Fara í efni
Pistlar

Flæði

JÁKVÆÐ SÁLFRÆÐI - IV

Við höfum í undanförnum pistlum verið að velta fyrir okkur þeim þáttum sem mynda PERMA líkanið að blómstrandi lífi. Í síðasta pistli (fyrir lifandi löngu síðan) talaði ég um jákvæðar tilfinningar (e. Positive Emotions) sem standa fyrir P-ið í PERMA en í dag ætla ég að tala um E-ið, sem á ensku stendur fyrir Engagement, sem ég hef kallað fulla þátttöku, eða virkni í því sem við tökum okkur fyrir hendur hverju sinni.

Hugtakið flæði (e. flow) er notað yfir það þegar við erum alveg niðursokkin í krefjandi verkefni eða athöfn, sem við samt ráðum við, eða höfum tækifæri til að ná tökum á. Mihaly Csikszentmihalyi, (Míhæ, Tsíksentmíhæ), einn af frumkvöðlum jákvæðrar sálfræði, gaf árið 1975 út bókina „Beyond Boredom and Anxiety. Experiencing Flow in Work and Play.“ eða „Handan leiðinda og kvíða. Upplifun flæðis í vinnu og leik“. Þarna kemur hugtakið flæði í þessu samhengi fyrst við sögu. Csikszentmihalyi hafði lengi velt því fyrir sér hvað það væri sem gerði lífið þess virði að lifa því. Hann byrjaði á því að skoða skapandi fólk, eins og listamenn og vísindamenn í tilraun til þess að skilja hvað gerði það að verkum að þeim þætti það þess virði að verja lífinu í hluti sem myndu að öllum líkindum aldrei skila þeim fé og frama, en engu að síður gáfu lífinu gildi.

Í framhaldi af þessum pælingum kom hann með kenninguna um flæði. Til að ná flæðisástandi þarf erfiðleikastig verkefnisins að passa við getu okkar til þess að vinna það. Það þarf að vera krefjandi, en þó gerlegt.

Csikszentmihalyi komst að því að það eru átta þættir sem þeir sem upplifa flæðisástand í því sem þeir taka sér fyrir hendur nefna oftast.

  1. Skýr markmið með verkefninu, ekki einungis lokamarkmið, heldur að vitað sé öllum stundum hverju þarf að ná fram.
  2. Tafarlaus ótvíræð endurgjöf, sem er gerir það að verkum að við höldum einbeitingunni.
  3. Jafnvægi á milli áskorunar (erfiðleikastigs) og færni. Ef verkefni er of auðvelt hættir okkur til að leiðast og sinna því illa. Ef verkefni er of erfitt veldur það kvíða.
  4. Fullkomin einbeiting við verkefnið. Verkefnið verður miðja athygli okkar.
  5. Engin athygli á hversdagslegum vandamálum. Við látum ekki hugann reika að vandamálum hversdagsins. Það verður í raun algjör samruni vitundar okkar og þess sem við erum að fást við.
  6. Tilfinning um stjórn. Oft erum við reyndar alveg á mörkunum, þ.e.a.s. við þurfum að hafa fulla athygli til að halda stjórninni. Þannig að þættir 4 og 5 eru oft forsenda fyrir þætti 6.
  7. Tap á sjálfsvitund. Við erum svo einbeitt í því sem við erum að gera að við höfum engar áhyggjur af því hvað öðrum finnst. Egóið hverfur.
  8. Bjögun á upplifun okkar á tímanum. Klukkutímar geta liðið án þess að við áttum okkur á því. Í öðrum tilfellum getur okkur fundist að nokkrar sekúndur taki 15-20 mínútur að líða.

Nú er það ekki svo að allir þessir þættir verði að vera alltaf til staðar. T.d. upplifa íþróttamenn oft flæði, líka í íþróttum þar sem hver sekúnda skiptir máli, eins og t.d. í hlaupum.

Í flæði er semsagt samræmi og fókus í meðvitund okkar, og við erum að gera eitthvað sem okkur finnst það mikilvægt að gera að á því augnabliki hugsum við ekki um neitt annað. Við erum heil og óskipt í verkefninu, og gleymum stund og stað.

Þegar við veltum fyrir okkur í hvaða tilfellum við getum upplifað flæði, þá er svarið í raun, hvenær sem er. En auðvitað eru verkefnin misjöfn, og við mennirnir líka. Hlutir eins og fjallgöngur, tónlistarsköpun, dans, rannsóknir, fallhlífastökk, skák og fleiri eru nánast hannaðir til þess að þátttakendur upplifi flæði.

Hvers konar hreyfing getur verið uppspretta flæðis. Sjálfur upplifi ég oft flæðisástand þegar ég fer út að hlaupa. Þessi einfalda athöfn, að færa annan fótinn fram í einu og færa þannig líkamann yfir rými getur verið uppspretta flókinnar endurgjafar, sem fangar athyglina og lætur mann gleyma hversdagslegum vandamálum. Það að sjá fallega hluti, hvort sem um ræðir málverk, danssýningu, fjallasýn eða lítið blóm, og dvelja í þeirri ánægju sem það veitir getur líka verið fullkomið dæmi um flæði. Það sama gildir um heyrnina. Að hlusta á góða tónlist, lækjarnið, eða upplestur á ljóði virkar eins. Að sjálfsögðu er fólk mismunandi vakandi fyrir því sem það sér og heyrir, en þetta eins og flest annað, er eitthvað sem hægt er að þróa með sér og auka flæðið.

Lestur, krossgátur, og aðrar tegundir hugarleikfimi sem byggja á athygli og minni geta verið uppspretta flæðis svo framarlega sem erfiðleikastig æfinganna er í samræmi við getustig okkar. Ljóða og smásagnaskrif eru líka tilvalin verkefni til flæðisupplifunar. Allir mega og geta skrifað ljóð og sögur. Það þýðir ekki að allir geti skrifað mjög góð ljóð og góðar sögur, en það er með það eins og annað, að stundum er nóg að gera hlutina vegna þess að það veitir okkur ánægju. Það að verkefni komi okkur í flæðisástand og auki við lífsgæði okkar þannig, er ekki háð því að öðrum líki endilega mjög vel við útkomuna, né er það útkoman sem skiptir máli í þessu samhengi.

Ef við viljum upplifa flæði í verkefnum okkar skiptir minna máli hvað við gerum, og meira máli hvernig við gerum það sem við gerum. Þá er tilvalið að skoða þessa átta punkta hér að ofan, og reyna okkar besta til að ná þeim sem flestum. Eitt af því sem við getum auðveldlega gert er að forðast truflanir, eins og t.d. endalausar tilkynningar um tölvupóst og skilaboð. Ef við erum að gera eitthvað sem okkur finnst skipta raunverulegu máli getum við slökkt á öllum þessum tilkynningum og skoðað svo bara póstinn og skilaboðin seinna.

Haukar Pálmason er tónlistarmaður, tölvunarfræðingur og áhugamaður um jákvæða sálfræði.

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00