Mun unga fólkið okkar fjárfesta í húsnæði í Móahverfi?
Akureyrarbær auglýsir nú útboð lóða í fyrsta áfanga Móahverfis og fagna ég því að sjá þar birtast áherslur Framsóknarfólks í húsnæðismálum. Í samræmi við rammasamning ríkis og sveitarfélaga þar sem kveðið er á um að 30% húsnæðis eigi að vera hagkvæmt húsnæði eru sett skilyrði um að 20% af þeim íbúðum sem byggðar verði í fjölbýlishúsnunum eigi að falla undir skilmála hlutdeildarlána.Eins og sakir standa þá eru forsendur lánanna reyndar brostnar hér á Akureyri vegna gríðarlegrar hækkunar á fasteignaverði. Hins vegar er í gangi endurskoðun á skilmálum hlutdeildarlána og mikilvægt að henni verði lokið sem fyrst.
Fyrir kosningar vorið 2022 lögðu frambjóðendur Framsóknar á Akureyri áherslu á að ungu fólki yrði hjálpað að koma þaki yfir höfuð sér. Ég leyfi mér að endurbirta hér brot úr grein minni Hvar á unga fólkið að búa? sem birtist í á Akureyri.net í apríl á síðasta ári en þar beini ég sjónum að mikilvægi hlutdeildarlána í þessu samhengi, þótt nauðsynlegt sé einnig að skoða fleiri leiðir í framhaldinu. Sem dæmi er greiðslubyrðarhlutfall Seðlabankans að gera ungu fólki erfiðara fyrir en samkvæmt því má afborgun einungis vera 35-40% af útborguðum launum.
Hvar á unga fólkið að búa?
Unga fólkið er framtíð Akureyrar og hér vilja þau í meira mæli festa rætur en hafa eðlilega áhyggjur af hækkandi fasteignaverði. Við í Framsókn viljum auðvelda ungu fólki að koma þaki yfir höfuð sér og einn liður í því er að tryggja að hér verði byggðar íbúðir sem henta við úthlutun hlutdeildarlána.
Lán fyrir útborgun
Frumvarp um hlutdeildarlán, sem lagt var fram af félags- og barnamálaráðherra Ásmundi Einari Daðasyni og samþykkt árið 2020, er ætlað að auðvelda tekju- og eignalitlum einstaklingum að eignast sína fyrstu íbúð. Hlutdeildarlánin bera hvorki vexti né afborganir á lánstímanum. Lántakendur endurgreiða hlutdeildarlánið þegar íbúðin er seld.
Dæmi:
- Kaupandi leggur fram a.m.k. 5% kaupverðs í útborgun.
- Kaupandi tekur húsnæðislán fyrir 75% kaupverðs.
- Húsnæðis- og mannvirkjastofnun veitir kaupanda hlutdeildarlán fyrir allt að 20% kaupverðs.
Forgangsverkefni á næsta kjörtímabili
Við í Framsókn viljum tryggja að í boði verði fleiri hlutdeildarlánaíbúðir með sérstökum reglum í úthlutun lóða eða semja beint við byggingarverktaka um byggingu slíkra íbúða með sérstökum samningum við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Við teljum að þegar lóðaframboð eykst, sem er algjör grunnforsenda, og meiri ró kemst á markaðinn sé þetta gerlegt og eigi að vera forgangsverkefni á næsta kjörtímabili.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri