Fara í efni
Íþróttir

Jónatan Magnússon þjálfar KA/Þór á ný

Jónatan Þór Magnússon og Stefán Guðnason, formaður kvennaráðs KA/Þórs handsala samninginn. Mynd af vef KA.

Jónatan Magnússon verður þjálfari kvennaliðs KA/Þórs í handbolta næstu leiktíðir. Tilkynnt var á vef KA í dag að Jónatan hefði gert þriggja ára samning.

Jónatan þjálfaði KA/Þór frá 2016 til 2019 og var við stjórnvölinn þegar liðið komst upp í efstu deild, við upphaf þeirrar miklu velgengni sem varði í nokkur ár. Hann tekur við af Örnu Valgerði Erlingsdóttur sem þjálfaði liðið í vetur.

„Þetta eru frábærar fréttir. Jónatan er einn besti þjálfari landsins og það er mjög gott fyrir KA/Þór að fá slíkann þjálfara í brúnna. Nú hefst mikið uppbyggingarferli og gæti ég ekki hugsað mér betri mann í þetta verkefni en Jónatan,“ segir Stefán Guðnason, formaður kvennaráðs KA/Þórs, á heimasíðu KA.

Stefán þakkar Örnu Valgerði fyrir vel unnin störf, en hún lætur af stjórn KA/Þórs að leiktíðinni liðinni.

„Arna Erlingsdóttir bjargaði okkur algjörlega síðasta sumar þegar hún steig inn í mjög krefjandi aðstæður hjá okkur. Lykilmenn voru dottnir út eða farnir. Það þurfti mikið hugrekki hjá henni að taka við liðinu í því ástandi sem það var,“ segir Stefán.

„Hún var hins vegar heiðarleg við okkur frá byrjun að hún stefndi á frekara nám í þjálfarafræðunum á næsta ári og ætlaði að kúpla sig út úr þjálfun það sama ár, enda kom þetta tækifæri mun fyrr upp fyrir hana en hún stefndi á. Það gaf okkur svigrúm og góðan tíma til að finna nýjan þjálfara og þegar ljóst var að Jonni væri áhugasamur um verkefnið sem bíður hans var þetta aldrei spurning.“

KA/Þór er í mikilli fallhættu. Liðið tekur á móti Aftureldingu á morgun og verður að vinna þá, svo og að leggja Fram að velli í Reykjavík í lokaumferð deildarinnar, til þess að eiga möguleika á að halda sæti í deildinni.