Fara í efni
Pistlar

Kvikmyndir og raunveruleiki

Þegar ég læt eftir mér að horfa á hressilega glæpamynd, morð og vonda kalla (hvers kyns sem þeir kunna að vera), hetjur í sálarkrísu og fullt af fólki sem þarf að drepast svona til að krydda, þá ber oft á ískyggilegum þorpurum sem stunda okurlán. Þessir karakterar eru oftast svipljótir og slóttugir til augnanna og oftast nær fer illa fyrir þeim, drepnir á götum úti eða í fangelsum. Í svoleiðis myndum er frekar ljóst að glæpir eins og okurlán borga sig ekki og góða fólkið fær farsælan endi. Þetta er einhverskonar sýn á veröld þar sem illum er refsað, góðum er umbunað og almenningur virðist geta treyst því að réttlætið sigri að lokum.

Einhverra hluta vegna virðist þessi draumsýn ekki vera til staðar í þessum óneitanlega kapítalíska heimi sem maður fæðist inn í. Okurlánarar eru reyndar til staðar í þessu samfélagi en alls ekki neinir glæpamenn. Í þessu þjóðfélagi er þeim hampað og byggðar um þá hallir, sem kallast bankar. Þetta göfuga starf okurlánaranna er svo lofsungið í fréttum fyrir mikinn dugnað við að hafa sem mest út úr almenningi og milljarðagróði þessara banka lofaður í hástert í fréttum á meðan fórnarlömb þessa mannvonskulega hagkerfis eru ekki mikið til umfjöllunar, þar sem að peningaeign er talin til dyggða en fátækt er eitthvað sem er byrði á herðum þeirra ríku. Raunveruleikinn er þannig eins og fallegt ævintýri með öfugum formerkjum. Hans og Gréta eru étin af norninni og hún fær síðan bjartsýnisverðlaun og ívilnanir fyrir dugnaðinn við að fækka fátæklingum. Svo þegar brestur á kreppa, þá er stórfyrirtækjum færður aukaskammtur af peningum sem sagt er að sé til að fólk haldi vinnu. En í samræmi við kapítalismann, þá er affarasælast að reka bara nokkra (eða marga) úr starfi og hirða summuna til að púkka undir forstjórana. En það að vera forstjóri virðist komast næst því að vera í heilagra manna tölu. Fyrrverandi stéttlaus þjóðfélög taka þessu öllu fegins hendi, þar sem það býður fólki að sanka að sér peningum til að geta verið skör hærra en almúginn.

Það sem er þó kostulegast er að ef maður vekur máls á þessu ómanneskjulega kerfi, þá er það umsvifalaust skotið í kaf sem væl, svona letingjavæl vegna þess að allt böl mannanna felst í því að þeir sem nenna ekki að vinna geta bara sjálfum sér um kennt. Og þá er ekki spurt um hvað liggur að baki örbyrgð þeirra sem iðulega eiga hvorki til hnífs né skeiðar. Eins og skáldið sagði: - Þetta þykja mér skrýtnar tvíbökur!

Sigurður Ingólfsson er rithöfundur og þýðandi

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30