Fara í efni
Fréttir

Barðist Þór gegn Samfylkingunni?

Fyrsta skóflustunga tekin að nýjum keppnisvelli á félagssvæði KA á dögunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri segir forsvarsmenn eins íþróttafélags í bænum hafa tekið mjög skýra afstöðu gegn uppbyggingu hjá öðrum, fyrir kosningar til bæjarstjórnar í vor. Þeir hafi m.a. látið hafa eftir sér opinberlega að atkvæði greitt einu tilteknu framboði væri atkvæði greitt gegn hagsmunum umrædds félags. 

Engum dylst að þarna vísar Sindri Kristjánsson annars vegar til Íþróttafélagsins Þórs, hins vegar til Samfylkingarinnar.

Tilefnið er umræða um byggingu knatthúss á félagssvæði Hauka í Hafnarfirði. Formaður FH birti í gær opið bréf til bæjarfulltrúa þar sem hann segir kostnað mun hærri en nauðsynlegt sé. Bæjarstjórinn segir viðbrögð formannsins ekki koma á óvart en það hljóti að vera einstakt að forsvarsmaður íþróttafélags beiti sér svo ákaft gegn uppbyggingu íþróttamannsvirkis annars.

Sennilega alvöru einsdæmi

„Það er mér ljúft og skylt að benda bæjarstjóra Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði á að hér er alls ekkert einsdæmi á ferð. Í aðdraganda bæjarstjórnarkosninga á Akureyri í vor tóku forsvarsmenn eins íþróttafélags hér í bæ mjög skýra afstöðu gegn uppbyggingu hjá öðrum íþróttafélögum bæjarins,“ skrifar Sindri. „Í þeirri herferð létu forsvarsmenn og málsmetandi félagsmenn íþróttafélagsins ýmislegt eftir sér hafa opinberlega, m.a. að atkvæði greitt einu tilteknu framboð væri atkvæði greitt gegn hagsmunum umrædds félags. Það að íþróttafélag taki svo skýra pólitíska afstöðu með opinberum hætti í aðdraganda kosngina er aftur á móti sennilega alvöru einsdæmi. En bæjarstjórinn í Hafnarfirði getur kannski leiðrétt mig með það.“

Fyrrverandi formaður KA, eiginmaður oddvita Samfylkingarinnar á Akureyri, kveðst taka undir hvert orð Sindra og segist myndu vilja bæta miklu við.

Þórsarar gagnrýndu á sínum tíma mjög skýrslu starfshóps Akureyrarbæjar um nýframkvæmdir íþróttamannvirkja næstu 15 ár, sem samþykkt var að vinna eftir. Sum framboð sögðust í aðdraganda kosninga tilbúin til að endurskoða  forgangsröðun en forsvarsmenn Samfylkingar voru meðal þeirra sem sögðust myndu halda sig við hana.

Hvers vegna þegir ÍBA þunnu hljóði?

„Tek undir hvert orð og myndi vilja bæta miklu við. Það sorglega er að þetta virðist virka og mikilli vinnu hent til hliðar. Það verður allavegna fróðlegt að fylgjast með þegar fjárfestingaáætlun næstu 5 ára verður lög fram samhliða fjárhagsáætlun. Merkilegt nokk að ÍBA sem er varðhundur íþróttafélaganna þegir þunnu hljóði, hvers vegna skyldi það vera?“ skrifar Ingvar Már Gíslason, eiginmaður Hildu Jönu Gísladóttur, oddvita Samfylkingarinnar, við færslu Sindra.

Þess má geta að formaður ÍBA er Þórsari.

Ingvar hætti sem formaður KA í febrúar á þessu ári. „Á undanförnum vikum hefur það orðið ljóst að því miður fer það ekki saman að veita stóru félagi eins og KA er forystu, jafnvel þótt um sjálfboðastarf sé að ræða, á sama tíma sem maki minn er kjörinn fulltrúi í sveitastjórn,“ sagði hann þá í yfirlýsingu. 

Smellið hér til að sjá umfjöllun Fréttablaðsins um deiluna í Hafnarfirði.