Fara í efni
Pistlar

Töfrar á degi heilags Andrésar

ÚKRAÍNA – III

Lesia Moskalenko er úkraínskur blaðamaður til margra ára. Hún kom sem flóttamaður til Akureyrar eftir að rússneski herinn réðst inn í Úkraínu fyrr á þessu ári. Lesia skrifar pistla um Úkraínumenn og heimalandið fyrir Akureyri.net í vetur.
_ _ _

Þann 12. desember, þegar fyrsti íslenski jólasveinninn heldur af stað ofan úr fjöllum og til byggða hefst einnig tímabil ákveðinna töfra í Úkraínu, og tími margra frídaga, allt fram í miðjan janúar. Langir, snjóþungir vetur hafa löngum verið tími fagnaðar og skemmunar hjá Úkraínumönnum.

13. desember – Dagur heilags Andrésar. Þá verðum við enn vitni að því hvernig hefðir úr heiðnum sið fléttast saman við kristni. Að kvöldi 12. desember og fram eftir nóttu halda Úkraínumenn veislu, skemmta sér, syngja saman og ungt fólk kynnist. Við eigum enga jólasveina þannig að öll prakkarastrikin eru gerð af ósköp venjulegum gaurum! Þess nótt stela þeir fötum og skartgripum frá stúlkum og reyna síðan að selja þeim eigur sínar aftur fyrir koss.

Á degi heilags Andrésar bregða ungu konurnar sér síðan í hlutverk spákonu. Úkraínumenn hafa í gegnum tíðina beitt alls kyns töfrum til þess að spá fyrir um veðrið næsta ár, hve mikil uppskeran verður, hve mörgum lömbum kindurnar bera og kýr hve mörgum kálfum. Aðfararnótt 13. desember snúast töfrarnir þó einkum um ástina, líklega vegna þess að heilagur Andrés var verndardýrlingur elskenda. Áður fyrr lögðu stúlkur áherslu á að komast að því, með aðstoð töfranna, hvort þær fyndu ástina árið eftir. Hver og ein vildi vita hver brúðguminn yrði, hvort sá væri efnaður og hvort hann yrði henni góður.

Til þess að tryggja að eitthvað yrði að marka töfrana máttu stúlkurnar ekki neyta matar frá morgni til kvölds og urðu auk þess að þegja þunnu hljóði allan daginn. Þá stilltu stúlkur upp tveimur speglum hvorum á móti öðrum og urðu þeir að vera mis stórir. Kveikt var á kertum á milli speglanna, stúlkan horfði í annan þeirra og í göngunum sem þannig mynduðust freistaði hún þess að sjá unnusta sinn. Slíkir spádómar voru að vísu taldir hættulegir því djöflar áttu að geta komist inn í gegnum þennan töfragang.

Ein elsta töfraathöfn í Úkraínu er að sá hampi. Ungar konur fóru þá út, sáðu hampfræjum í snjóinn nálægt heimlinu og sögðu: „Andriy, Andriy, ég er að sá hampi. Ég vil vita með hverjum ég mun uppskera.“

Þær tíndu síðan hampfræin úr snjónum og töldu, og því var trúað að sú sem endaði í jafnri tölu þegar öll fræin höfðu verið talin finndi sér maka árið eftir. Til að tryggja að hampfræin öðluðust þá töfrandi eiginleika sem nauðsynlegir töldust voru þau borin í poka innanklæða í nokkra daga.

Nú til dags er dulúðin ekki jafn mikil í þessum veislum til heiðurs heilögum Andrési. En tilefni er til að koma saman, syngja, borða og jafnvel að töfra ofurlítið! Margir veitingastaðir og hótel í Úkraínu skipuleggja slíkar veislur með töfrandi andrúmslofti, hefðbundinni skemmtun og ljúffengum réttum.

Slík afþreying er mjög vinsæl í Karpatafjöllum, þar sem Úkraínumenn fara gjarnan í vetrarfrí til að slaka á milli snæviþaktra fjalla og renna sér á skíðum.

Hús dagsins: Laxdalshús, Hafnarstræti 11. (230 ára í ár)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 07:00

Keiluspil

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. janúar 2025 | kl. 11:30

Bixímatur

Jóhann Árelíuz skrifar
12. janúar 2025 | kl. 10:00

Geðheilbrigðisþjónusta – Skipulag, samvinna og stjórnun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. janúar 2025 | kl. 09:00

„Aumingja þessi, öllum er sama um hann!“

Orri Páll Ormarsson skrifar
10. janúar 2025 | kl. 12:00

Desember 1915

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. janúar 2025 | kl. 21:00