Fara í efni
Pistlar

Rúgbrauð fullt af ritvélum

ORRABLÓT - VII

„Ekki hafa hátt, vinur, hann Matti Gests er að leggja sig inni í stofu,“ sagði pabbi einu sinni við mig þegar ég kom heim seinni partinn. Ætli ég hafi ekki verið svona sex eða sjö ára.

Ég kippti mér ekkert sérstaklega upp við þetta; samkennarar pabba litu reglulega í heimsókn og þyrftu þeir að leggja sig þá bara gerðu þeir það.

Matti var ógleymanleg týpa; smíðakennari í Glerárskóla, ljósmyndari, ökukennari, hestamaður, skíðamaður og rithöfundur með meiru. Ók um götur bæjarins á Volkswagen Rúgbrauði sem mér þótti á þeim tíma geggjaðir bílar.

Matthías Gestsson var ógleymanleg týpa; smíðakennari í Glerárskóla, ljósmyndari, ökukennari, hestamaður, skíðamaður og rithöfundur með meiru, segir Orri Páll.

Matti tók á tímabili ljósmyndir fyrir síðdegisblað í Reykjavík en gekk illa að fá greitt fyrir framlagið. Honum var á endanum nóg boðið, steig inn í Rúgbrauðið og ók sem leið lá suður. Sóttist honum ferðin vel enda var færðin góð. Við komuna til höfuðborgarinnar skaust Matti svo lítið bar á inn á ritstjórnina í hádeginu, meðan allir voru í mat, og hafði á brott með sér allar ritvélarnar. Auðvitað veit ég það ekki fyrir víst en mögulega er þetta í eina skiptið í mannkynssögunni sem að hópi ritvéla hefur verið haldið í gíslingu í Rúgbrauði.

Ugglaust hefur orðið uppi fótur og fit á ritstjórninni en málið upplýstist fljótt þegar Matti sló á þráðinn til ritstjórans eftir hádegið og tilkynnti um gjörninginn. Ritvélunum myndi hann skila um leið og hann hefði fengið kaupið sitt. Ritstjórinn sá sæng sína upp reidda og borgaði Matta. Blaðið kom út á réttum tíma.

Mig minnir þó að samstarfi Matta og blaðsins hafi lokið þarna.

Ég kynntist líka Helgu Eiðsdóttur, konu Matta, en hún var íþróttakennari og kenndi mér að synda. Afar vönduð kona. Blessuð sé minning þeirra beggja!

Svo virðist sem kennarar á Akureyri séu með Rúgbrauðsblæti. Í öllu falli keyrði minn gamli vinur Sævar Árnason um á slíkri bifreið fyrst eftir að hann fékk bílpróf. Því skal þó til haga haldið að hann var ekki orðinn kennari á þeim tíma og strangt til tekið áttu foreldrar hans bílinn. Margir þekkja Sævar auðvitað líka sem handboltakappa.

Einar Björnsson, nú yfirlæknir á Landspítala, sem kenndi á sínum tíma í Glerárskóla, og Sævar Árnason, æskuvinur Orra Páls.

En alltént. Sævar var einu sinni sem oftar á rúntinum á Rúgbrauðinu í Skarðshlíðinni ásamt vini okkar Eika heitnum Odds, þegar þeir komu auga á mig í strætó. Verandi grallaraspóar, báðir tveir, ákváðu þeir að koma mér á óvart. Brunuðu heim í Smárahlíð, lögðu Rúgbrauðinu í hvarfi við næstu blokk og hlupu svo inn í stigaganginn heima, þar sem þeir hugðust sitja fyrir mér og gera mér bylt við.

Það sem Sævar og Eiki vissu ekki var að ég hafði komið auga á þá og séð fléttuna fyrir. Þannig að þegar ég steig út úr strætisvagninum gætti ég þess að ganga í humátt á eftir miðaldra konu sem bjó í sama stigagangi og einnig var að koma úr strætó. Hún kom sumsé fyrst inn um dyrnar. Auðvitað spruttu Sævar og Eiki fram og ráku upp eitt mesta heróp 20. aldarinnar. Aumingja konan fékk hér um bil hjartaáfall. Að baki henni stóð ég, með glott á vör. Við hlógum að þessu lengi á eftir.

En aftur að formlegum heimsóknum. Ungur kennari, Einar Björnsson, síðar læknir, kom líka heim annað slagið. Eldhress náungi. Einu sinni var hann beðinn um að passa mig ungan að árum (Svandís frænka hlýtur að hafa verið erlendis) meðan mamma og pabbi skruppu í leikhús. „Þú sýður svo bara pylsur handa ykkur, Einar minn,“ sagði mamma svo ég heyrði. Einar hélt það nú. Ekki málið. Þegar mamma var að fara út úr dyrunum vék hann sér hins vegar að henni svo lítið bar á og spurði lágum rómi: „Heyrðu Kolla, hvernig sýður maður pylsur?“

Ég man ekkert hvernig þetta fór en Einar hlýtur að hafa fundið út úr þessu.

Svo var það kennarinn sem kom gjarnan þegar hann var búinn að fá sér ofurlítið í aðra tánna. Við skulum láta nafn hans liggja milli hluta. Einu sinni skildum við mamma hann eftir inni í stofu meðan hún lagaði kaffi til að hressa upp á kappann. Ekki liðu margar mínútur þangað til dauft kall heyrðist innan úr stofu: „Hjálp! Hjálp!“

Bragi V. Bergmann kenndi á sínum tíma við Glerárskóla. 

Við rukum inn en sáum ekki nokkurn mann. Þá hafði kennarinn, sem var stæðilegur maður á velli, skriðið undir sófa og fest sig þar. Okkur tókst með nokkrum herkjum að losa hann.

Ekki tók þá betra við. Kennarinn hugðist yfirgefa svæðið en stóð ekki styrkari fótum en svo að hann steyptist með höfuðið á undan niður stigann og lenti á hryggnum á pallinum fyrir neðan. Mín fyrstu viðbrögð voru þau að hann væri allur en svo reyndist ekki vera, hann stóð bara upp eins og ekkert hefði í skorist og hélt áfram sína leið. Bakkus gamli mýkir menn stundum upp.

Loks voru það Glerárskólakennararnir Bragi V. Bergmann og Arnar Óskarsson sem skutu upp kollinum meðan undanúrslitaleikur Frakklands og Portúgals á EM 1984 stóð yfir í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Það var að vonum heilög stund, Platini, Tigana, Giresse og þessir gaurar, og maður ekkert sérstaklega spenntur fyrir heimsóknum.

Bragi skynjaði þetta og starði bara þögull á skjáinn enda sparkelskur, eins og við þekkjum, en Arnar hafði álíka mikinn áhuga á leiknum og fíll á saumaskap og vildi frekar spjalla. Áttaði sig þó á endanum á því að ekki var góð stemning fyrir því. Þá fór hann hins vegar að fikta í tölvuúrinu sínu – með tilheyrandi óhljóðum. Aaarg.

Ég sver að hefði Arnar, sá góði drengur, ekki verið eðlisfræðikennarinn minn þá hefði ég hent honum út!

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega.

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30