Fara í efni
Pistlar

Hið góða

(Flutt á fullveldisdaginn 2024 í Minjasafnskirkjunni á Akureyri, sunnudaginn 1. desember, fyrsta dag aðventu. Birt hér lítillega aðlagað.)

Ég er ekki prestur. Stundum hef ég samt mátað mig inn í það hlutverk. Prestsímyndirnar í æsku voru gömlu prestarnir á Akureyri, séra Pétur og séra Birgir.

Prestlegastur innan gæsalappa var samt frændi minn í Laufási, séra Bolli Gústavsson. Þéttur á velli, hláturmildur, skemmtilegur, alltaf í bókagrúski, að skrifa, yrkja. Kom manni í leiðslu þegar hann steig í stólinn með þessari seiðmögnuðu rödd sem bæði söng vel og talaði þessa dásamlegu norðlensku í hljómi sem fyllti litlu fallegu kirkjuna í Laufási. Bjó líka til útvarpsþætti og las bækur í útvarpið. Ég hlustaði – í leiðslu.

En hvað ef ég væri prestur? Hvers konar prestur væri ég? Gæti ég það? Ætti ég ekki að hafa djúpa trúarsannfæringu til að mega vera prestur? Og hvað er þá djúp trúarsannfæring?

Seint á ævi föður míns frétti ég að hann hefði velt fyrir sér sem ungur maður að nema guðfræði við Háskóla Íslands. Ég varð mjög hissa. Það var að vísu hann sem kenndi mér faðirvorið á sínum tíma. En þegar ég var tíu, tólf ára upplýsti hann við matarborðið eitt kvöldið – að hann tryði ekki á guð.

Fyrir mig var þetta eins og þruma úr heiðskíru lofti. Áfall. En þá tók efinn að búa um sig í mér. Sá efi varð til þess að ég fermdist ekki. Ákvað samt fermingarveturinn að ganga til prestsins, eins og það var kallað þá, fór í fermingarfræðsluna eins og það heitir núna. Hjá séra Pétri, sem kallaði mig alltaf nafna sinn.

Svo þegar kom að því að láta vita að ég vildi ekki fermast, gat ég ekki sagt nafna mínum það. Pabbi þurfti að gera það fyrir mig. Nafni minn tók því af miklum kærleika – auðvitað! En ég var ekki alveg forgenginn. Um þetta leyti las ég nefnilega allt Nýjatestamentið, einn kapítula á hverju kvöldi í heilt ár. Góð bók sem vel er hægt að mæla með.

En pabbi sagði líka – þarna í sama skipti og hann tilkynnti um trúleysi sitt við kvöldmatarborðið – að hann tryði á það góða í manninum. Það tengdi ég ekki strax við guð. En hvað er guð annað en það góða í manninum? Ekki karl með skegg í hvítum kufli uppi í himninum sem ákveður allt fyrir okkur á himni og jörð. Er guðsótti það að óttast að hið góða yfirgefi mann?

Ef við erum góð, getum við sagt að guð sé að verki. Og er ekki það góða í manninum aflið sem við viljum að stjórni í heiminum? Af daglegum tíðindum gætum við ráðið um þessar mundir, að hið illa stjórni heiminum. En þá megum við ekki gleyma öllu því, sem hið góða í manninum fær áorkað. Og við megum ekki missa trúna á að hið góða sigri allt á endanum. Við verðum að trúa á hið góða. Við verðum að leyfa mætti hins góða að vinna sitt verk. Hið góða getur leyst deilur milli þjóða. Hið góða getur leyst loftslagsvandann. Hið góða getur leyst hungur í heiminum og bægt burtu hatri – hatri á fólki sem er öðruvísi, hugsar öðruvísi, hagar sér öðruvísi, hefur öðruvísi langanir og þrár, skoðanir og viðhorf. En við verðum að leyfa því góða að vinna sitt verk.

