Fara í efni
Pistlar

Heljarstökk í lestri

EYRARPÚKINN - 7

Merkilegt nokk varð tossinn úr Hreiðarsskóla atkvæðaflestur strax í fyrsta bekk og efstur alla veturna hjá Sigurði Jóhannessyni.

Það var örvandi að fá spjald með nafni sínu og atkvæðafjöld undir mynd af Oddeyrarskóla og fín runan sem fylgdi. Nú ertu kominn nokkuð áleiðis í lestri, þú lest orðið mjög sæmilega, vel og loks ágætlega.

Tók ég stökk úr sextíu atkvæðunum í kjallara Hreiðars í hundraðogþrjú í Oddeyrarskóla, fékk brúnt spjald að launum og stiginn dans á gúmmískóm að segja mömmu tíðindin.

Sigurður Jóhannesson hafði lag á mér og hélst í hendur við lestrarþorstann þegar ég þurfti ekki lengur að treysta minninu einu við lestur.

Eins og þegar ég bað Dystu að leggjast hjá mér á sófa Nonna á jóladagskvöld veturinn í Hreiðarsskóla og skyldi ég lesa Snúð og Snældu fyrir systur.

Höfðu systkinin lesið Snúð og Snældu fyrir mig og mamma líka. Ég var vitaskuld Snúður sjálfur, kríthvítur eða svartur úr kolabingnum.

Bauðst Dysta til að halda á heftinu fyrir mig og stóð ekki á mér að lesa. Svo hætti Dysta að fletta en ég kláraði söguna með bravúr.

Þá hló systir og hældi mér fyrir minnisgáfuna.

Sigurður Jóhannesson var af gamla skólanum og kölluðum við hann Sigga gamla en líka Sigga skalla í stundarbræði því hann var óvæginn en lét eitt yfir alla ganga.

Handleggjalangur með afbrigðum Sigurður og héngu guðsgafflarnir með síðum. Gékk álútur með leðurtösku í dökkbláum jakkafötum og fölröndóttri skyrtu við axlabönd en utan dyra í grænni Gefjunarúlpu.

Siggi tók í nefið og snýtti sér svo í rauðdröfnóttan vasaklútinn og krítin hrökk af töflu. Augun stingandi en glettni í krókum og stytti upp með brosi.

Urðum við með tímanum næmir á barómet læriföður og bárum virðingu fyrir honum strákarnir. 

Og þó við lentum uppað töflu og snérum rassi í skólasystkini var undantekning ef Siggi rak mann út en hann sló á fingur með prikinu og átti til að snúa uppá eyru.

Reyndi Sigurður að koma okkur öllum til nokkurs þroska en þétt setinn bekkurinn misjöfnum sauðum.

Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.

  • Heljarstökk í lestri er kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.

Alsæll utan þjónustusvæðis

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Traust

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Niðurlægðir af reykingamönnum

Orri Páll Ormarsson skrifar
04. október 2024 | kl. 17:00

Skógar á mannlausu Íslandi

Sigurður Arnarson skrifar
02. október 2024 | kl. 09:30

Bleikur mánuður

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
01. október 2024 | kl. 15:00

Nokkur heilræði varðandi gervigreind

Magnús Smári Smárason skrifar
01. október 2024 | kl. 09:30