Fara í efni
Pistlar

Hugrekki og höfnun

Tímamót eins og áramót fá okkur oft til að doka við og velta fyrir okkur hvort við séum á réttri leið. Er eitthvað sem við viljum breyta? Eitthvað sem okkur hefur alltaf langað að gera en við frestum endalaust? Hvað stoppar þig? Hefur þú kannski reynt, mistekist og í kjölfarið gefist upp? Horfir þú á velgengni annarra og veltir fyrir þér af hverju öðrum tekst það sem þér mistókst?

Hvað ef að baki velgengni annarra liggur röð mistaka? Hvað ef þeir sem þú öfundar hafa einungis náð árangri eftir að hafa upplifað hverja höfnunina á fætur annarra en neitað að láta þær stoppa sig?

Ferilskrá mistaka

Við heyrum yfirleitt af sigrum annarra en ekki mistökum. Það sama á við um það sem við deilum um okkur sjálf. Við tilkynnum um styrkinn sem við fengum, nýju vinnuna, giftinguna, barnsfæðinguna og aðrar skemmtilegar vörður, en tökumst oftast á við mistökin og vonbrigðin í einrúmi eða eingöngu með okkar nánasta fólk. En eru mistök eitthvað til að skammast sín fyrir?

Ferilskrá mistaka (e. A CV of Failures) er fyrirsögn greinar sem vísindakonan Melanie Stefan birti í Nature árið 2010. Í greininni færir hún rök fyrir því að það geti verið gagnlegt að halda til haga öllum höfnunum sem við upplifum í starfi og jafnvel deila þessum upplýsingum þar sem slíkt geti hjálpað öðrum að átta sig á að það að upplifa höfnun er í raun mjög eðlilegur hlutur. Við sækjum um störf sem við fáum ekki, sendum inn styrkumsókn sem er hafnað, fáum neitun á útgáfu handrits og áfram mætti telja. Flestir sem að ná árangri eru með heilann helling af höfnunum í farangrinum. En þeir létu það ekki stoppa sig og fundu leið framhjá hindrunum.

Eftirsjá við lok lífs

Árið 2012 gaf ástralskur rithöfundur, Bronnie Ware, út bók sem fjallaði um helstu eftirsjá fólks við lífslok (e. The Top Five Regrets of Dying People). Bronnie hafði starfað við líknarmeðferð í mörg ár og fékk þannig tækifæri til að umgangast og ræða við fjölda einstaklinga sem stóðu andspænis dauðanum. Í gegn um þau samtöl gat hún greint ákveðin sameiginleg þemu um hverju fólk sá mest eftir við lífslok. Þemun fimm sem fjallað er um í bókinni eru eftirfarandi:

  1. Ég vildi óska að ég hefði haft hugrekki að lifa lífi í samhljómi við eigin vilja og löngun fremur en að gera það sem aðrir bjuggust við af mér.
  2. Í vildi óska að ég hefði ekki unnið svona mikið.
  3. Ég vildi óska að ég hefði haft hugrekki til að tjá tilfinningar mínar.
  4. Ég vildi óska að ég hefði viðhaldið vinartengslum við fólk sem mér þótti vænt um.
  5. Ég vildi óska að ég hefði leyft mér að verða hamingjusöm/hamingjusamur.

Það sem er sammerkt með þessum þemum sem koma fram í bókinni er að eftirsjá fólks snýst oft um það sem það gerði ekki, fremur en að sjá eftir einverju sem það gerði. Þó að höfnun eða mistök geti verið óþægileg til skemmri tíma þá er það hikið sem kemur í veg fyrir að við prófum og látum reyna á hlutina sem skilur eftir meiri og dýpri vonbrigði til lengri tíma litið.

Verum hugrökk

Skilaboðin eru skýr: Verum hugrökk og fylgjum draumunum okkar eftir. Verum tilbúin að takast á við höfnun og mistök en látum þau ekki stoppa okkur. Festumst ekki í hugsunum um allt sem getur farið úrskeiðis heldur munum líka að íhuga möguleikann á að allt gangi upp á endanum. Og ef ekki, þá getum við a.m.k. huggað okkur við það að við reyndum okkar besta.

Auður H. Ingólfsdóttir er alþjóðastjórnmálafræðingur og eigandi Transformia, sjálfsefling og samfélagsábyrgð

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00