Mjög spennandi tími framundan í Þór
Handboltaþjálfarinn Stevce Alusovski frá Norður-Makedóníu segist spenntur fyrir því verkefni sem framundan er hjá Þór. Hann kom til félagsins síðastliðið haust og hefur samið á ný, til þriggja ára, eins og Akureyri.net greindi frá í gær. Stevce þjálfar meistaraflokk karla og vinnur einnig náið með þjálfurum yngri flokka.
Það vakti gríðarlega athygli þegar þjálfarinn kom til Þórs síðasta sumar enda hafði hann síðast þjálfað norður-makedónska stórliðið Vardar í frá Skopje og væntanlega vekur það ekki síður athygli að hann skuli semja á ný til svo langs tíma.
Mjög ánægður
„Ég er mjög ánægður með að vera á Akureyri og að starfa fyrir Þór. Ég vil vera áfram í félaginu vegna þess að mér finnst verkefni næstu ára gríðarlega spennandi; ég tel okkur hafa mjög mikla möguleika á að búa til lið sem getur fest sig í sessi í efstu deild, það er mitt verkefni og annarra sem vinna fyrir félagið að tryggja að það takist.“
Stevce segir marga unga og efnilega leikmenn í herbúðum Þórs. „Ég nefni Viðar Reimarsson, Viktor [Jörvar Kristjánsson] og Jón [Ólaf Þorsteinsson] en gæti talið upp marga fleiri. Þessir strákar voru tiltölulega óreyndir fyrir keppnistímabilið en hafa nú öðlast dýrmæta reynslu og geta gert mjög góða hluti næsta vetur. Ég held að þeir muni bæta sig, bæði tæknilega og varðandi leikskipulag, á næsta keppnistímabili. Það verður mjög skemmtilegt verkefni fyrir mig og alla þessa stráka að vinna saman næstu árin.“
Mikil áskorun og spennandi
Erlendu leikmennirnir tveir sem voru með Þór í vetur, örvhenta skyttan Tomislav Jagurinovski og leikstjórnandinn Josip Kezic, koma ekki aftur. „Við munum fá leikmenn í stað þeirra. Þessi deild verður aftur góð næsta vetur og liðin sem féllu, HK og Víkingur, verða erfiðir andstæðingar.“
Það kom mörgum á óvart, sem fyrr segir, að þjálfarinn tæki að sér að þjálfa lið í næst efstu deild á Íslandi, sú goðsögn sem hann er.
„Já, það kom mörgum á óvart að ég skyldi koma hingað. Mörg félög höfðu samband við mig en mér fannst verkefnið hér strax spennandi og hér hef ég allt til alls. Aðstæður eru mjög góðar, margir ungir og efnilegir strákar og það er gott fólk sem starfar fyrir Þór. Mín sýn fyrir framtíðina er skýr; við erum með góðan hóp af ungum leikmönnum, ætlum að bæta einhverjum við því okkur vantar menn í ákveðnar stöður, og með góðri, faglegri vinnu viljum við koma Þór á réttan stað í handboltanum – upp í efstu deild, og festa félagið í sessi þar. Það er mjög mikil áskorun fyrir mig og ekki síst þess vegna þykir mér verkefnið svo spennandi.“