Hér stóð á síðustu áratugum nítjándu aldar í prédikunarstóli og við altarið maður sem efaðist um guð. Hann var hugsuður. Efasemdirnar koma bæði fram í ljóðum hans og skrifum, meðal annars í bréfaskiptum við séra Valdimar Briem. Matthías Jochumsson stóð reyndar ekki í nákvæmlega þessu kirkjuhúsi heldur öðru sem stóð á sama stað, gömlu Akureyrarkirkju. Þrátt fyrir efasemdirnar teljum við Matthías til meginklerka og leiðsögumanna í tilverunni, jafnvel óháð því hvort við efumst eða ekki sjálf. En hvað er trú án efasemda?

Þjóðsönginn okkar, Lofsöng, orti séra Matthías í tilefni af þjóðhátíðinni 1874 þegar minnst var þúsund ára landnáms. Biskup Íslands, herra Pétur Pétursson, hafði ákveðið að í kirkjum landsins skyldu sungnar messur og í prédikun lagt út frá nítugasta sálmi Davíðs, fyrsta til fjórða versi og tólfta til sautjánda. Sá texti varð því viðfangsefni séra Matthíasar í Lofsöngnum.

Hér á eftir fer þessi texti eins og hann stendur í Viðeyjarbiblíu, biblíuþýðingunni sem kom út 1841, þótt sennilega hafi séra Matthías verið með svokallaða Lundúnabiblíu sem kom út 1866. Bæði finnst mér svo fallegt málið á þessari sem er í Viðeyjarbiblíunni og svo hafði ég ekki aðgang að Lundúnabiblíunni.

Bæn Mósis þess guðsmanns

Drottinn! þú varst vort athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og þú tilbjóst jörðina og heiminn, já, frá eilífð til eilífðar, ertu Guð.

Þú gjörir manninn að dufti og segir: komið aftur, þér mannanna börn! Því þúsund ár eru fyrir þínum augum sem dagurinn í gær, þá hann er liðinn, og eins og næturvaka.

Kenn oss svo að telja vora daga, að vér verðum forsjálir.

Snú þér til vor, Drottinn! hvörsu lengi? Aumkastu yfir þína þénara.

Metta oss skjótt með þinni miskunn, svo munum vér fagna og gleðja oss alla daga vors lífs.

Gleð oss nú eins marga daga, og þú hefir oss beygt, eins mörg ár og vér höfum séð ólukku.

Lát þína þjóna sjá þitt verk, og þeirra börn þína dýrð.

Drottinn: vors Guðs góðgirni veri yfir oss og staðfesti verk vorra handa, já, lát þér þóknast að staðfesta verkin vorra handa!

Matthías trúði sannarlega á hið góða í manninum og á sigur hins góða. Eitt eilífðar smáblóm. Þó að Lofsöngur hans væri saminn sem sálmur varð hann smám saman þjóðsöngur og festist mjög í þeim sessi í aðdraganda fullveldisins 1918. Fyrsta desember 1918 var hann sunginn sem þjóðsöngur, jafnvel þótt Ísland væri ekki orðið sjálfstætt ríki.

En Ísland var orðið fullvalda ríki, hvað sem það þýðir. Kannski fullt vald hins góða? Vonandi.

Stuttu seinna kom út jólablað félags sem hét Stjarnan í austri, dagsett 24. desember. Þar birtist ljóð eftir séra Matthías, eins konar ljóðaflokkur, sem talar merkilega vel inn í samtíma okkar. Þjóðskáldið fjallar um stríð og stríðsógnir, ógnir sem steðjuðu að rússnesku þjóðinni meira að segja. En hver var sú stjarna í austri?

Okkur dettur kannski í hug kommúnisminn. Nei, Stjarnan í austri var alþjóðlegt guðspekifélag og um tíma starfaði deild þess á Íslandi. En hvað um það, allar vonarstjörnur kvikna í austri. Líka jólastjarnan sem við höfum sungið um á aðventunni. Kom jólastjarnan ekki upp í austri? Boðaði hún ekki gott? Jólaboðskapurinn endurfæðist á hverju ári. Við verðum að dufti en komum aftur, mannanna börn.

