Fara í efni
Íþróttir

KA-menn tómhentir heim frá Hlíðarenda

KA-maðurinn Rodri og Patrick Pedersen framherji Vals bíða eftir boltanum í undanúrslit bikarkeppninnar í fyrra. Þá hafði KA betur en Valsmenn fögnuðu fyrsta deildarsigri sumarsins í kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn fóru tómhentir frá Hlíðarenda í kvöld eftir 3:1 tap fyrir Valsmönnum í 3. umferð Bestu deildarinnar, efstu deildar  Íslandsmótsins í knattspyrnu. Sigur Vals var sanngjarn og KA er eitt fjögurra liða sem eru með eitt stig að loknum þremur umferðum. 

Þetta var fyrsti sigur Vals í deildinni í sumar. KA fékk eitt stig í fyrstu umferðinni, með jafntefli við KR, en hefur nú tapað fyrir Víkingi og Val á útivelli.

Valsmenn byrjuðu miklu betur í kvöld og það var algjörlega í takt við gang leiksins þegar Jónatan Ingi Jónsson gerði fyrsta markið á 14. mínútu. Fljótlega eftir að heimamenn tóku forystu vöknuðu KA-strákarnir hins vegar til lífsins, voru mikið með boltann en ógnuðu marki Valsmanna reyndar ekki verulega, nema hvað skot Hallgríms Mars Steingrímssonar rétt utan vítateigs smaug naumlega framhjá markinu.

Valsmenn skoruðu aftur áður en fyrri hálfleikurinn var úti – gegn gangi leiksins; Tryggvi Hrafn Haraldsson var þar að verki. Varnarleikur KA var ekki sannfærandi í fyrra markinu og á 43. mín. átti Birkir Heimisson frábæra sendingu inn fyrir vörn KA á Tryggva sem skoraði. Hann renndi boltann undir Steinþór markvörð sem kom út á mótin honum. Varnarmaður hugðist skalla boltann áður en hann barst til Tryggva en misreiknaði sig.

Það var svo eftir aðeins 10 mín. í seinni hálfleik sem Jónatan Ingi gerði endanlega út um leikinn með öðru marki sínu. Aftur sendi Birkir boltann inn fyrir vörnina, Jónatan fékk hann upp við endamörk vinstra megin, fór illa með KA-menn og skoraði laglega.

Ásgeir Sigurgeirsson minnkaði muninn fyrir KA skömmu síðar þegar hann skallaði boltann í markið eftir sendingu Bjarna Aðalsteinssonar. Þá var um hálftími enn eftir en sá drjúgi tími dugði KA-mönnum til að komast nær.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni

Næsti leikur KA í deildinni er á sunnudaginn þegar FH kemur í heimsókn.