Fara í efni
Mannlíf

Ég ætla að fá Laxness, Yrsu og eina litla klóru

Mynd af vef Amtsbókasafnsins

Fleiri en lestrarhestar leggja orðið leið sína á Amtsbókasafnið á Akureyri, því frjótt starfsfólk safnsins hefur bryddað upp á ýmiskonar nýjungum á síðustu árum. Það nýjasta er að nú er hægt að fá lánuð ýmiskonar garðverkfæri!

Á árum áður sóttu menn sér Laxness, Þórberg og fleiri góða á safnið, glugguðu í dagblöðin – og höfðu hljótt, sem var lykilatriði.

Í nokkur ár hefur fólk getað fengið lánaðar bíómyndir og ýmiskonar spil, ekki er langt síðan kökuform voru boðin til láns og farið að gefa frækorn. Þá má ekki gleyma frísskápnum fyrir utan safnið, almenningsskáp þar sem fólk getur skilið eftir matvæli sem það sér ekki fram á að nota en aðrir geta tekið sér að kostnaðarlausu.

Og nú hefur enginn afsökun lengur að geta ekki sinn vorverkum í garðinum! Eftirfarandi birtist á heimasíðu Amtsbókasafnsins í gær:

Það er farið að vora á Akureyri og kominn tími til að byrja vorverkin. Frá og með deginum í dag eru garðverkfæri til útláns hjá okkur, lánstími er 7 dagar. Verkfæri sem eru í boði: handskófla, lítil klóra, stungugaffall, stunguskófla, kantskeri, handklippur, greinaklippur, fata, beðhrífa, fíflajárn, greinasög og garðáhöld fyrir börn. Vinsamlegast þrifið verkfærin vel áður en þið skilið.

Fólk getur sem sagt slegið margar flugur í einu höggi á safninu; til dæmis tekið með sér heim eintak af góðri bók eftir Laxness, sama verk í formi bíómyndar og kökuform. Eða Grámosinn glóir eftir Thor Vilhjálmsson, stungugaffal og fíflajárn.

Smellið hér til að fá nánari upplýsingar