Geggjað G vítamín á Íslandsfrumsýningu
Hvorki gleðipillur, gott áramótaskaup, lúr á slitnum sólbekk á Tenerife né hámhorf á Netflixseríu koma í stað kvöldstundar á Melum í Hörgárdal.
Leikfélag Hörgdælinga frumsýndi í gærkvöldi verkið Stelpuhelgi eftir Karen Schaeffer í leikstjórn Gunnars Björns Guðmundssonar. Stórskemmtilegan farsa í þýðingu Harðar Sigurðarsonar, framkvæmdastjóra Bandalags Íslenskra Leikfélaga – Þetta er í fyrsta skipti sem verkið er sett upp hérlendis.
Það var svo gott að ganga inn í Mela og finna andann, sjá afar vel útfærða, fallega, hárrétta og leikhúsnærandi leikmyndina sem að Hafrún Bylgja Guðmundsdóttir á heiðurinn af. Sviðsmyndin vel studd af ljósum og hljóði sem að tæknistjórinn Snævar Örn Ólafsson ber hitann og þungann af. Það færðist yfir mig ró en jafnframt kikkaði leikhús andinn inn og eins og segir í texta söngs Bandalags íslenskra leikfélaga, Allt fyrir andann – „Sem elding leiftri inní mér“. Það er öllum hollt og jafnvel nauðsynlegt að taka þátt í leikhúslífinu, líta upp úr skjánum, nærast félagslega og eignast nýja vini. Það má sannarlega þakka áhugaleikfélögum landsins og ekki síst hinu duglega og magnaða leikfélagi Hörgdæla fyrir að standa vörð um leiklistararfinn ár eftir ár og með svona miklum glæsibrag og toppfólk á öllum aldri í hverri stöðu.
Það er áhugavert og gott hvað við hér á landi eigum góða leikstjóra, einn sá allra besti er reynsluboltinn Gunnar Björn Guðmundsson. Hand- og andans bragð Gunnars sést og finnst glögglega í þessu ansi skemmtilega gamanverki. Það er ljóst að mikil vinna hefur verið lögð í persónusköpun með stórkostlegum leikhópnum. Til þess að farsi gangi upp þarf ákveðna uppbyggingu, hraða, rétta og hóflega notkun á frösum og líkamlegum hreyfingum en umfram allt fullkomnar tímasetningar („tæmingar“). Þetta og miklu meira er allt til staðar, það er svo gaman að sitja undir svona flugeldasýningu og ljóst að Gunnar hefur unnið hér hárnákvæma farsavinnu. Leikhópurinn er frábær, leikgleðin, krafturinn og G vítamínið hreinlega frussaðist yfir glaða leikhúsgesti sem sumir hverjir áttu erfitt með að ná andanum fyrir hlátri.
Takk Gunnar Björn fyrir gott kvöld og takk fyrir að kveikja svona mörg andans ljós um landið allt.
Takk Leikfélag Hörgdæla, þið eruð mögnuð, takk þið dásamlegi leikhópur sem átti gott kvöld með svo mörgum smáum sem stórum fyndnum augnablikum.
Ég á engra hagsmuna að gæta en ég hvet ykkur öll til þess að næra andann, þið munuð ekki sjá eftir því að fara NÚNA inn á tix.is og kaupa miða á Stelpuhelgi. Hvað er betra en að hóa stórfjölskyldunni, vinahópnum, samstarfsfólkinu eða saumaklúbbnum saman og eiga nærandi kvöldstund?
Ég fór glaður, þurrkandi tárin út í stjörnubjart kvöldið hugsandi um strengina sem ég myndi líklega fá daginn eftir, ég hugsaði líka um hvað þetta tókst vel til hjá öllum sem að þessu komu, það var aldrei dautt augnablik.
Takk fyrir mig.
Júlíus Júlíusson er Dalvíkingur og áhugamaður um fagrar listir