Fara í efni
Umræðan

Beint flug til útlanda

NORÐAUSTURKJÖRDÆMI – 2

Sem áhugamaður um byggðamál og fræðimaður skrifa ég hér átta stuttar greinar um mikilvægustu málin í Norðausturkjördæmi að mínu mati.

Í öðru sæti er beint flug til útlanda.

Í Norðausturkjördæmi eru tveir alþjóðaflugvellir, á Akureyri og Egilsstöðum. Í áratugi hafa heimamenn unnið að því að koma á beinu flugi til útlanda um þessa flugvelli. Nú loksins virðist utanlandsflug um Akureyrarflugvöll vera að ná flugi en minna er í gangi á Austurlandi.

Draumurinn um beint flug til útlanda er tvískiptur. Annars vegar um að fá fleiri erlenda ferðamenn inn á Norðurland og Austurland allt árið og stækka þannig ferðaþjónustuna í landshlutunum og auka verðmætasköpun. Hins vegar frelsisdraumur heimamanna að geta komist beint til útlanda á örfáum klukkutímum.

Stjórnvöld hafa stutt við beint flug frá þessum flugvöllum og ber að þakka fyrir það. Bæði fá flugrekendur styrki til að hefja nýja flugleið auk þess sem farið hefur verið í uppbyggingu á flugvöllunum sjálfum. Enda góðir varavellir líka nauðsynlegir fyrir flug um Keflavík. Á Akureyri er nú löng flugbraut, ný flughlöð og mjög stækkuð flugstöð. Mikil tímamót urðu þegar Niceair hóf reglulegt millilandaflug frá Akureyri vorið 2022 og önnur tímamót uðru þegar fyrsta stóra flugfélagið, EasyJet, hóf áætlunarflug frá Akureyrarflugvelli haustið 2023. Þetta virðist vera að takast.

Beint flug til útlanda er ein mesta lífsgæðaaukning sem orðið hefur á Akureyri og nágrenni á síðustu áratugum. Rannsóknir styðja þá ályktun. Búsetuskilyrði eru einfaldlega betri með auðveldu aðgengi að útlöndum. Með utanlandsflugi er líklegra að fólk vilji setjast að á viðkomandi stað. Það er því gífurlega mikilvægt að utanlandsflugið haldi áfram að þróast og dafna. Stjórnvöld þurfa að leggja sitt af mörkum í þeim efnum með þá von að með tíð og tíma þurfi ekki sérstakan stuðning, flugleiðir muni geta gengið án aðstoðar og vannýttir landshlutar í ferðaþjónustu búi til aukin verðmæti fyrir þjóðarbúið. Stuðningur við þessa þróun er hins vegar háður stjórnvöldum hverju sinni.

Eins og áður sagði hefur lítið gerst á Egilstaðaflugvelli í utanlandsflugi síðustu misseri. Heimamarkaðurinn er lítill á Akureyri en er enn minni á Egilsstöðum. Vonandi mun framtíðin samt sem áður gefa okkur millilandaflug frá Egilsstöðum með tilheyrandi lífsgæðaaukningu á Austurlandi. Norðlendingar og Austlendingar þurfa síðan að vera duglegir að styðja hvorir aðra. Norðlendingar þurfa að nýta sér flug frá Egilsstöðum og Austlendingar frá Akureyri. Þá væri gott að bæta vegakerfið þar á milli, meira um það síðar.

Jón Þorvaldur Heiðarsson er lektor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri

Uppbygging Akureyrarflugvallar hefur aukið lífsgæði íbúa

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:10

Heimur á villigötum

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:00

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45

Lægri fjármagnskostnaður, er krónan góð fyrir landsbyggðirnar?

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 10:00

Örugg skref um allt land

Logi Einarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 06:00