Fara í efni
Pistlar

Blómstrandi líf

JÁKVÆÐ SÁLFRÆÐI - II

Kenningum um hamingju og vellíðan er gjarnan skipt í tvo flokka. Annarsvegar eru það farsældarkenningar og hins vegar eru það ánægjukenningar.

Það má rekja farsældarkenningarnar alveg aftur til grísku heimspekinganna. Aristoteles talaði um „Eudaimonia“ eða hið góða líf. Þessi hugmyndafræði byggir á því að hamingjan sé túlkuð sem lifandi ferli, frekar en ástand. Þetta ferli einkennist af persónulegum vexti og því að fólk lifi lífi sínu á þann hátt að persónulegir styrkleikar þess séu nýttir í fullu samræmi við gildi þess. Hamingjan er þá í raun það að ganga vel í lífinu, þ.e.a.s. að lífið sé innihaldsríkt, tilgangsríkt, þroskandi, og farsælt.

Ánægjukenningar, aftur á móti, leggja minni áherslu á hvernig okkur gengur, en meiri áherslu á hvernig okkur líður. Lögð er áhersla á upplifun jákvæðra tilfinninga, og hámörkun þæginda, sælu, og ánægjustunda.

Eins og fram kom í pistli mínum hér fyrir nokkrum vikum eru hamingja og vellíðan regnhlífarhugtök yfir nokkra mismunandi hluti og því þarf það ekki að koma á óvart að í dag setja flestir atriði úr báðum þessum flokkum hér að ofan undir regnhlífina. Þegar tekin er heildræn nálgun þá felst raunveruleg hamingja semsagt bæði í því að líða vel og vegna vel. Þetta er stundum kallað blómstrun (e. Flourishing). Ef við ímyndum okkur að hægt sé að setja líðan okkar á skala frá -5 til +5, þá erum við ekki bara að tala um að takmarka þjáningar okkar með því að fara t.d. úr -3 í 0. Við erum að tala um að fara þaðan sem við erum og yfir á betri stað. Það gæti t.d. verið úr +2 yfir í +5.

Til eru þó nokkrar kenningar um hvað þurfi til svo hægt sé að lifa blómstrandi lífi. Ein af þeim vinsælli kom fyrst fram í bókinni „Flourish: A Visionary New Understanding of Happiness and Well-being“ eftir bandaríska sálfræðinginn Martin Seligman, sem stundum er kallaður faðir jákvæðu sálfræðinnar.

Seligman setur fram líkan, sem hann kallar PERMA líkanið. PERMA er skammstöfun sem stendur fyrir þá fimm þætti sem stuðla að því að fólk lifi blómstrandi lífi. Þessi atriði eru:

  • Jákvæðar tilfinningar (e. Positive Emotions)
  • Full þátttaka – virkni (e. Engagement)
  • Góð félagsleg tengsl (e. Positive Relationships)
  • Tilgangur með lífinu (e. Meaning)
  • Árangur (e. Accomplishment)

Samkvæmt þessu líkani þá náum við semsagt að láta líf okkar blómstra með því auka hlutfall jákvæðra tilfinninga, án þess þó að útiloka þær „neikvæðu“. Blómstrandi einstaklingar vinna af heilum hug að því sem þeir sinna hverju sinni, hvort sem það er atvinna, íþróttir, listir, áhugamál eða eitthvað annað. Þeir rækta samböndin við fjölskyldu, ástvini, vinnufélaga og aðra og hafa tilgang eða köllun í lífinu. Þessi tilgangur er eitthvað stærra en við sjálf, og gerir lífið þess virði að lifa því. Jafnframt ná þeir árangri í því sem þeir taka sér fyrir hendur, með því að nota styrkleika sína í samræmi við gildi sín.

Þessi fimm atriði eru þó langt frá því að vera þau einu sem talað er um í tengslum við það að blómstra í lífinu. En það að setja þau undir einn þægilegan hatt með nafni gerir það að verkum að þau eru vinsæl í umræðunni. Önnur atriði sem koma oft upp í umfjöllun um blómstrun eru t.d. bjartsýni, von, seigla, lífskraftur, líkamleg hreyfing, vilji til að prófa nýja hluti og fleira og fleira. Við munum líklega skoða eitthvað af þeim hlutum hér á þessum síðum, en í næstu pistlum mun ég fara betur yfir þess fimm atriði sem PERMA líkanið um blómstrun inniheldur.

Haukar Pálmason er tónlistarmaður, tölvunarfræðingur og áhugamaður um jákvæða sálfræði.

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00