Fara í efni
Fréttir

Rekstrarhagnaður Samherja 8,1 milljarður

Athafnasvæði ÚA við Fiskitanga á Akureyri. Myndir: samherji.is

Rekstrarhagnaður Samherja hf. nam 8,1 milljarði króna á árinu 2023 og var nær óbreyttur frá árinu á undan þegar miðað er við uppgjörsmynt félagsins. Hagnaður af rekstri samstæðu Samherja hf., þegar tekið hefur verið tillit til afkomu hlutdeildarfélaga og fjármagnsliða, nam 8,8 milljörðum króna eftir skatta.

Á aðalfundinum var tekin ákvörðun um greiðslu arðs til hluthafa sem nemur 9% af hagnaði ársins – um 790 milljónir króna.

Þetta kemur fram á vef félagsins í dag. Ársreikningur Samherja hf. fyrir árið 2023 samþykktur á aðalfundi 11. júní.

„Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á efnahagsreikningi Samherja hf. á undanförnum árum og var 2023 fyrsta heila rekstrarárið þar sem starfsemi samstæðunnar spannar einungis veiðar, vinnslu, landeldi og sölu sjávarafurða,“ segir í tilkynningu á vef félagsins.

Þorsteinn Már  Baldvinsson, forstjóri Samherja, tók á móti gestum þegar opið hús var í landvinnslu fyrirtækisins á Dalvík þegar Fiskidagurinn mikli var haldinn í fyrra.

Launagreiðslur 9,4 milljarðar

Á vef Samherja kemur eftirfarandi fram:

  • Á árinu 2023 seldi Samherji afurðir fyrir 62,5 milljarða króna og jukust sölutekjur vegna afurða um 10% frá árinu á undan.
  • Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 11,1 milljörðum króna og jókst um 6,7% frá árinu á undan í uppgjörsmynt félagsins, sem er evra.
  • Tekjur af áhrifum hlutdeildarfélaga námu rúmlega 3 milljörðum króna. Tekjur vegna hlutdeildarfélaga lækka milli ára sem skýrist af tekjufærslu á árinu 2022 vegna breytinga á eignarhlutum í hlutdeildarfélögum það ár.
  • Eignir Samherja hf. í árslok 2023 námu 109,7 milljörðum króna og eigið fé var 80 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar í árslok var 72,9% en var 74% í árslok 2022. Eiginfjárhlutfall hefur haldist hátt undanfarin ár sem endurspeglar traustan efnahag félagsins.
  • Á árinu 2023 voru að meðaltali 722 ársverk hjá samstæðunni en þau voru 686 árið 2022. Launagreiðslur námu samtals 9,4 milljörðum króna.
  • Framangreindar fjárhæðir í rekstrarreikningi eru umreiknaðar úr evrum í íslenskar krónur á meðalgengi ársins 2023 og upphæðir í efnahagsreikningi á lokagengi ársins.

Áhöfnin á Björgúlfi EA í lok góðrar veiðiferðar.

Gott ár

Árið 2023 var gott ár í veiðum, vinnslu, landeldi og sölu afurða, segir á vef Samherja. Þar kemur fram að í grunninn hafi rekstur Samherja hf. verið sterkari en árið áður og aukning orðið bæði í tekjum og hagnaði fyrir afskriftir og fjármagnsliði. „Eiginlegur samdráttur í hagnaði félagsins milli ára skýrist annars vegar af áhrifum skiptingar félagsins á árinu 2022 á efnahag þess og hins vegar af því hvernig eignarhlutur félagsins í Síldarvinnslunni hf. er bókfærður.“

Stærsta fjárfesting sem félagið réðst í á árinu fólst í stækkun landeldisstöðvarinnar Silfurstjörnunnar í Öxarfirði á vegum dótturfélagsins Samherja fiskeldis ehf. Fjárfesting vegna stækkunarinnar nam um fjórum milljörðum króna. Í Silfurstjörnunni verða framleidd um þrjú þúsund tonn af laxi á landi. Sú þekking og reynsla sem hefur byggst upp við rekstur stöðvarinnar mun nýtast í fyrirhugaðri landeldisstöð Samherja fiskeldis á Reykjanesi, segir í tilkynningunni.

Birgir Össurarson sölu- og markaðsstjóri Ice Fresh Seafood eftir að sala hófst á „landlaxi“ og „landbleikju“ Samherja hófst í íslenskum verslunum seint á síðasta ári.

Bjartsýnn á framtíðina

„Rekstur Samherja gekk vel á síðasta ári og efnahagur félagsins er sterkur, eins og ársreikningurinn sýnir glögglega,“ segir forstjórinn, Þorsteinn Már Baldvinsson. „Á árinu stóðum við frammi fyrir ýmsum áskorunum og á starfsfólk félagsins hrós skilið fyrir að hafa mætt þeim með útsjónarsemi og dugnaði.“

Þorsteinn Már bendir á að Samherji selji nánast allar sínar afurðir á erlendum mörkuðum „og þar hafa vextir hækkað í kjölfar aukinnar verðbólgu. Þá hafa stríðsátök haft mikil áhrif á alþjóðaviðskipti. Við slíkar aðstæður sanna traust viðskiptasambönd og öflug sölunet mikilvægi sitt.“

Til að bregðast við skertum aflaheimildum í þorski á undanförnum árum hafi félagið lagt aukna áherslu á vinnslu afurða úr ýsu og ufsa með góðum árangri.

„Náttúruöflin minntu rækilega á sig á síðari hluta ársins þegar jarðhræringar hófust á Reykjanesi sem leiddu til þess að Grindvíkingar þurftu að yfirgefa heimili sín. Þessi atburðarás hafði eðlilega bæði bein og óbein áhrif á starfsemi Samherja fiskeldis ehf.“

Á síðasta ári var haldið upp á 40 ára afmæli Samherja í núverandi mynd „og ég get ekki annað en verið bjartsýnn á framtíðina,“ segir forstjórinn.

Landvinnsla Samherja á Dalvík.

Nýsköpun og fjárfesting

„Hjá Samherja hefur verið unnið eftir þeirri aðferðafræði að nýsköpun og fjárfesting sé forsenda þess að fyrirtækið geti mætt kröfum viðskiptavina og þannig staðið sig í alþjóðlegri samkeppni,“ segir Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Samherja, í tilkynningunni. „Þess vegna hefur verið lögð rík áhersla á að endurnýja skipa- og tækjakost reglulega í því skyni að efla samkeppnishæfni fyrirtækisins. Afkoma síðustu ára sýnir að þessi stefnumörkun hefur skilað góðum árangri. Farsæll rekstur er hins vegar fyrst og fremst öflugu starfsfólki félagsins að þakka sem hefur leyst framúrskarandi vel úr krefjandi verkefnum á sviði veiða, vinnslu, sölu og afhendingar afurða á markaði félagsins.“

Á aðalfundinum var stjórn Samherja hf. endurkjörin. Hana skipa Ásta Dís Óladóttir, Baldvin Þorsteinsson, Dagný Linda Kristjánsdóttir, Kristján Vilhelmsson og Óskar Magnússon. Var Baldvin endurkjörinn formaður stjórnar.