Martha heiðruð og KA/Þór vann Hauka
KA/Þór vann Hauka með eins marks mun, 26:25, í Olísdeild Íslandsmótsins í handbolta í KA-heimilinu í gær.
- Fyrir leikinn var Martha Hermannsdóttir heiðruð af stjórnendum KA/Þórs og hyllt af mörgum stuðningsmönnum liðsins. Martha, burðarás og fyrirliði KA/Þórs til margra ára – m.a. þegar liðið varð Íslands- og bikarmeistari vorið 2021 – ákvað að leggja skóna á hilluna í sumar og því var vel við hæfi að heiðra hana fyrir ómetanlegt framlag, fyrir fyrsta heimaleik liðsins í vetur.
Leikurinn var æsispennanandi en Anna Þyrí Halldórsdóttir tryggði Stelpunum okkar bæði stigin með sigurmarkinu rétt fyrir leikslok.
Leikurinn var í jafnvægi í fyrri hálfleik og staðan 10:10 að honum loknum. KA/Þór byrjaði mun betur í seinni hálfleik en gestirnir neituðu að játa sig sigraða og úr varð skemmtilegur spennuleikur.
Mörk KA/Þórs: Lydía Gunnþórsdóttir 5, Rut Jónsdóttir 5, Kristín A. Jóhannsdóttir 4, Unnur Ómarsdóttir 4, Anna Þyrí Halldórsdóttir 3, Hrafnhildur Irma Jónsdóttir 2, Katrín Vilhjálmsdóttir 1, Júlía Björnsdóttir 1, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 20.
Rut Arnfjörð sækir að vörn Haukaliðsins í gær. Ljósmynd: Egill Bjarni Friðjónsson