„Frábær dagur“ þegar TF - LÍF kom „heim“
Björgunarþyrlan TF - LÍF, sem markaði tímamót þegar Landhelgisgæslan fékk hana árið 1995 og var notuð til 2020, var í gær flutt á Flugsafn Íslands á Akureyri þar sem hún verður varðveitt og til sýnis um ókomna tíð.
„Þetta er frábær dagur fyrir Flugsafnið og flugsöguna,“ sagði safnstjórinn, Steinunn María Sveinsdóttir, alsæl við Akureyri.net. Brosið fór varla af safnstjóranum frekar en öðrum viðstöddum þegar vélinni hafði verið komið fyrir innandyra.
Ekið var með TF - LÍF frá Reykjavík í gær, að Flugsafni Íslands á Akureyri, framtíðarheimili þyrlunnar. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson
„Aðdragandinn hefur verið langur og mikil vinna liggur að baki, bæði hjá safninu og öldungaráði Landhelgisgæslunnar sem hafði frumkvæði að því að vélin yrði varðveitt,“ segir Steinunn.
Ríkiskaup seldu TF - LÍF á síðasta ári, kaupandi var sænska fyrirtækið, EX-Change Parts AB, og Svíarnir ákváðu að færa Flugsafni Íslands þyrluna að gjöf eftir að hafa fjarlægt úr henni þá hluti sem þeir töldu nýtilega.
- Frá 1995 til 2020 var 1.565 manns bjargað eða fluttir í sjúkraflugi með TF-LÍF.
- „Koma Lífar til Landsins árið 1995 olli straumhvörfum í þyrlurekstri Landhelgisgæslunnar,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni. „Þyrlan var mun stærri og öflugri en þær sem fyrir voru.“
- „Ekki leið á löngu þar til kaupin voru búin að sanna gildi sitt því á tæpri viku í mars árið 1997 var 39 skipbrotsmönnum bjargað um borð í þyrluna þegar Víkartindur, Þorsteinn GK og Dísarfell fórust.“
Sigurður Ásgeirsson þyrluflugstjóri hjá Landhelgisgæslunni fylgdi þyrlunni síðasta stpölinni á „elliheimilið“ í gær. Sigurður á að baki 3.000 flugtíma á TF - LÍF. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
„Þetta er mjög vegleg gjöf því þyrlan lítur mjög vel út. Og ekki nóg með að þeir hafi gefið okkur þyrluna heldur hjálpuðu Svíarnir okkur við að finna þá varahluti sem þarf til að gera hana sýningarhæfa. Eimskip og Samherji hjálpa okkur með því að flytja hlutina til landsins og koma hingað norður, og ET flutningar fluttu vélina norður. Þetta er því mikið og gott samvinnuverkefni þar sem margir leggjast á eitt til að við getum varðveitt þessa björgunarþyrlu sem á sér svo merka sögu og öllum þykir svo vænt um,“ segir Steinunn María.
- Öldungaráðið sem nefnt er í fréttinni er skipað fyrrverandi starfsmönnum Landhelgisgæslunnar sem eiga það sameiginlegt að hafa starfað hjá Landhelgisgæslunni fram að því að þeir hófu töku eftirlauna.
„Við munum nýta vorið og sumarið til að vinna í þyrlunni. Við setjum Þristinn [Douglas DC-3 flugvélina] út svo þyrlan fái gott pláss til að hægt sé að gera hana sýningarhæfa, meðal annars með því að koma öllum varahlutunum á sinn stað, og svo verður henni komið fyrir nærri litlu systur, TF - SIF, og TF - SÝN, annarri þyrlu og [Fokker] flugvél Landhelgisgæslunnar. Björgunar- og sjúkraflug er svo stór þáttur af flugsögu okkur að við verðum að gera því góð skil,“ sagði Steinunn María.
Hún vildi einnig koma á framfæri þakklæti til forráðamanna Landhelgisgæslunnar, en Gæslan hefur geymt þyrluna fyrir safnið síðustu misseri.
Steinunn María Sveinsdóttir safnstjóri var afar glöð þegar TF - LÍF var komin í hús. Og sagðist einnig ánægð með að þyrlan gæti einhvern tíma nýst sér sem afbragðs ræðustóll! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Steinunn María Sveinsdóttir safnstjóri og Sigurður Ásgeirsson þyrluflugstjóri hjá Landhelgisgæslunni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
- Fjölmenni fagnaði þyrlunni þegar hún kom til landsins 23. júní 1995, segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni við tímamótin. Flugstjórarnir Páll Halldórsson og Benóný Ásgrímsson flugu þyrlunni til Íslands frá Frakklandi og við heimkomuna sagði Páll að þyrlan hefði reynst vel á heimleiðinni. „Þessi þyrla uppfyllir allar okkar óskir og er bylting.“
- Benóný, Páll og fleiri úr öldungaráðinu voru viðstaddir þegar þyrlan var hífð á pall flutningabíls á athafnasvæði Gæslunnar á Reykjavíkurflugvelli í gærmorgun áður en ekið var norður í land.
Ljósmynd: Þorgeir Baldursson
Ljósmynd: Þorgeir Baldursson
Ljósmynd: Þorgeir Baldursson
Ljósmynd: Þorgeir Baldursson
Davíð Jóhannsson, einn hollvina Flugsafnsins, og stjórnarmaðurinn Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson um borð í TF - LÍF á Akureyri í gær. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson
Ljósmynd: Þorgeir Baldursson
Ljósmynd: Þorgeir Baldursson
Þyrlan TF - SIF, litla systir TF - LIF, er nú þegar á Flugsafninu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Fjallað var um flutninginn norður á RÚV í gærkvöldi. Þar var rætt við flugstjórana Benóný Ásgrímsson og Páll Halldórsson sem sóttu vélina til Frakklands fyrir tæplega 30 árum og flugu henni heim: