Fara í efni
Pistlar

Er málið okkar komið í fokk?

Áttundi pistill Stefáns Þórs Sæmundssonar þar sem þeir Aðalsteinn Öfgar velta vöngum um eitt og annað í samfélaginu._ _ _

„Nei, nú fallast mér gjörsamlega hendur. Ég las í vefmiðli að „mörg Palestínumenn“ væru á vergangi og svo heyrði ég í útvarpinu að svo og svo margir hefðu verið „drepin“ en svo og svo margir „særðir“. Svo eru „sumir“ nefndir í einni setningu, „fá“ koma fyrir í annarri og útkoman er þvílíkt bull að þetta er ekki nokkrum manni bjóðandi, allra síst þeim sem eru að reyna að læra íslensku. Þessi nýsjálenska er komin út í öfgar og oft ekki heil brú í tali og skrifum manna sem rembast við að þóknast einhverjum ímynduðum staðli góða fólksins um fullkomið jafnrétti og kynhlutleysi. Maður verður að segja „öll velkomin“, annars verður manni slaufað. Ég segi bara, burt með þetta drasl og höldum áfram að tala íslensku,“ nánast hrópaði Aðalsteinn Öfgar yfir eldhúsborðið.

Ég sat hjá honum niðri á Eyri og var búinn að hlusta á ótal dæmi sem hann hafði tínt til um „nýsjálenskuna“, sem ég benti honum á að væri víst kölluð nýlenska af sumum. Nýja íslenskan.

„Já, já, gott og vel en þú ert íslenskukennari og ég spyr, er ekki nóg að við séum að missa viðtengingarháttinn, fokka upp fallakerfinu, rústa greinarmerkjasetningu, brenna upp orðaforðann og enskuvæða orðaröð og hugsun þó svo við förum ekki líka að stússast í stórfurðulegri kynleiðréttingu á málinu til að þóknast einhverjum örfáum hræðum, hávaðaseggjum og frávikum? Ég held að þetta sé allt komið frá kynjafræðinni, aktívistum, vókliðinu, samfylkingarfólki og ámóta kverúlöntum.“

„Sko, tungumálið er lifandi kerfi sem breytist og að mörgu leyti eðlilegt að íslenskan leiti einföldunar í fallakerfinu eins og skyld mál en…“ byrjaði ég en komst ekki langt.

„Þú hljómar eins Eiríkur og þessir reiðareksmenn sem hafa fyrir löngu gefist upp á því að viðhalda íslenskunni, kenna málfræðireglur og standa vörð um sérstöðu málsins. Með sama áframhaldi mun íslenskt mál deyja út og þá fer menningin, sagan, þjóðernið og allt sem við stöndum fyrir sömu leið. Hvers vegna má aldrei tala um reglur, aga, hefðir og þjóðernisást í þessu blessaða þjóðfélagi án þess að vera sakaður um fasisma eða ámóta hroða?“

Ég svaraði því til að auðvitað héldum við kennarar vönduðu máli að nemendum og reyndum að auka orðaforða þeirra og viðhalda málskilningi og ritfærni. Það væri hins vegar afar erfitt þegar langflestir eru hættir að lesa lengri texta en fáeinar línur í símanum. „Auðvitað langar okkur að skila tungumálinu og menningararfinum til komandi kynslóðar rétt eins og okkur var trúað fyrir þessum djásnum á sínum tíma en á endanum er það unga fólkið sem ræður því hvort það vill tala íslensku áfram og fá beinan aðgang að bókmenntaperlum fyrri alda,“ sagði ég.

