Fara í efni
Menning

Dalalíf – ákveðinn gluggi aftur í liðna tíma

AF BÓKUM – 7

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.

Í dag skrifar Reynir Elías Einarsson_ _ _

Sem barn eða unglingur uppgötvaði ég fyrst tilvist bókanna Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi. Þar sem móðir mín sagði mér frá ástarbralli bænda um aldamótin 1900 var fátt, á þeim tíma, sem vakti áhuga minn. Löngu síðar gaf ég þeim loks tækifæri og hef ekki séð eftir því.

Sagan hefst um miðja nítjándu öld og í fimm bindum og um 2200 blaðsíðum, fyrstu útgáfu, er fjallað um uppvöxt og afdrif æskuvinahópsins úr Hrútadal. Jú að hluta til fjalla þær um þennan vinahóp fara sér að voða í ástum, framhjáhöldum, brauðstriti, vanheilsu, slysförum og öllu því sem góð sápuópera þarf að hafa. En þessar bækur eru svo miklu meira en gamaldags „sveitarómanar“. Þrátt fyrir allt dramað fer Guðrún sjaldan út í væmni og miklu frekar að hún verði sökuð um lúmska hnyttni, sér í lagi í samtölum sumra persóna hennar. Þá verð ég að nefna líka að Guðrún notar ýmis orðtök og tilsvör sem finnast varla í íslensku máli lengur, en er gaman að læra og tileinka sér.

Bækur hennar hafa verið gagnrýndar fyrir óþarfa málalengingar, en þær kann ég vel að meta. Greinargóðar lýsingar á fornu verklagi og bústörfum, t.d. ullarþvotti og túnverkun auk nákvæmra lýsinga á húsakosti bæði auðjarla og þurfalinga, til sjávar og til sveita. Í Dalalífi eru t.a.m. greinagóðar lýsingar á kotbýlinu Jarðbrú sem er lítið, hálfniðurgrafið torfhús af þeirri gerð sem lítið sem ekkert hefur varðveist af á Íslandi. En hún lýsir ekki bara húsunum sjálfum heldur líka hvernig búið var í þeim, allt frá skúringum til borðbúnaðar. Þannig er Dalalíf ákveðinn gluggi aftur í liðna tíma.

Dalalíf hefur ekki verið sett á sama stall og bækur margra karlkyns rithöfunda frá sama tíma, en þær voru og eru enn oft meira lesnar. Beini ég þessum meðmælum einkum til þeirra sem hafa veigrað sér að lesa bækur Guðrúnar af ótta við það að þetta séu einungis væmnar ástarsögur. Það eru góðar ástæður að baki vinsældum Dalalífs, sem spanna núna um 75 ár.