Fara í efni
Umræðan

Kjalvegur Y

NORÐAUSTURKJÖRDÆMI – 8

Sem fræðimaður og áhugamaður um byggðamál skrifa ég hér átta stuttar greinar um mikilvægustu málin í Norðausturkjördæmi að mínu mati.

Í áttunda sæti er Kjalvegur Y.

Það er hægt að búa til algjörlega nýtt landslag í vegasamgöngum fyrir Norðlendinga með því að gera nýjan Kjalveg. Með því að kalla hann Kjalveg Y er undirstrikað að hann er þriggja arma eins og Y. Einn armurinn lægi upp úr Skagafirði að Hveravöllum, það er ný leið. Annar armur lægi frá Hveravöllum niður til Gullfoss, sumstaðar á sama stað og núverandi Kjalvegur en þó austan Bláfells. Þriðji armurinn er síðan núverandi Kjalvegur upp úr Húnaþingi sem er góður uppbyggður vegur en á eftir að leggja slitlagi. Kjalveg Y yrði næsta örugglega hægt að fjármagna eingöngu með veggjaldi.

Væntanlega yrðu vetrarskilyrði á Kjalvegi svipuð og þar sem Hringvegurinn liggur um Möðrudalsöræfi. Kjalvegur yrði ekki meira og minna lokaður eins og sumir halda.

Af hverju er Kjalvegur Y mikilvægur? Hvað fæst með Kjalvegi Y? Hvernig bætir hann líf okkar? Þessi vegur er ekki í Norðausturkjördæmi en hefur hins vegar gífurleg áhrif þar, en þó minni eftir því sem austar dregur. Áhrifin yrðu töluverð í Vopnafirði og á Jökuldal en ekki mikil en einhver á Mið-Austurlandi. Það er fyrst og fremst tvennt sem gerist með Kjalvegi.

Annars vegar að tengja Norðurland og Suðurland saman. Nú er mjög langt á milli þessara landshluta og þeir geta verið í takmörkuðum samskiptum vegna fjarlægðar. Á Suðurlandi er gróska mikil og þar eykst byggð hratt, þar er allt í gangi. Ávinningur af tengingu við þennan landsfjórðung eykst með hverju árinu. Með Kjalvegi yrði Suðurland í svipaðri fjarlægð frá Norðurlandi eystra og Vesturland. Ekki yrðu nema 216 km milli Akureyrar og Gullfoss. Það er styttra en milli Akureyrar og Staðarskála. Einungis 287 km yrðu milli Akureyrar og Selfoss.

Hins vegar kæmu mun fleiri ferðamenn til Norðurlands ef Kjalvegar nyti við. Líklega myndi Kjalvegur valda byltingu í þeim efnum. Erlendir ferðamenn koma inn um Keflavík og mjög stór hluti þeirra fer að Gullfossi. Með Kjalvegi yrði mikil freisting að halda áfram, upp á hálendið milli jökla, áfram niður í Húnaþing eða Skagafjörð og jafnvel áfram um Norðurlandi til Akureyrar og Mývatns. Það mynduðust nýjar hringleiðir til að fara um Ísland. Kjalvegur Y er mikilvægur til að dreifa ferðamönnum betur um Ísland.

Hér er því í þriðja sinn af átta greinum komið inn á betri skilyrði til ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi. (Hinar um utanlandsflug og gerbreytt vegakerfi).

Hér í lokin má sjá breytingu á nokkrum vegalengdum og mynd.

 

Núverandi leið (km)

Með Kjalvegi Y (km)

Stytting (km)

Akureyri – Gullfoss

470 (Mosfellsheiði)

216

254

Akureyri – Selfoss

430

287

143

Akureyri – Flúðir

472 (Hellisheiði)

248

224

Akureyri – Hvolsvöllur

479

312

167

Akureyri – Reykjavík

388

341 (Hellisheiði)

47

 

 

Jón Þorvaldur Heiðarsson er lektor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 16:00

Hægt með krónunni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 11:15

Uppbygging Akureyrarflugvallar hefur aukið lífsgæði íbúa

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:10

Heimur á villigötum

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:00

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45