Fullkomna KA-konur fernuna í kvöld?

Árangur kvennaliðs KA í blaki hefur verið hreint magnaður á undanförnum árum, sigrarnir og titlarnir nánast óteljandi og í kvöld getur einn bikar í viðbót bæst í safnið.
Kvennalið KA hefur nú þegar unnið alla þrjá titlana sem í boði hafa verið á tímabilinu. KA-konur hófu tímabilið á að vinna þá ríkjandi bikarmeistara Aftureldingar í leiknum um meistara meistaranna síðastliðið haust. Núna í vetur unnu þær svo bikarkeppnina, Kjörísbikarinn, og urðu deildarmeistarar Unbroken-deildarinnar. Þrír bikarar komnir í hús, einn eftir, og þar stendur KA-liðið vel að vígi eftir tvo sigra og leiðir einvígið við Völsung 2-0.
Þriðji leikur KA og Völsungs í úrslitaeinvíginu fer semsagt fram í KA-heimilinu í kvöld. Með sigri tryggir KA sér fjórða bikarinn á leiktíðinni.
- Íslandsmót kvenna í blaki, Unbroken-deildin, úrslitaeinvígi, leikur 3
KA-heimilið kl. 19 (athugið breyttan leiktíma)
KA - Völsungur