Empyrean – Fullkomið fyrir gamla Potterhausa
AF BÓKUM – 9
Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
Í dag skrifar Dagný Davíðsdóttir_ _ _
Ég mæli með fyrstu tveimur bókunum í Empyrean seríunni, Fourth Wing og Iron Flame. Serían verður að lokum fimm bækur frá rithöfundinum Rebecca Yarros. Þriðja bókin Onyx Storm kemur út 21. janúar næstkomandi, svo nú er fullkominn tími til að hoppa á lestina!
Ég ólst upp við að bíða spennt eftir næstu Harry Potter bók, las Hungurleikana og fleiri seríur sem mér þykir óendanlega vænt um og hafði saknað svolítið að finna fyrir þessari eftirvæntingu eftir næstu bók. Þessar eru nákvæmlega það sem ég vildi, drekar, forboðin ást, leyndarmál, þjóðfræði. Þetta er fullkomið fyrir gamla Potterhausa. Sérstaklega vinsælt hjá ungum konum en bækurnar eru auðvitað fyrir hvern sem er.
Til að gera langa sögu stutta þá fjallar sagan um Violet sem ætlaði sér bara rólegt líf með bókunum sínum, en er skipað af herforingjanum móður sinni að fara í Basgiath stríðsskólann að verða drekariddari. Það eru aðeins tvær leiðir til að yfirgefa skólann – útskrifast eða deyja. Með ýmsum brögðum nær hún lengra og lengra í skólanum, sem er erfitt fyrir litla konu sem margir þola ekki vegna mömmu hennar sem ber ábyrgð á dauða fjölskyldumeðlima samnemenda hennar.
Bækurnar eru spennandi og töluvert „kryddaðar“. Því miður hafa þær ekki verið þýddar yfir á íslensku en vonandi breytist það.