Sextíu daga fjarvera frá vinnu og skóla
Leikmenn yngri landsliða í körfubolta geta þurft að fórna samtals tveimur mánuðum í vinnu eða skóla fyrir landsliðsæfingar og þátttöku í mótum erlendis. Ofan á það kemur ferðakostnaður milli heimabyggðar og höfuðborgarsvæðisins og kostnaður við keppnisferðirnar sjálfar.
Akureyri.net fjallaði um þátttöku A-landsliðs kvenna í blaki í Smáþjóðaleikunum um komandi helgi og þá staðreynd að fjarvera KA-kvenna úr landsliðshópnum hafi vakið athygli. Fram komu ábendingar um að hér væri ekki um að ræða að þær hafi ekki verið valdar í hópinn heldur hafi þær ekki gefið kost á sér og hefur hár kostnaður vegna þátttöku í landsliðsverkefnum verið nefndur sem aðalástæðan.
Blaksambandið er þó klárlega ekki eina sérsambandið sem er í þeirri stöðu að leikmenn þurfi mögulega að afþakka landsliðssæti vegna kostnaðar við verkefni erlendis. Körfuknattleikssambandið stendur fyrir söfnunarátaki vegna yngri landsliðanna, en jafnvel þótt slík söfnun gengi vel þurfa krakkar utan af landi sem taka þátt í landsliðsverkefnum að fórna miklum tíma, fyrirhöfn og fjármunum til að spila fyrir Ísland.
Akureyri.net veit reyndar ekki dæmi þess að leikmenn í A-landsliði í körfubolta hafi verið í þeirri stöðu að gefa ekki kost á sér vegna kostnaðarþátttöku, en mörg dæmi er um leikmenn sem valdir eru í yngri landslið sem afþakka landsliðssæti af þessum sökum. Það getur svo haft keðjuverkun þegar þjálfari U20 landsliðs velur leikmann sem einnig er í U18 hópnum, svo dæmi sé tekið.
Tveggja mánaða dvöl að heiman
Fyrir utan kostnaðinn við þátttöku í mótum eru tíðar ferðir og langar dvalir leikmanna af landsbyggðinni í æfingabúðum landsliðanna í aðdraganda þessara móta. Leikmaður í U16, U18 eða U20 landsliðinu í körfubolta getur þurft að verja samtals um 30 dögum á suðvesturhorninu, bara við æfingar með landsliðum í aðdraganda NM og EM. Þar fyrir utan eru æfingadagar í kringum jól og í febrúar, auk æfingadaga í maí rétt áður en endanlegir hópar eru valdir fyrir mótin.
Fyrir einn einstakling utan af landi getur full þátttaka í yngra landsliði í körfubolta, æfingum og mótum, þýtt eftirfarandi:
- 20 ferðir að heiman eða heim vegna æfinga
- 9 æfingadagar áður en vitað er hvort viðkomandi er í lokahóp
- 18 æfingadagar í aðdraganda Norðurlandamóts
- 8 dagar á Norðurlandamóti
- 12 æfingadagar í aðdraganda Evrópumóts
- 13 dagar á Evrópumóti
- 650.000 krónur í kostnað, eingöngu vegna mótanna tveggja
- 40 gistinætur á höfuðborgarsvæðinu sem krakkarnir sjá sjálf um að útvega sér
- Nær ómögulegt að ráða sig í sumarvinnu á heimaslóðum vegna mikilla fjarvista
Þinn styrkur - þeirra styrkur
Körfuknattleikssambandið hefur verið í herferð að undanförnu undir slagorðunum Þinn styrkur - þeirra styrkur, sem er átak til fjáröflunar upp í kostnað yngri landsliða Íslands í körfubolta við þátttöku á mótum erlendis. Í auglýsingu frá KKÍ kemur fram að hæsta upphæð sem leikmenn þurfi að greiða fyrir þátttöku í landsliðsverkefnum í sumar sé 650.000 krónur fyrir þau sem eru valin til að spila bæði á Norðurlandamótinu og Evrópumótinu.
„Afreksstarf og þá sérstaklega yngri landsliða á undir högg að sækja. Óskandi væri að stuðningur ríkisvaldsins við ungt afrksíþróttafólk á Íslandi væri viðunandi en það er langur vegur í að svo sé,“ segir í texta með auglýsingunni.
Með átakinu er höfðað til áhugafólks um körfuknattleik, almennings og fyrirtækja, og leitað eftir fjárfralögum. Átakið „snýst um að styrkja ungt afreksfólk. Allt sem safnast fer beint til leikmanna landsliðanna til niðurgreiðslu á þátttökukostnaði sem kemur í þeirra hlut í sumar.“ Jafnframt er bent á að fyrirtæki og einstaklingar sem styrki verkefnið geti nýtt upphæðina til skattaafsláttar á næsta ári.