Jón Stefán og Perry hættir með Þór/KA
Jón Stefán Jónsson og Perry Mclachlan eru hættir sem þjálfarar meistaraflokks Þórs/KA í knattspyrnu.
Jón Stefán skrifaði eftirfarandi færslu á Facebook rétt í þessu:
„Stundum enda hlutirnir alls ekki eins og maður vildi eða sá fyrir sér. Í gærkvöld fékk ég símtal þar sem mér var mér tilkynnt af stjórn Þór/KA að minna krafta væri ekki óskað lengur sem annars af þjálfurum meistaraflokks kvenna.
Þar sem ég er strax farinn að heyra út undan mér að einhverjar skrítnar sögur séu á kreiki um þetta mál og ástæðurnar þá þá finnst mér best að vera heiðarlegur og bara segja frá því í örsuttu máli hvernig þetta var þó svo að það hafi ekki verið ætlunin að tjá sig um þetta hér.
Staðreynd málsins er sú að ég og Perry, samþjálfari minn höfðum tilkynnt stjórn að við vildum halda áfram en við teldum hagsmunum liðsins betur borgið með því að stjórn myndi velja á milli okkar. Fórum við svo báðir á fundi þar sem við kynntum hugmyndir okkar og að mér skilst var fólk hrifið af því sem við vildum gera þó ólíkt væri. Enda erum við ólíkir þjálfarar, með ólíka sýn á fótbolta. Ég tek samt fram að við erum mjög góðir vinir enda geta menn alveg verið vinir þó þeir séu ekki sammála um fótbolta.
En ástæða uppsagnar okkar beggja er sum sé sú að stjórn vildi ekki gera upp á milli okkar og því væri sanngjarnast að láta okkur báða fara. Ekkert flóknara en það.
Auðvitað er þessi niðurstaða virkilega svekkjandi. Þetta starf var alltaf það sem ég stefndi og ætlaði að gera mun lengur en eitt ár en svona er blessaður bransinn. Helvítis biti að kyngja en maður verður ekki stór af því að kvarta í netheimum og þess utan hefur það ekkert upp á sig. Sjálfboðliðar eru alltaf að gera sitt besta og ég virði það algjörlega við þá og tek þessu að sjálfsögðu ekki persónulega enda veit ég að ég er góður þjálfari.
Ég horfi til baka stoltur af því að hafa gefið fullt af ungum heima stelpum tækifæri í sumar og byggt grunn sem liðið mun búa að. Þór/KA var það lið í sumar sem spilaði flestum heimaöldum leikmönnum, var með næst yngsta lið deildarinnar og var það lið í efstu tveimur deildum kvenna sem hafði fæsta erlenda leikmenn (1) utan Augnabliks. Að sjálfsögðu verður fólk svo að hafa sitt álit á því hvernig hlutirnir áttu að ganga inni á vellinum en annað væri jú óeðlilegt “