgarsvæðisins og í lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007, kemur skýrt fram mikilvægi þess, m.a. sem varasjúkrahús fyrir Landspítala háskólasjúkrahús í Reykjavík.

Því miður hefur þjónusta á ýmsum sviðum verið að dragast saman á undanförnum misserum, þrátt fyrir lofsverða útsjónarsemi starfsfólks við að verja stöðuna. Ýmis sérfræðiþjónusta sem var áður í boði, er það ekki lengur. Þar má nefna lungnalækningar, augnlækningar, húðlækningar, innkirtlalækningar, inngrip myndgreiningadeildar og lýtalækningar. Auk þess eru aðrar sérgreinar s.s. geðlækningar, barna- og unglingageðlækningar, skurðlækningar, endurhæfingarlækningar og öldrunarlækningar í verulegri hættu vegna skorts á fjármagni og sérhæfðum læknum.

SAk leikur gríðarlega mikilvægt hlutverk fyrir íbúa á risastóru landsvæði norðan og austan lands. Árlega þurfa þó rúmlega 22.000 manns af upptökusvæði þess að leita sér lækninga til Reykjavíkur þar sem þjónusta er einungis í boði á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem er á Landspítalanum eða hjá sérfræðilæknum með samninga við Sjúkratryggingar Íslands.

Það er vel hægt að breyta þessu. Sem dæmi setti SAk fyrir nokkrum árum upp þjónustulíkan í krabbameinslækningum sem hefur reynst vel, þar sem SAk hefur fengið einn krabbmeinslækni norður í tvo til þrjá daga í viku til að sinna sjúklingum í samvinnu við vel samhæft hjúkrunarteymi SAk. Ef ekki væri fyrir þessa þjónustu þyrftu um 50 sjúklingar ásamt fylgdarmanni að fara suður til Reykjavíkur í hverri viku. Þá er nauðsynlegt að efla þjónustu dag- og göngudeilda, hægt væri t.d. að hefja hjartarþræðingar fyrir norðan og ýmislegt fleira.

Styrking SAk er mannréttindamál fyrir íbúa landsbyggðanna en einnig skynsamlegt efnahagslega; það minnkaði bruðl ríkisins en sparaði um leið sjúklingunum sjálfum himinháar fjárhæðir vegna ferða, gistingar, uppihalds og vinnutaps. Og rétt er að nefna að oft þurfa sjúklingar að hafa með sér fylgdarmann. En einungis til að viðhalda núverandi þjónustu vantar ríflega milljarð inn í rekstrargrunninn, sem er þó hverfandi lítil upphæð í stóra samhenginu.

Það er vissulega mjög ánægjulegt að verið sé að hefja byggingu á nýrri og löngu tímabærri legudeild við Sjúkrahúsið á Akureyri. Með henni verða skurðstofur endurnýjaðar auk þess sem rými losna í eldri byggingum fyrir aðþrengda þjónustu eins og dag- og göngudeildarstarfsemi. En það er hins vegar til lítils af stað farið ef ekki á að tryggja nægjanlegt fé til rekstursins líka: Þannig að íbúar landsbyggðanna njóti þeirra réttinda sem mælt er fyrir um í lögum. Og þannig að SAk geti sótt fram og eflst í stað þess að berjast í bökkum ár eftir ár.

Logi Einarsson er þingmaður Norðausturkjördæmis fyrir Samfylkinguna og skipar 1. sæti á lista flokksins við kosningarnar til Alþingis 30. nóvember

Uppbygging Akureyrarflugvallar hefur aukið lífsgæði íbúa

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:10

Heimur á villigötum

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:00

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45

Lægri fjármagnskostnaður, er krónan góð fyrir landsbyggðirnar?

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 10:00

Örugg skref um allt land

Logi Einarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 06:00