Fara í efni
Pistlar

Heilsuhreystibilið – Því fyrr því betra!

HEILSUEFLING – I

Hnignun á líkamlegri virkni og heilsu á sér stað þegar við eldumst. Við komumst ekki hjá því að taka eftir slíku. Þrátt fyrir að ýmsar lífeðlisfræðilegar breytingar fari halloka með hækkandi aldri og hægt og rólega eigi sér stað hnignun í helstu kerfum líkamans þá er líkaminn fær um ýmislegt sem áður var talið ómögulegt.

Ný sýn á öldrunarferlið tengist aukinni líkamlegri virkni og seiglu einstaklingsins til að spyrna við fótum gegn líffræðilegum og lífeðlisfræðilegum þáttum öldrunar. Walter M. Bortz, bandarískur læknir og vísindamaður benti meðal annars á að margar líkamlegar breytingar sem almennt eru kenndar við öldrun séu svipaðar þeim sem koma fram þegar líkaminn er óvirkur eins og að liggja rúmfastur á spítala í nokkra daga. Hann lagði til að draga mætti úr ​​þessu ótímabæra tapi kyrrsetu lífsstíls með virkum lífsstíl. Snúa má þessu ferli við um tíma með markvissri hreyfingu. Þessar jákvæðu hugmyndir lofuðu fljótt góðu í rannsóknum og eru nú grunnur að svonefndri farsælli öldrun.

Sarcopenia eða hægfara vöðvarýrnun á sér stað með hækkandi aldri.

Kyrrseta og óvirkur lífsstíll getur flýtt fyrir öldrunarferlum eins og hækkandi blóðþrýstingi, auknum fitumassa, minnkandi vöðvamassa auk þess sem hreyfiskerðing eykst. Tileinki einstaklingur sér lífsstíl þar sem dagleg hreyfing ræður ríkjum getur hann seinkað hreyfiskerðingu verulega og haldið afkastagetu sinni og frískleika til lengri tíma. Eitt mest áberandi og ef til vill ein mikilvægasta breytingin sem kemur fram með hækkandi aldri er tap á vöðvamassa.

Rannsóknir benda á að vöðvamassinn rýrnar um 3-6% á hverjum áratug eftir fertugt, jafnvel allt að 10% við kyrrsetu lífsstíl. Þetta tap á vöðvamassa með tilheyrandi aukningu á líkamsfitu, hefur neikvæðar afleiðingar fyrir efnaskiptaferlið. Þessi breyting hefur einnig áhrif á viðbrögð og viðbragðstíma, líkamsstyrk, hreyfigetu og jafnvægi. Þess vegna vega þessi atriði þungt þegar kemur að því að geta sinnt athöfnum daglegs lífs á efri árum.

Línurit og myndir sem sýna meðal annars breytingu á lærvöðva með hækkandi aldri. 

Öldrun er flókið ferli sem tekur til margra þátta eins og lífsstílsþátta og langvinnra sjúkdóma. Ferlið hefur mikil áhrif á það hvernig við eldumst. Þátttaka í reglubundinni hreyfingu, bæði þol- og styrktarþjálfun, vekur til lífsins fjölda heilsutengdra viðbragða í líkamanum sem stuðla að heilbrigðum efri árum. Til að líkaminn virki þá þarf að láta á hann reyna. Með markvissri þjálfun og daglegri hreyfingu er hægt að byggja upp vöðvamassa sem við héldum áður að væri óvinnandi vegur. Einnig má bæta ýmsa þætti í hjarta- og æðakerfinu með markvissri þolþjálfun.

Eitt mikilvægasta markmið með þjálfuninni er að fyrirbyggja áhættuþætti í tengslum við sjúkdómsástand eins og hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki af tegund tvö eða offitu. Bætt heilsufar stuðlar þannig að auknum lífslíkum en ekki síður að bættum lífsgæðum. Það er því mikilvægt að bíða ekki eftir að vandanum heldur að byrja sem fyrst á fyrirbyggjandi aðgerðum. Því er heilsuefling fyrir alla, ekki aðeins þá elstu og hrumustu heldur einnig þá sem eru vel á sig komnir og kenna sér ekki meins. Bíðum ekki til sextugs eða sjötugs heldur byggjum okkur upp á öllum aldri.

Líkamshreystibilið, sjónarhorn lífsferils til að viðhalda hæsta mögulega stigi hreyfitengdrar afkastagetu (blá lína). Myndin sýnir að með hækkandi aldri jafn gamalla einstaklinga verður mikill munur á líkamshreysti einstaklinga sem stunda heilsurækt og þeirra sem búa við kyrrsetu lífsstíl.

Styrktarþjálfunin hjálpar til við að vega upp tap á vöðvamassa og vöðvastyrk sem venjulega tengist eðlilegri öldrun. Ávinningur af reglulegri heilsurækt felur einnig í sér bætta beinheilsu og minnkandi hættu á beinþynningu, ekki síst fyrir konur kringum breytingaskeiðið. Heilsueflingin hefur einnig jákvæð sálfræðileg áhrif á þætti sem tengjast heilastarfsemi.Hreyfingin getur létt á einkennum þunglyndis auk þess sem hún getur bætt hegðun, haft áhrif á geðheilsu og sjálfstjórn. Það er því mikilvægt að bíða ekki eftir að kvillar og eymsli geri vart við sig. Þá getur það verið of seint að fara af stað eða erfitt að snúa vandanum við. Það er mikilvægt að fá góða kennslu og þjálfun við heilsutengdar forvarnir. „Hafir þú ekki tíma fyrir heilsuna í dag er ekki víst að hún hafi tíma fyrir þig á morgun“.

Ef þú ert íbúi á Akureyri eða nágrenni og hefur náð 60 ára aldri þá vertu velkominn að slást í hópinn með okkur og stunda heilsutengdar forvarnir. Áherslan liggur á alhliða þol- og styrktaræfingum auk þess sem æfingum fylgja fræðsluerindi um næringu og heilsutengda þætt. Þá er aðgangur á sérstöku heilsu-appi. Skráning í nýja hópa stendur nú yfir á janusheilsuefling.is/skraning

Janus Guðlaugsson er PhD-íþrótta- og heilsufræðingur

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00