Fara í efni
Íþróttir

Mörk Þórs/KA í gær - MYNDASYRPA

Leikmenn Þórs/KA fagna seinna marki liðsins í 2-1 sigri á Tindastóli í Boganum í gær. Mynd: Ármann Hinrik.

Ein mynd getur sagt meira en þúsund orð og 20 myndir geta sagt tvær skemmtilegar smásögur. Þór/KA og Tindastóll áttust við í 2. umferð Íslandsmóts kvenna í knattspyrnu, Bestu deildarinnar, í Boganum í gær. Leikurinn var ágætis skemmtun og lauk með dramatískum hætti þegar Bríet Jóhannsdóttir skoraði annað mark Þórs/KA á 88. mínútu. 

Áhugaljósmyndarinn Ármann Hinrik var á staðnum og tók meðal annars meðfylgjandi myndir sem sýna aðdraganda og eftirmála markanna tveggja sem Þór/KA skoraði í leiknum.

1-1 - Karen María Sigurgeirsdóttir, 52. mínúta

Tindastóll náði forystunni á 4. mínútu. Makala Woods skoraði markið og litlu munaði að hún næði að koma gestunum í 2-0 snemma í seinni hálfleiknum þegar hún átti skot framhjá í upplögðu færi. Um 90 sekúndum síðar lá boltinn í netinu hinum megin og staðan 1-1.

Áður en kom að þessum augnablikum sem myndasyrpan sýnir skaut Karen María Sigurgeirsdóttir í varnarmann með hægri, fékk boltann aftur og skaut í stöng með vinstri. Varnarmaður Tindastóls hreinsaði frá, en aftur barst boltinn inn á teiginn þar sem Bríet Fjóla Bjarnadóttir pressaði og vann boltann, átti marktilraun, en markvörður Tindastóls náði að verja boltann út í teiginn – mögulega brotleg með vinstri fæti í leiðinni og kannski hefði Þór/KA fengið víti ef framhaldið hefði orðið öðruvísi en það varð – en á meðan Bríet Fjóla tók flugið rann boltinn út í teiginn þar sem Sandra María Jessen og Karen María Sigurgeirsdóttir voru klárar í framhaldið. Sandra María snertir boltann og sér að Karen María er klár í skotið. Boltinn fór svo sína leið upp í markhornið og staðan orðin jöfn. Því er svo auðvitað fagnað vel og innilega.

2-1 - Bríet Jóhannsdóttir - 88. mínúta

Nokkur bið varð eftir því að Þór/KA tækist að skora annað markið, en það kom á endanum. Þegar innan við þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma fékk Þór/KA innkast. Bríet Jóhannsdóttir fékk boltann með hraði hjá boltasæki á vinstri kantinum, tók innkastið og kom boltanum upp að endamörkum þar sem Hulda Ósk Jónsdóttir tók við honum og sendi aftur út til Bríetar.

Hrafnhildur Salka Pálmadóttir (4) reyndi að stöðva Bríeti, fyrirliðinn Sandra María Jessen kallaði eftir aukaspyrnudómi, Bríet lét sér það í léttu rúmi liggja, reif sig lausa og ákvað að setja boltann í átt að markinu, við fjærstöngina og í markið. Markvörður Tindastóls sér boltann seint og nær ekki til hans, ekki frekar en þær sem reyndu að ná til hans á leiðinni.

Hvort sem fólk vill kalla það lélega fyrirgjöf, óvart mark eða eitthvað annað þá endaði boltinn í markinu án þess að nokkur næði að hefta för hans eða breyta stefnunni. Bríet gerði vel, losaði sig úr greip andstæðings og skoraði. Markið telur jafn mikið óháð fegurð eða fyrirætlan og stigin eru þrjú eins og í öðrum sigrum.