Þegar við lítum til stjarnanna getum við gleymt okkur um stund, gleymt því að á jörðinni geisar nú hatur, tortryggni, lygar, óeining, ótti, ofsóknir og kvíði. Við fáum upplýsingar sem við getum ekki treyst.

Ýmsu getum við treyst, samt sem áður. Við getum treyst því að sólin kemur upp að morgni og stjörnurnar birtast okkur áfram á himninum. Jólastjarnan kemur til okkar á hverju ári og boðar hið góða. Jólaljósin úti eru jólastjarnan að verki. Og við getum treyst því að hið góða er jafnan hinu illa yfirsterkara. Ef við köllum hið góða „guð“ og hið illa „satan“, sýnir sagan okkur að guð hefur alltaf vinninginn að lokum þótt orrustur tapist á leiðinni.

Af þeim ljóðmælum séra Matthíasar sem birtust í Jólablaði Stjörnunnar í austri um jólin 1918 sleppi ég þeim sem fjalla um þau ragnarök, stríð og ógnir sem geisuðu í fyrri heimsstyrjöldinni og rússnesku byltingunni. En þjóðskáldið endar á voninni, með því að birta brot úr Nýjum-Sólarljóðum. Þau eru í ljóðahætti, bragarhætti hinna fornu Sólarljóða – og líka Hávamála.

 

Leit eg í anda
lífs andvana
ná hjá náum liggja;
sá hafði sofnað
á svanadúni
og krýndur keisari verið.

En á hægri hönd
hugðist eg sjá
hin fornu Ragnarök:
Alföður og Úlf,
Orminn og Þór
og hvern fyrir hinum hníga.

Hel eg sá
og Surtarloga
og allar illar kindir,
Ásgarð, Miðgarð
og óðul goða —
alt í eldi farast.

Dapraðist mér sýn
og til suðurs horfði;
tók þá enn verra við:
blóðrisa drupu
berir hálsar
með holgröfum hundrað rasta.

Sá eg morðæði
millíóna,
er engin orð mega lýsa,
Óðar af þeim ógnum
eg í óvit féll
og lá sem lík á fjölum.

Loks sá eg ljós
og lít í austur
sé þar stafa stjörnu,
stóð hún í fögrum
friðarboga
full af Drottins dýrð.

Skamt frá mér stóð
skínandi engill, —
þótti mér Kristur kominn;
fram eg féll
en friðarmildur
reisti´hann mig og mælti:

»Séð þú hefur
til sinnar handar
hver Ragnarök;
í landskjálftum,
logum og stormi
sjáið þér tímanna tákn«.

En í andvara
elsku Drottins
talar sá, er hann sendir,
»Stjarnan í austri«
stafar friði,
hún er boðberi minn«.

Hugðist eg spyrja,
hverju olli
að heimsstríð hefði‘ orðið.
»það«, mælti hann,
»að heimsins búar
hata enn hver annan.

Em eg því sendur
aftur, að sýna
að hatur sigrar ei hatur,
né ilt hið illa,
en aldrei bregzt
að elskan sigrar allt.

Nú skulu blóð reka
brott af jörðu
hin nýju Ragnarök.
Og sem gulltöflur
í grasi fundust
er Æsir risu aftur. —

Eins munu upp rísa
til eilífs lífs
allar vitandi verur.
Heyrið og sjáið!
horfinn er dauðinn —
eilífð alheimi boðuð!« —

* *

Horfin var mér sýn,
og eg hrifinn starði
lofandi lifenda Guð.
Himnesk hugsjá
hafði þerrað
öll mín tár og trega.

 

Gleðileg jól og megi hið góða sigra og ríkja á gæfuríku nýju ári.

Liðið sem aldrei lék heimaleik

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. desember 2024 | kl. 13:00

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00