Fara í efni
Íþróttir

Glæsimark Daníels og KA slapp með skrekkinn

Harley Willard sem hér er með boltann í dag gerði fyrra mark KA í leiknum. ÍR-ingurinn er Kristján Atli Marteinsson sem lék með Þór í fyrrasumar. Myndir: akureyri.net

Daníel Hafsteinsson tryggði KA-mönnum sæti í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar í knattspyrnu í dag með stórglæsilegu marki rétt fyrir lok framlengingar gegn ÍR á Greifavellinum sunnan við KA-heimilið.

Staðan var jöfn, 1:1, eftir hefðbundnar 90 mínútur og skv. vallarklukkunni var aðeins var ein mínúta eftir af hálftíma framlengingu þegar Daníel gerði sigurmarkið. Hann fékk knöttinn langt úti á velli, lék á nokkra ÍR-inga og ákvað að þruma að marki nokkrum metrum utan vítateigs – og það reyndist góð ákvörðun, því boltinn small í þverslánni og þeyttist þaðan í markið. Glæsilegt, óverjandi skot.

KA-maðurinn Bjarni Aðalsteinsson reynir að ná til boltans í dag. Mynd: akureyri.net

Fyrri hálfleikur var í daufari kantinum. Framherjinn Viðar Örn Kjartansson, sem var í byrjunarliði KA í fyrsta skipti á tímabilinu, fékk besta færið eftir rúman hálftíma en varnarmaður komst fyrir skot hans.

Harley Willard braut ísinn þegar aðeins tvær mín. voru liðnar af seinni hálfleik; kom KA í 1:0 eftir slæm mistök varnarmanns.

KA-maðurinn Sveinn Margeir átti stangarskot eftir miðjan hálfleikinn, ÍR-ingar einnig og aftur lenti boltinn í tréverkinu hjá KA nokkru síðar. KA fékk tvö fín færi en til að gulltryggja sigurinn en tókst ekki og það var svo á lokaandartökum leiksins sem gestirnir jöfnuðu! Bergvin Fannar Helgason skoraði þá af stuttu færi eftir darraðardans í vítateignum.

Framlengingin var ekki tíðindamikil og margir án efa farnir að búa sig undir vítaspyrnukeppni þegar Daníel bjargaði málunum með þrumuskotinu glæsilega sem lýst var í upphafi.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna