Fara í efni
Umræðan

Séreignarsparnaðarleið Sjálfstæðisflokksins

Ég man vel eftir kosningabaráttunni fyrir Alþingiskosningar árið 2013. Ég var þá í 9. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi en tók virkan þátt. Í febrúar þetta sama ár hafði 41. landsfundur Sjálfstæðisflokksins verið haldinn þar sem m.a. var ályktað um nýja leið til að lækka skuldir heimilanna:

„Sjálfstæðisflokkurinn vill beita nýrri leið með því að veita sérstakan skattaafslátt vegna afborgana af lánum til eigin íbúðarkaupa og nýta skattkerfið til að lækka húsnæðislán heimilanna. Nú er skattaafsláttur veittur til að leggja fyrir í séreignarsparnað. Sjálfstæðisflokkurinn vill að einstaklingar hafi val um að greiða frekar inn á húsnæðislánin sín og njóta þessa sama afsláttar og lækka þannig höfuðstól lánanna og framtíðar vaxtakostnað heimilanna.“

Mikilvægt skref fyrir heimilin

Þetta var eitt af stóru málunum í kosningabaráttunni. Mál sem á rætur sínar að rekja til landsfundar þar sem á annað þúsund Sjálfstæðismenn komu saman til þess að móta kosningastefnu, eftir kjörtímabil í minnihluta. Þetta atriði úr stefnunni rataði inn í stjórnarsáttmála og frumvarp fjármálaráðherra um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar voru samþykkt á Alþingi í maí 2014. Það voru mikilvægt skref í átt að því að stuðla að fjárhagslegri velferð íslenskra heimila. Þetta úrræði var tímabundið og hannað til að létta á skuldabyrði heimila og auðvelda ungu fólki að eignast íbúðarhúsnæði. Í október 2016, var frumvarp fjármálaráðherra um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð samþykkt og fyrra úrræðið framlengt. Á fyrsta kjörtímabilinu eftir vinstri stjórnina tryggði Sjálfstæðisflokkurinn að þessi hugmynd yrði að veruleika. Úrræðið hefur verið framlengt hingað til en nú birtist okkur í fjárlagafrumvarpinu að ekki standi til að framlengja það á ný. Það eru vonbrigði og ég mun beita mér fyrir því að þessi lausn okkar Sjálfstæðismanna renni ekki sitt skeið.

Skynsöm leið

Í ræðu minni við fyrstu umræðu fjárlaga sagði ég:

„Herra forseti. Mig langar einnig að ræða hér annað mál sem stendur mér nærri. Það er séreignarsparnaðarleiðin svokallaða þar sem við leyfum fólki að nota séreignarsparnaðinn sinn til að greiða niður húsnæðislán. Það er oft talað um að hafa ekki öll eggin sín í sömu körfu. Að lokinni starfsævi er mikilvægt að eiga ekki bara lífeyrissparnað. Það er gott að eiga sitt húsnæði. Það er enn þá betra ef maður hefur einnig fjárfest í hluta- eða skuldabréfum og er þannig með þrjár körfur. Það er skynsamlegt að leyfa fólki að nýta séreignarsparnaðinn áfram til að borga inn á húsnæðislánin. Við höfum fyrstu fasteign sem engin áform eru um að breyta en þeir sem hafa fengið að nýta þessa leið undanfarið ættu að fá a.m.k. tíu ár líkt og þeir sem kaupa fyrstu fasteign. Við getum einnig rætt að lengja í báðum úrræðum en ég tel ekki skynsamlegt að láta úrræðið renna sitt skeið.“

Úrræðið hefur hjálpað fólki að greiða lægri vexti, létt á skuldabyrði heimila og aukið eignamyndun. Þetta var sérstaklega mikilvægt á árunum eftir hrun en er enn mikilvægt í dag. Samhliða þessu verður auðvitað, fyrir nýja kaupendur, að tryggja aukið framboð því oft er sagt að úrræðið sé eftirspurnarhvetjandi. Það er rétt fyrir þann hóp sem ekki á fasteign, en þeir sem eiga nú þegar fasteign og nýta sér úrræðið skapa ekki eftirspurnaráhrif. Sá hópur bætir eigin skuldastöðu og stuðlar að betri skuldastöðu heimilanna - sem er í sögulegu lágmarki. Það má ekki gleymast í þessari umræðu að um 80% fjölskyldna á Íslandi búa í eigin húsnæði.

Séreignasparnaðarleiðin á að lifa

Ég mun sem formaður fjárlaganefndar beita mér fyrir því að séreignasparnaðarleiðin verði áfram, hvort sem er í núverandi mynd eða breyttri mynd. Ég nefndi í ræðu minni að mér þyki að allir eigi a.m.k. að fá tíu ár. Mér þætti einnig vert að skoða hvort tíminn mætti vera lengri, þó að skattaafslátturinn verði bundinn við tíu ár. Úrræðið var vel ígrundað og hefur verið gagnlegt fyrir íslenskt samfélag. Það er ekki sniðugt að hætta því sem virkar vel fyrir íslenskt samfélag og styrkir enn frekar fjárhagslegt sjálfstæði borgaranna.

Njáll Trausti Friðbertsson er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og formaður fjárlaganefndar

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00