Fátækt er því miður staðreynd á Íslandi og eitt helsta baráttumál Flokks fólksins. Ofarlega á blaði í ánægjulegu ríkisstjórnarsamstarfi sem lofar góðu er einmitt að uppræta fátækt. Ríkisstjórnin mun ekki aðeins gera það með því að lyfta greiðslum almannatrygginga til tekjulægri lífeyrisþega, heldur einnig með markvissum aðgerðum í húsnæðismálum.
Í baráttunni gegn afleiðingum fátæktar er rétt að líta til fleiri þátta en stjórnvaldsaðgerða og virkja áfram mátt og krafta frjálsra félagasamtaka. Gott dæmi um árangursríkt starf er Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðis en að sjóðnum standa; Hjálpræðisherinn, Mæðrastyrksnefnd, Hjálparstarf kirkjunnar og Rauði krossinn á Íslandi.
Velferðarsjóðurinn er hugsaður sem neyðaraðstoð fyrir fólk í bágri stöðu og veitir hann beina styrki til framfærslu sem og tómstunda fyrir börn, s.s. íþróttastyrki.
Mikilvæg framlög í sjóðinn koma frá fyrirtækjum, einstaklingum og hinu opinbera.
Ef farið er yfir 445 úthlutanir Velferðarsjóðs Eyjafjarðar á árinu 2023, koma fram skýrar vísbendingar um að leiga húsnæðis sé ráðandi þáttur í fjárhagsvanda fólks. Liðlega fjórir af hverjum fimm sem leita eftir stuðningi Velferðarsjóðsins eru leigjendur en 17% umsækjenda búa í „eigin“ húsnæði. Það má gera ráð fyrir því að íbúðir þeirra sem fengu aðstoð séu skuldsettar og háir vextir hafi tekið til sín drjúgan hluta af lágum tekjum þeirra.
Annað sem er athyglisvert er að um fjórðungur þeirra sem þurftu að leita á náðir Velferðarsjóðsins leigðu félagslegar íbúðir í eigu sveitarfélaganna. Þessar upplýsingar ættu sveitarstjórnarmenn að fara yfir og kanna hvort að leiga á umræddum íbúðum sé komin yfir viðráðanleg mörk.
Ríkisstjórnin er að fara af stað með bráðaaðgerðir í húsnæðismálum og er greinilega mjög mikilvægt að tryggja að þær nái strax til alls landsins, þar sem vandinn er greinilega mikill á landsbyggðinni. Aðgerðirnar hljóta að fela í sér uppbyggingu húsnæðis, en hætt er við því að aukinn stuðningur í gegnum húsaleigubætur muni aðeins hækka leiguna þegar hagnaðardrifin leigufélög eru svo ráðandi á fasteignamarkaðnum.
Fyrir hönd Flokks fólksins í Eyjafirði.
Sigurjón Þórðarson er þingmaður Norðausturkjördæmis fyrir Flokk fólksins