Mótmæli sjálfstæðismanna
Á meðan flestir landsmenn fagna nýgerðum samningum á vinnumarkaðnum, lýsir forystufólk sjálfstæðisflokksins á sveitarstjórnarstiginu yfir óánægju sinni með þann hluta nýrra kjarasamninga sem snýr að gjaldfrjálsum máltíðum í skólum. Ef marka má fréttir þá var það þó einmitt samkomulag um gjaldfríar skólamáltíðir sem að lokum varð til þess að samningar náðust, samningar sem flestir telja til tímamótasamninga. Í yfirlýsingu forystufólks sjálfstæðisflokksins á sveitastjórnarstiginu segja þau að skort hafi á upplýsingar varðandi þennan þátt samninganna sem virðist hafa komið þessu fólki mjög á óvart. Þess ber að geta að það var varaformaður sjálfstæðisflokksins sem jafnframt er fjármálaráðherra sem kynnti aðkomu ríkisins að samningunum auk þess sem ríkisstjórnin öll, þ.m.t. formaður sjálfstæðisflokksins og aðrir ráðherrar höfðu áður lagt blessun sína yfir málið. Ef marka má sveitarstjórnarfólkið hefur eitthvað farið úrskeiðis í innanflokksboðleiðum sjálfstæðisflokksins sem varð til svo til þess að þau hóta nú að standa ekki við þann hluta kjarasamningana sem að þeim snýr.
Hugmyndafræðileg andstaða
Fólk getur haft hvaða skoðun sem er á gjaldfríum skólamáltíðum eða öðru í nýgerðum samningum á vinnumarkaðinum en afstaða þeirra sem eiga að fylgja þeim eftir verður að vera skýr. Því þurfa bæjar-og sveitarstjórnarfulltrúar sjálfstæðisflokksins um allt land að gera íbúum sinna sveitarfélaga grein fyrir afstöðu sinni og vilja til að standa við gerða kjarasamninga. Einn af þeim sem skrifar undir mótmælin er Heimir Örn Árnason, oddviti sjálfstæðisflokksins á Akureyri, formaður bæjarráðs, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar og núverandi formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs. Heimir Örn skrifaði reyndar grein á akureyri.net fyrir nokkrum dögum þar sem hann áréttar að bæjarstjórn Akureyrar muni ekki standa í vegi fyrir gerð kjarasamninga en nú virðist vera komið komið babb í bátinn. Hvað hyggst sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri að gera? Mun hann standa í vegi fyrir því að barnafólk á Akureyri fái notið þeirra kjarabóta sem fást með gjaldfríum skólamáltíðum? Það vekur sömuleiðis athygli að sjálfstæðisflokkurinn á landsvísu sé einn að fara gegn málinu á meðan aðrir flokkar virðast ætla að standa við sitt. Andstaða sveitar- og bæjarstjórnarfulltrúa sjálfstæðisflokksins gegn fríum skólamáltíðum virðist þvi vera af hugmyndafræðilegum ástæðum umfram annað.
Skýr svör
Hvaða skoðun hafa samstarfsflokkar sjálfstæðisflokksins í bæjarstórn Akureyrar á framgöngu formanns bæjarráðs í þessu máli og afstöðu sjálfstæðisflokksins til þess? Mun meirihlutinn standa við sitt eða hrökkva úr skaftinu með sjálfstæðisflokknum?
Meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar verður að svara fyrir þetta mál á allra næstu dögum og gera launafólki á Akureyri sem og Akureyringum öllum skýra grein fyrir því hvað þau ætla sér að gera. Ætla þau að standa við nýgerða samninga eða sprengja þá?
Innanflokksátök í sjálfstæðisflokknum mega ekki verða til að setja vinnumarkaðinn í uppnám.
Björn Valur Gíslason er sjómaður á Akureyri og fyrrverandi alþingismaður