Fara í efni
Umræðan

Kostnaður ofbeldis

Stjórnvöld, ríki og sveitarfélög leggja sig fram við að búa íbúum sínum aukin lífsgæði m.a. með því að byggja upp öruggara samfélag. Forvarnir eru mikilvægur liður í því og endurspeglast þær í aðgerðum og stefnumótun sem miða að því að fyrirbyggja og bregðast við með snemmtækum stuðningi m.a. til að draga úr þeim áhættuþáttum sem ýta undir ofbeldi. En hver er ávinningur og virði ofbeldisvorvarna?

Ávinningur og virði ofbeldisforvarna

Til að átta okkur á virði ofbeldisforvarna þurfum við að skilja efnahagslegan kostnað ofbeldis. Eitt einstakt ofbeldistilvik kostar mun meira en mörg átta sig á og með markvissum forvarnaraðgerðum getum við dregið úr kostnaði svo um munar, vegur þar þyngst hinn andlegi og líkamlegi kostnaður mögulegra þolenda ofbeldis sem komið er í veg fyrir.

Það getur verið flókið að leggja mat á áhrif ofbeldis og það er ekki enn til fullmótuð aðferðarfræði til að meta öll hin víðtæku áhrif ofbeldis en það er þó hægt að áætla kostnað þess upp að einhverju marki og við vitum að ofbeldi er dýrt fyrir bæði ríki og sveitarfélög. Þessum kostnaði er í grófum dráttum skipt í beinan kostnað sem stafar af ofbeldisatburðinum sjálfum og kemur fram strax við ofbeldið eða í beinum tengslum við það og hinsvegar óbeinan kostnað sem kemur í kjölfar ofbeldisins með ytri áhrifum sem geta verið gríðarlega víðtæk og flókin að meta. Það er auðveldara að mæla beinan kostnað ofbeldis en flestar áætlanir taka einungis til beinna efnahagslegra áhrifa þar sem kostnaður ofbeldis kemur fram í kerfinu. Sá kostnaður birtist til dæmis hjá lögreglunni, í heilbrigðiskerfinu, hjá félagsþjónustunni, hjá barnaverndaryfirvöldum, í skólakerfinu, í kvennaathvörfum og víðar. Óbeinn kostnaður ofbeldis gefur til kynna áhrif umfram það sem snýr beint að þolendum eða gerendum og nær einnig til óbeinna þolenda ofbeldisins og oft samfélagsins alls. Kostnaður er því bæði beinn og óbeinn og það getur verið sérstaklega flókið að mæla samfélagslegan kostnað ofbeldis.

Samfélagslegur kostnaður ofbeldis

Samfélög finna hinsvegar fyrir áhrifum ofbeldis á margvíslegan máta og má þar nefna félagslegan kostnað sem felur í sér að traust og samheldni samfélagsins minnkar, efnahagslegan kostnað sem felur í sér aukið álag á innviði samfélagsins ásamt því að oft verður tap á framleiðni í kjölfar ofbeldis. Sálrænn kostnaður einstaklinga felur í sér áfall við ofbeldið sjálft, mögulega ótta og streitu sem geta haft stór langtímaáhrif og jafnvel haft í för með sér atvinnumissi eða skólaforðun eftir atvikum.

Starfsfólk sveitarfélaga verður einnig að muna að ofbeldi getur haft áhrif á lýðræði með minnkaðri þátttöku íbúa og því mikilvægt að leggja áherslu á að það að takast á við ofbeldi krefst heildstæðra lausna sem fela í sér fjárfestingu í forvörnum og snemmtækum stuðningi svo sveitarfélög búi yfir þeim úrræðum sem eru nauðsynleg til að byggja upp öruggari og sjálfbærari samfélög laus við ofbeldi. Það er ekki hægt að líta framhjá því að ofbeldi fylgir gríðarlegur kostnaður fyrir bæði ríki og sveitarfélög og hér er ekki talinn með hinn andlegi og líkamlegi kostnaður þeirra einstaklinga sem fyrir ofbeldinu verða. Ofbeldi og áreitni er samfélagsmein sem er öllu samfélaginu mjög dýrt.

Aðgerðir og stefnumörkun

Forvarnir endurspeglast víða og vörn gegn ofbeldi kemur víða fram í lögum, reglugerðum, alþjóðasamningum og öðrum verkefnum ríkis og sveitarfélaga þar sem meginmarkmiðið er að bæta samfélagið og leggja áherslu á það að öll eigi jafnan rétt til lífs án ofbeldis og áreitni.

Forvarnir gegn ofbeldi standa því vörð um grundvallarmannréttindi einstaklinga og sérstaklega mikilvægt er að unnið sé markvisst að forvörnum meðal barna og ungmenna en rannsóknir sýna að snemmtækar forvarnir gegn ofbeldi hafa efnahagslegan ávinning. Um leið og við leggjum mat á áhrif ofbeldis sjáum við að það er mikilvægt að fjárfesta í fyrirbyggjandi aðgerðum þar sem snemmtækar forvarnir geta haft verulegan fjárhagslegan ávinning til framtíðar. Markvissar og vandaðar forvarnir geta ekki einungis komið í veg fyrir ofbeldi áður en það á sér stað, það getur einnig komið í veg fyrir þróun ofbeldis til lengri tíma. Það er mun dýrara fyrir ríki og sveitarfélög að bregðast við ofbeldi sem hefur átt sér stað en að koma í veg fyrir það áður en það gerist.

Það hefur sannarlega verið þörf á aðgerðum til að stemma stigu við þróun í ofbeldismálum en nú þurfum við að taka höndum saman og ganga í takt; ríki, sveitarfélög, starfsfólk sem starfar með börnum og ungmennum, foreldrar og öll hin og saman vinnum við að því að auka lífsgæði allra íbúa með því að byggja upp öruggara samfélag.

Alfa Jóhannsdóttir er forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga 

Greinin birtist fyrst í Sveitastjórnarmálum á Fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Bleikur dagur

Ingibjörg Isaksen skrifar
23. október 2024 | kl. 13:30

Umbúðalaust

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
22. október 2024 | kl. 11:07

Skýr stefna Miðflokksins er að skila flokknum fylgisaukningunni nú

Hólmgeir Karlsson skrifar
21. október 2024 | kl. 06:00

Svikinn héri að hætti hússins – Ekki lýðræðisveisla

Hjörtur Hjartarson skrifar
20. október 2024 | kl. 09:00

Styðjum Njál Trausta með sjálfstæðisstefnuna í öndvegi

Guðjón Steindórsson og Ragnar Ásmundsson skrifa
18. október 2024 | kl. 19:30

Menntun eða próf II

Sverrir Páll skrifar
18. október 2024 | kl. 14:00