Fara í efni
Umræðan

Hvað vorum við að kjósa yfir okkur?

Fólk fer almennt út í stjórnmál af því að það hefur einhverja hugmynd um hvert eigi að stefna í þróun samfélagsins og vill leggja sitt að mörkum til að ýta þróuninni í þá átt. Í þeirri viðleitni er mikilvægt að komast til valda til að geta framkvæmt það sem til þarf. En þeir eru líka til sem halda að þeir hafi hugmynd um eitthvað, fara í pólitík út á þá tilfinningu, komast í bæjarstjórn og uppgötva þá að hugmyndin er innistæðulítil. Þannig verðu til sú hugmynd að stjórnmál séu samræða, kaffispjall og skynsamleg niðurstaða, svo lengi sem það er þeirra skynsemi sem ræður niðurstöðunni.

Hún fer ekki vel af stað pólitíkin eftir kosningar. Augljós niðurstaða kosninganna var samstarf þriggja stærstu flokkanna. Þeir endurspegla vilja stærsta hluta kjósenda. Flokkarnir hittust tvisvar sinnum í tvo tíma. Svo var þriðji fundur haldinn til að slíta viðræðunum.

Hvers vegna var þeim slitið? Sjálfstæðisflokkurinn gefur þá skýringu að L listinn hafi verið of metnaðarfullur fyrir sína kjósendur eða haft of miklar kröfur eins og oddvitinn orðar það. Honum fannst áherslur L listans ekki sanngjarnar því L listinn opnaði á þá hugmynd að fá bæði formann bæjarráðs og foresta bæjarstjórnar. „Þetta var fyrsta boð frá þeim og okkur fannst ekki rétt að byrja á þessum nótum“ er haft eftir honum. Og í ljósi þess er tekin ákvörðun um að slíta viðræðunum. Það er ekki mikill bógur í oddvitanum ef þetta dugar til að skella honum á bakið.

Framsóknarflokkurinn neitar að skýra fyrir kjósendum sínum hvers vegna þeir slitu viðræðunum. „…þetta fór eins og það fór. Við ættum öll að geta lært af þessu,“ segir oddviti B listans. Við vitum að þetta fór eins og það fór, en hvers vegna fór það eins og það fór? Og hvað er það sem á að læra af þessu? Síðan segist oddviti B lista ekki ætla að munnhöggvast í fjölmiðlum, með öðrum orðum hann ætlar ekki að svara fyrir ákvörðunina öðruvísi en með útúrsnúningi og þöggun.

Þetta byrjar ekki vel ef oddvitar D og B lista hrökklast út af vellinum af því að þeim finnst mótaðilinn of metnaðarfullur fyrir hönd kjósenda sinna. Hvað vorum við eiginlega að kjósa yfir okkur?

Stjórnmál eru í eðli sínu vettvangur þar sem fólk (flokkar) með ólíkar skoðanir koma saman, leggja sín mál fram, gera ítarkröfur, munnhöggvast, rífast um og takast á með það að markmiði að komast að sameiginlegri niðurstöðu, taka ákvörðun um hana og vera svo bundin henni að atkvæðagreiðslu lokinni. Stjórnmál eru list hins mögulega því það er galdur í þessum potti sem stjórnmálin eru. Það er þessi umræða, þessi átök sem er n.k. álagsprófun á hugmyndir sem þær þurfa að standast til að komast áfram. Þegar menn veigra sér undan þessu þá gerast pólitísk slys eins og lausagöngubann katta.

Kjósendur eiga betra skilið en þá kosningabaráttu sem flokkarnir háðu í aðraganda kosninga þar sem enginn flokkur hafði kjark eða hugmyndaauðgi til að bjóða upp á framtíðarsýn. Höfðu ekki hugmynd um hvert skyldi stefna. Afleiðingin er auðvitað minnkandi þátttaka í kosningunum. Þátttakan er spegillinn sem flokkarnir ættu að spegla sig í og sú mynd er ekki glæsileg. Hafi maður haft einhverja von um að stjórnmál fari að komast á dagskrá í bænum þá dó hún í ákvörðun D og B lista. Þegar oddvitar hrökklast úr nýhöfnum samingaviðræðum, við fyrstu þreifingar, því þeim finnist stærsti flokkurinn ekki sýna þeim nægjanlega virðingu, af því að stærsti flokkurinn hafði uppi ítarkröfur í samningaviðræðum fyrir hönd kjósenda sinna þá er það slæmur fyrirboði um það sem koma skal. Væri ekki nær að D og B listi hefði sama metnað, sama dug og tækju skrefið inn á pólistíska sviðið fyrir sína kjósendur? En hugsanlega finnst þeim bara þægilegra að setjast niður við kaffiborðið og spjalla um málin af skynsemi meðalmennskunnar? Við sjáum hvað setur.

Geir Hólmarsson er áhugamaður um stjórnmál.

Sögulegt tækifæri

Logi Einarsson, Eydís Ásbjörnsdóttir, Sæunn Gísladóttir og Sindri S. Kristjánsson skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 13:30

Ágæti kjósandi – Það er komið að þér

Sigurjón Þórðarson skrifar
28. nóvember 2024 | kl. 13:15

Nei þeir mega það ekki!

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
28. nóvember 2024 | kl. 13:00

Hugvekja á Ýli

Hildur María Hansdóttir skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 15:30

Framtíðin er núna

Ingvar Þóroddsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 13:00

Valdið til fólksins – lykillinn að sterkara þjóðfélagi

Theodór Ingi Ólafsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 12:00