Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?
Akureyrarbær stefnir að því að breyta aðalskipulagi á þann hátt að háspennumannvirki verði í lofti ofan byggðar við Móa- og Giljahverfi. Mikil umræða hefur verið á undanförnum misserum að þessa línu beri að grafa í jörð næst byggðinni vegna þeirra hagsmuna sem tengjast íbúðaverði og hagsmunum íbúa næst línunni og hagsmunum bæjarins sem tengjast framtíðaruppbyggingu bæjarins til vesturs. Allir vita mikilvægi þess að ekki sé þrengt að framtíðarsvæðum, byggingaland Akureyrar er afar takmarkað. Nú liggur fyrirr að taka ákvörðun í þessu máli og fyrir liggur að tillaga að aðalskipulagsbreytingu liggur fyrir á heimasiðu bæjarins akureyri.is. Hún er svohljóðandi:
Skipulagsráð Akureyrarbæjar kynnir hér með drög að breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Breytingin tekur til svæða sem merkt eru ÓB, ÍÞ7 og SL7 í aðalskipulagi og felst meðal annars í að felldir eru út skilmálar í greinargerð um iðnaðarsvæði I16 fyrir tengivirki í landi Kífsár. Kafla 2.1.27 Veitur, sem fjallar um Blöndulínu 3, er breytt á þann veg að Blöndulína 3 tengist Rangárvöllum sem loftlína. Þegar tæknilegar forsendur hafa skapast til að breyta loftlínu í jarðstreng næst Akureyri er gert ráð fyrir að línan sé lögð í jörðu að hluta leiðarinnar. Öryggis- og athafnarsvæði 220kV jarðstrengs með tvö strengsett er um 20 m breytt og felur í sér byggingarbann og takmarkanir á röskun lands nema í samráði við Landsnet. Aðgengi til viðgerða á strengnum þarf að vera tryggt og takmarkanir eru á plöntun trjágróðurs. Gert er ráð fyrir niðurrifi Rangárvallarlínu 2 þremur árum eftir að Blöndulína 3 kemst í rekstur.
Auglýsningafrestur er til 9. janúar.
Fasteignamat sumarhúsa fellur skv reikniformúlu hjá HMS alt að 1000m. Gildir um raflínur á hærri spennu en 130 kV. Gilja og Móahverfi eru innan þeirrar línu.
Ljóst er að miklir hagsmunir eru í húfi því er mjög mikilvægt að sem flestir segi sína skoðun á þessari fyrirhuguðu breytingu og sendi inn skriflegar athugsemdir fyrir 9. janúar.
Jón Ingi Cæsarsson er fyrrverandi formaður skipulagsnefndar Akureyrar