Fara í efni
Pistlar

Ford Cortína

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 10

Sá var munurinn á Sigmundi afa og Rúnari syni hans að sá yngri keypti sér fólksbíl á fullorðinsaldri. Þeim eldri fannst það vera fásinna, því hann gæti nú gengið þetta, annað væri það nú.

En hér voru auðvitað kynslóðaskiptin komin, sá stóri munur á afstöðu þeirra sem ólust upp í örbirgðinni upp úr aldamótum og þeirra sem nutu uppgangsins á eftirstríðsárunum. Og þar skakkaði miklu.

En það gerist sumsé undir miðjan sjöunda áratuginn á syðstu spildum Brekkunnar að heimilisfaðirinn í Álfabyggð 16 birtist undir stýri á eldrauðri Ford Cortínu með einkennisnúmerið A 1679. Og bar þar nýrra við. Sá hinn sami hafði varla ekið öðru en gamla Fergusyninum í heimasveitinni á Melum norður í Víkursveit á Ströndum þegar hér var komið öldinni – og allsendis óvíst þótti í huga annarra karla í götunni að nýi bifreiðaeigandinn væri kominn með bílpróf.

En hvað sem því líður var Cortínan kærkomin. Nú var hægt að stafla krökkunum aftan í ökutækið og nestsisbaukunum í skottið og aka sem leið lá yfir Vaðlaheiði og þaðan yfir ávölu brúna á Fnjóská, uns bremsað var við Brúarland í Vaglaskógi. Gott ef það glitti ekki á gortið framan í mannskapnum þegar hann steig allur saman út úr einkabílnum á hlaðinu, enda taldi hann sig eiga fyrir derringnum.

Og nú fékk ekkert stöðvað karlinn á bak við stýrið. Það kom upp sú hugsmíð í Álfabyggðinni að aka alla leiðina til frændfólksins í Reykjavík, hinum megin á Íslandi. Og það var bara fyllt á tankinn einn sumardaginn og látið vaða fram eftir Öxnadalnum. En því er ekki að leyna að ferðin sóttist seint. Það púnkteraði oftar en varadekkinu nam. Svo það þurfti að leggja bifreiðina inn á dekkjaverkstæði í tvígang áður en borgin blasti loksins við sjónum okkar norðanfólksins.

En nestið dugði nú samt, hafði mamma á orði – og það var nokkur huggun í því.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Á komandi misserum munu birtast vikulegir pistlar hans á akureyri.net um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

  • Í NÆSTU VIKU: KOSNINGAR

Hús dagsins: Laxdalshús, Hafnarstræti 11. (230 ára í ár)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 07:00

Keiluspil

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. janúar 2025 | kl. 11:30

Bixímatur

Jóhann Árelíuz skrifar
12. janúar 2025 | kl. 10:00

Geðheilbrigðisþjónusta – Skipulag, samvinna og stjórnun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. janúar 2025 | kl. 09:00

„Aumingja þessi, öllum er sama um hann!“

Orri Páll Ormarsson skrifar
10. janúar 2025 | kl. 12:00

Desember 1915

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. janúar 2025 | kl. 21:00