Fara í efni
Umræðan

Af kirkjutröppum og kammerráði

Framkvæmdum við kirkjutröppurnar er enn ekki lokið, en vonir til þess að verklok gætu orðið í árslok. Þá hafa framkvæmdir staðið yfir í 19 mánuði, en mig minnir að það hafi tekið 16 mánuði á fjórða áratug síðustu aldar, að byggja kirkjuna, þetta stóra og fallega hús. Höfðu menn þó ekki annað en haka, skóflu og hjólbörur til að taka grunninn. Auk þess var kirkjan byggð á krepputímum. Það kostaði stundum átök og pólitíska vinavæðingu, að verða sér úti um timbur og sement.
 
Það hefur því miður verið einkennandi fyrir framkvæmdir á vegum bæjarins á undanförnum árum, að verkáætlanir standast ekki og því síður fjárhagsáætlanir. Mér sýnist að þetta sé oft vegna þess að framkvæmdir eru settar af stað án þess að þær hafi verið grundaðar til enda. Gott dæmi um þetta er endurbygging Samlagsins í Grófargili fyrir Listasafnið. Þar var endalaust verið að breyta og bæta við á framkvæmdatímanum, sem sprengdi fjárhagsáætlun sem bæjarstjórn hafði samþykkt. Mér er til efs, að þáverandi bæjarstjórn hefði samþykkt að fara í þessar framkvæmdir ef fjárhagsáætlunin hefði verið í takt við raunverulegan kostnað. Fleiri dæmi gæti ég nefnt af svipuðum toga, sem vekur upp þá spurningu, hvort það sé í raun lenskan, að leggja niðurreiknaðar fjárhagsáætalnir fyrir bæjarfulltrúa, í þeirri von að það auðveldi að ná meirihluta í bæjarstjórninni til að samþykkja að fara út í viðamiklar framkvæmdir.
 
 
Það hófust t.d. framkvæmdir við kirkjutröppurnar án þess að búið væri að ganga frá samningum við eignharhaldsfélagið Reginn, sem á byggingar hótels KEA og hafði nýverið keypt „náðhúsið“ undir kirkjutröppunum af Akureyrarbæ þegar framkvæmdir hófust. Þar réði Rögnvaldur vinur minn „kamerráð“ ríkjum í eina tíð. Í ljós kom, að nýju eigendur „náðhússins“ höfðu hugmyndir um að endurbyggja þetta rými undir tröppunum og stækka það fyrir verslun og veitingar í tengslum við KEA. Mig minnir að það hafi kostað breytingar á deiliskipulagi, að koma þessu heim og saman. Upphafleg kostnaðaráætlun var upp á 200 m. kr. minnir mig. Ætli hún standi? En vonandi lýkur þessu leikriti um áramótin, án þess að slys verði á fólki. Það var lán að enginn lenti undir lyftaranum, sem valt ofan úr stöllunum í vikunni. Ég reikna þó fastlega með, að frágangur á grasflötum stallanna og öðrum gróðri verði að bíða gróanda vorsins.
 
Í verklok verður umhverfi kirkjunnar okkur til mikils sóma trúi ég. Þá verður gaman að setjast út á stéttina fyrir framan gömlu „náðhúsin“ með einn öllara og skála fyrir Rögnvaldi vini mínum „kamerráð“ Rögnvaldssyni. Á blaðamannsárum mínum þegar Rögnvaldur var orðinn húsvörður ráðhússins okkar þurfti ég stundum að sitja yfir bæjarstjórnarfundum, sem gátu orðið langir og leiðinlegir. Þá læddi ég mér stundum yfir í „hreiðrið“ hjá „ráðhúsherranum“ og fyrrverandi „náðhúsherra“. Þar var oft gaman hjá okkur og skemmdi ekki, að stundum náði kappinn í smá afganga úr síðustu bæjarstjórnarveislu. Þeir voru betri en kaffigutlið, sem bæjarstjórnin bauð upp á!
 

Gísli Sigurgeirsson er fyrrverandi fréttamaður

Uppbygging Akureyrarflugvallar hefur aukið lífsgæði íbúa

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:10

Heimur á villigötum

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:00

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45

Lægri fjármagnskostnaður, er krónan góð fyrir landsbyggðirnar?

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 10:00

Örugg skref um allt land

Logi Einarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 06:00