Aðalsteinn dæsti og hellti slurk af brennivíni út í kaffibollann sinn. „Má vera en við getum ekki farið í kynleiðréttingu á tungumálinu bara til að þóknast kannski einhverjum 0,3 prósentum. Frávik eru og verða frávik. Þeir… eða þau sem upplifa sig hvorki karlkyns né kvenkyns geta hæglega komið sér upp sérstöku málsniði svo og aðstandendur þeirra en það á ekki að bitna á málinu í heild og…“

„Bíddu,“ greip ég fram í. „Ég held að þessi tilhneiging sé ekki til að þóknast þeim sem eru trans eða skilgreina sig hvorki sem karl né kona, við erum að tala um málfræðilegt kyn þar sem karlkynið hefur verið ríkjandi í íslensku en vissulega hafa flestir vanist því að karlkynsmyndir séu hlutlausar, eins og margir, sumir, engir, fáir, nokkrir, þeir, maður og svo framvegis.“

„Þetta er bara eitthvað svo rangt,“ sagði Aðalsteinn. „Íslenskan má vera öðruvísi. Ég veit að það er ruglandi fyrir útlendinga að læra hvernig á að nota raðtölur frá einum og upp í fjóra því myndirnar eru ótal margar eftir kyni, tölu og falli og ég las um einn innflytjanda sem gafst upp og bað alltaf um fimm af öllu því annars sagði hann kannski „fjögur poki“, „þrír súkkulaðistykki“ eða „tveir skæri“ og þá skipti viðmælandinn alltaf yfir í ensku. Þetta er nú samt hægt að læra en margir hópar í þjóðfélaginu eru frávik eða faghópar og ekki hægt að ætlast til að almenningur setji sig inn í tungutak þeirra. Mér er til dæmis slétt sama þótt ég sé stundum kallaður klikkaður, geðveikur eða í kasti. Ég get ekki ætlast til að fólk tali um að ég þjáist af geðröskunum, nánar tiltekið geðhvörfum og fyllist stundum oflæti eða maníu milli þess sem ég sekk í þunglyndi. Og ég man eftir frænku minni sem talaði alltaf um mig sem helvístis alkann og hvort auminginn væri fallinn einu sinni enn. Átti ég að leiðbeina henni um að í þessum geira væri talað um fólk með fíknsjúkdóm og stundum kæmi bakslag í batann?“

Ég skildi svo sem hvað Aðalsteinn var að fara með þessu og segja má að kórrétt íslenska sé líka að verða frávik eða fagmál. Við höfum hamrað á fallbeygingu á ær og kýr og ég hlakka og mig langar í 70 ár án verulegs árangurs. Það get ég staðfest. Jafnvel þótt nemendur læri að segja ég hlakka til og mig langar í ís þá fer allt úrskeiðis þegar fyrsta persóna víkur fyrir t.d. Guðmundi og stelpunum. Afar fáir segja Guðmundur hlakkar til, Guðmund langar. Enn færri myndu segja stelpurnar hlakka til og stelpurnar langar í ís. Þarna hneigist málið í átt til þágufalls, Guðmundi langar og stelpunum langar.

Jæja, nú er ég að verða of fræðilegur. Styttist í að skólinn byrji. Það sem Aðalsteinn Öfgar sagði um frávik og faghópa vakti mig hins vegar til umhugsunar. Sjálfur hef ég heldur ekki verið ginnkeyptur fyrir kynhlutleysinu en eitthvað virðist það síast inn því þegar ég samdi ljóðið Á flótta, sem birtist á fésbókinni nýverið, komu slíkar myndir ósjálfrátt inn í textann. Kannski breytist þetta bara smám saman.

Lifi ljósið – og lenskan sem kennd er við ís.

Stefán Þór Sæmundsson hefur kennt íslensku við Menntaskólann á Akureyri í 30 ár.

Skemman

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. september 2024 | kl. 13:00

Víti til varnaðar

Jóhann Árelíuz skrifar
15. september 2024 | kl. 06:00

Hrós

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. september 2024 | kl. 11:00

„Ertu gjörsamlega orðinn galinn?“

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
14. september 2024 | kl. 06:00

Hver á að ala upp barnið mitt? Við þurfum allt þorpið

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
13. september 2024 | kl. 06:00

Reiði

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. september 2024 | kl. 08:50