Fara í efni
Umræðan

Hvalveiðar og geirfuglinn

Einn helsti smánarblettur á íslensku samfélagi var þegar við útrýmdum geirfuglinum. Síðasta geirfuglaparið var drepið af Íslendingum í Eldey 1744, fáum árum eftir að þeirra helsti og síðasti varpstaður, Geirfuglasker hvarf í sjó í eldsumbrotum undan Reykjanesi. Auðvitað var útrýming Geirfuglsins ekki okkur að kenna. Honum var fyrst útrýmt meðfram gervallri strönd Ameríku, frá Nýfundnalandi og upp að nyrstu ströndum Kanada. Útrýmt í Grænlandi af innfæddum og kannski Íslenskum víkingum sem námu þar land í a.m.k. 400 ár. Útrýmt í Rússlandi og Noregi áður en við mörlandarnir drápum síðustu eintökin, átum þau væntanlega, enn höfðum þó vit á að selja söfnurum hamina.
 
Þó svo sökin sé tæpast okkar þá lítur alþjóðasamfélagið svo á, og mér hefur alltaf þótt þetta skömmustulegt. Fram hjá því verður ekki litið að síðasta parið var drepið hér fyrir nærri 3 öldum.
 
Auðvitað er djúpt í árina tekið að líkja þessu við nútíma hvalveiðar. En þó.
 
Við höfum aldrei litið á okkur sem hvalveiðiþjóð og tölurnar styðja þá fullyrðingu mína. Hvalir sem eru í útrýmingarhættu hafa tæpast verið veiddir við Ísland af Íslendingum. Þeir hafa verið veiddir af öðrum þjóðum, rétt eins og geirfuglinn.
 
Fyrir 1900 er talið að erlendar áhafnir hafi veitt um og yfir 20.000 hvali við Íslandsstrendur með mjög svo frumstæðum aðferðum. Eftir 1900 er talið að um 15.000 hvalir hafi verið veiddir við okkar strendur og megnið af erlendum áhöfnum. Munið að við eignuðumst ekki okkar eigin fiskveiðilögsögu uppá 200 mílur fyrr enn 1976.
 
Að telja okkur hafa aldalanga hefð fyrir hvalveiðum stenst enga skoðun.
 
En þá aftur að samlíkingunni við geirfuglinn. Mörgum hvalategundum hefur verið nær útrýmt af erlendum þjóðum, þar á meðal flökkustofnum sem dvelja sumarlangt við Íslandsstrendur en dreifast svo meðfram ströndum Afríku og heimsækja eyjar Karabíska hafsins vetrarlangt.
 
Þegar kemur að náttúruvernd þá er hvalurinn tákn fyrir þau dýr sem við manneskjan höfum stundað rányrkju á, samanber geirfuglinn.
 
Ef við viljum þvo þann smánarblett af okkur að hafa gengið af tegundinni útdauðri þá er tæpast rétt að hamra á stjórnarskrárbundnum réttindum okkar til atvinnufrelsis, í þessu tilfelli til að veiða hvali. Að veiða bara vegna þess að við höfum rétt til þess er væntanlega sama hugsun og síðustu geirfuglafangararnir höfðu í huga sér 1744. Auk þess voru þeir væntanlega svangir.
 
Í dag er engin Íslendingur svangur og ekki á stefnuskránni að ganga frá nokkurri hvalategund útdauðri, en það breytir ekki erlendum almannarómi.
 
They are killing endangered whales for no reason, nobody wants to buy the product and nobody is making profit.
 
Nú horfir svo til að við erum ekki að veiða hvali að svo stöddu, en mér þykir það óþægileg tilfinning að Hvalur ehf sæki um endurnýjað veiðileyfi til 5-10 ára á sama tíma og Jón Gunnarsson fær matvælaráðuneytið upp í hendurnar í nokkra daga fram að kosningum.
 
Þetta er ákall til þín vinur minn Jón Gunnarsson. Í guðanna bænum ekki veita leyfi fyrir þessu að óathuguðu máli. Ákvörðun þín nú verður alltaf til einhverra ára og bindur okkur hin sem erum þessu mótfallin, jafnt á við hina sem eru veiðunum hlynnt.
 
Ég er sannast sagna skíthræddur um að nú eigi að stunda minnihlutalýðræði, en vonast til þess að Jón Gunnarsson sé jafn vel gerður og ég þekki til hans og geri þetta frekar að kosningamáli nn að standa sperrtur á stól eins og geirfuglinn og gera bara það eina sem hann kann í stöðunni. Vagga og blaka vænjunum. Og þóknast vinum sínum.
 
Þú ert meiri maður en svo Jón.
 
Aðalsteinn Árnason er leiðsögumaður og fyrrverandi kaupmaður

Uppbygging Akureyrarflugvallar hefur aukið lífsgæði íbúa

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:10

Heimur á villigötum

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:00

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45

Lægri fjármagnskostnaður, er krónan góð fyrir landsbyggðirnar?

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 10:00

Örugg skref um allt land

Logi Einarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 06:00