Fara í efni
Umræðan

Landsvirkjun á villigötum eða dulbúin stórhækkun á raforkuverði

Í grein sem birtist á RÚV þann 7. janúar s.l. undir yfirskriftinni «Raforkan telst ekki lengur græn nema gegn gjaldi» er því lýst að frá áramótum fylgi græn upprunavottorð ekki lengur með þegar rafmagn er keypt af Landsvirkjun og að vottanirnar séu þess í stað seldar á evrópskum markaði.

Veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja umfjöllun um þetta kúnstuga mál, sem er í senn tómar afbakanir á staðreyndum og gengur um leið gegn hagsmunum okkar sem þjóðar og eigenda raforkuauðlindanna og Landsvirkjunar.

Ef skilja á hreinleikavottorðin frá við sölu á raforku hér innanlands og selja sérstaklega á verði sem ákvarðast á samevrópskum orkumarkaði, sem nú er sagt vera 1,30 kr pr kílóvattstund, þá ætti raforkuverðið hér heima að lækka um sömu upphæð, því annars erum við gróft reiknað að tala um 15 - 25% hækkun á raforkuverði á einu bretti um áramótin háð þeim töxtum sem almenningur og fyrirtæki greiða nú fyrir raforkuna.

Okkar vistvæna endurnýjanlega orka er einn af mestu styrkleikum innlendrar framleiðslu og jafnvel það eina sem gefur raunverulegt samkepppnisforskot þegar innlend landbúnaðar- og matvælaframleiðsla á í hlut.

Val Ægissyni forstöðumanni viðskiptastýringar Landsvirkjunar er tíðrætt um það í greininni hversu mikilvægt þetta sé í Evrópu þar sem menn kaupa raforkuna af samtengdu neti þar sem uppruni orkunnar sé ekki ljós, því kaupi menn hreinleikastimpilinn sér.

Mig langar bara að benda honum á að þetta hefur bara ekkert með okkur hér á Íslandi að gera sem ekki erum aðilar að þessu raforkuneti og vilji þjóðarinnar í þeim efnum einnig mjög skýr: Ísland ætlar ekki að tengjast netinu með sæstreng eða öðrum leiðum.

Af fréttinni má ljóst vera að ekki stendur til hjá Landsvirkjun að lækka verð á raforkunni innanlands þó henni fylgi ekki lengur hreinleikavottorð, því fram kemur að Landsvirkjun hafi haft um 2 milljarða í tekjur af sölu upprunavottorða sem gætu orðið 15 milljarðar eftir þessa breytingu.

Ef rétt er þá er hér um hreinræktuð vörusvik að ræða eða verðhækkun uppá 15 til 25% til íslensk iðnaðar og neytenda hér á landi.

Þetta er því miður engin ný auðlind, þvert á móti ekkert annað en brútal verðhækkun á raforku til innlendra notenda, verði orkuverðið vottorðalaust ekki lækkað um sömu upphæð.

Sakna þess líka í þessari umfjöllun að sjá mat á áhrifum þessarar ákvörðunar á kolefnisbókhald okkar íslendinga og hvort og hvernig þetta samrýmist vilja og ákvörðunum þjóðarinnar um umgengni við orkuauðlindina.

Þetta á einfaldlega ekki að láta viðgangast.

Hólmgeir Karlsson er framkvæmdastjóri á Akureyri

Framtíðin er núna

Ingvar Þóroddsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 13:00

Valdið til fólksins – lykillinn að sterkara þjóðfélagi

Theodór Ingi Ólafsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 12:00

Félagshyggja hvað er nú það?

Haraldur Ingi Haraldsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:19

Blórabögglar og gylliboð frá vinstri

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 20:00

Lykill að áframhaldandi velgengni

Birgir Orri Ásgrímsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 18:50

Eflum löggæslu

Grímur Grímsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 17:30