Fara í efni
Umræðan

Af hverju faldi ég vandann?

10. október –  Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn

Ég fór að finna fyrir andlegum vanda þegar ég byrjaði í grunnskóla 1974. Ég fór að leika trúð um 12 ára aldur til að fela andlega vandann og óttann. Mig langaði ekki að lifa í heljargreipum óttans en sá enga útgönguleið úr andlegum vanda. Til þess að lifa þurfti ég að setja upp leikrit þar sem ég var leikstjórinn. Ég var reiður yfir því hvernig mér leið, reiður í eigin garð. Herbergið er minn besti vinur. Ég veit ekki af hverju ég roðna, klökkna, hef litla einbeitingu, brothætt taugakerfi, ekkert sjálfstraust eða sjálfsvirðingu. Ég var viss um allir skömmuðust sín fyrir mig og leið líka illa innan um fjölskylduna.

Ég leyfi öðrum að gera grín að mér og tek þátt í því sem trúður svo enginn geti séð hvernig mér líður. Ég skammaðist mín fyrir sjálfan mig. Ég leit út fyrir að fúnkera félagslega, en eftir að ég varð fimmtán, sextán ára fór ég aldrei með félögum í bíó og forðaðist að taka þátt í mannamótum nema áfengi væri við hönd. Ég var með afsakanir en auðvitað dauðlangaði mig en andlegi vandinn og óttinn hótuðu mér miskunnarlaust að ég yrði mér til skammar. Ég prófaði framhaldsskóla en entist aðeins í tvo mánuði þar sem ég gat ekki verið innan um aðra. Ég fór að vinna 16 ára og var á sama vinnustað í 20 ár.

Samt var ég alltaf virkur í íþróttum. Ég var meira að segja í félagsíþrótt, spilaði fótbolta með Þór og Magna Grenivík þótt mér liði illa. Ég fór í Magna þar sem ég hafði ekki sjálfstraust til að vera í Þór og Magni var minna félag. Ég þurfti að hætta í boltanum 1994 þar sem ég greindist með bein í bein í mjaðmarliðnum.

Ég var orðinn 38 ára gamall árið 2005 og var staddur á verkjasviði á Kristnesi í Eyjafirði eftir mína aðra mjaðmaliðaskiptingu sem heppnaðist ekki vel. Ég fékk fræðslu á Kristnesi og bæklinga um kvíða, félagsfælni og þunglyndi. Ég brotnaði saman, það voru til lýsingarorð á mínum andlega vanda og það var heiti sem kallast geðraskanir og það var von. Bæklingarnir sögðu mína sögu og útskýrðu af hverju mér hafði liðið svona illa síðan ég var krakki með sjálfsvígshugsanir nær daglega.

Það voru ástæður fyrir myrkrinu og svartholinu sem hægt var að vinna með. Þetta var ekki mér eða neinum öðrum að kenna hvernig mér leið og óþarfi að skammast sín fyrir það frekar en ég væri með krabbamein. Ég ákvað strax á Kristnesi að leita mér hjálpar og horfa fram á veginn með opnum huga og jákvæðni að leiðarljósi.

Það er ekki allt neikvætt í kerfinu

Mikið af fagfólki vinnur frábært starf undir erfiðum aðstæðum þar sem stjórnvöld hafa ekki gert nóg til að tryggja gott vinnuumhverfi. Ég er svo heppinn að hafa fengið að kynnast mismunandi úrræðum og er þakklátur þeim öllum og því fagfólki sem vinnur þar.

Frá 2005 hef ég unnið vel í mínu lífi með hjálp fagmanna og fólks með reynslu af geðröskunum. Þau úrræði sem ég hef notað eru heimilislæknir, Starfsendurhæfing Norðurlands, SÁÁ, Heilsustofnun í Hveragerði sem ég fer reglulega til. Þrisvar sinnum á geðsvið Reykjalundar sem gera samtals fjóra mánuði. Geðdeild á Akureyri í fjórar vikur 2008 og í félagskvíðahóp í framhaldi af geðdeild. Ég útskrifaðist sem ráðgjafi úr Ráðgjafaskóla Íslands í desember 2009 og sem félagsliði úr Símey vorið 2016. Ég bjó í Reykjavík frá 2009 til 2012 og stundaði Hugarafl með notendum og fagfólki. Ég er einn af stofnendum Grófarinnar ásamt fleiru góðu fólki bæði fagmönnum og fólki með reynslu af geðröskunum. Ég hef farið í fimm ár með öðru góðu fólki úr Grófinni með geðfræðslu í grunn- og framhaldsskóla á Akureyri í samvinnu við forvarnarfulltrúa Akureyrarbæjar. Áður en við byrjuðum að fræða nemendur grunnskólana var farið í alla grunnskólana til að fræða kennara og starfsfólk. Það vakti mikla ánægju og fengum mikið lof fyrir en auk þess hefur geðfræðsluteymið farið í nærsveitir og víða um land.

Geðfræðslan hefur heppnast mjög vel og eru ungmenni mjög þakklát að fá fólk sem talar frá hjartanu um sína persónulegu reynslu og bjargráð. Ég veit sjálfur að ef einhver hefði komið þegar ég var í 9. bekk og hefði sagt sína sögu og lýst einkennum myndi það hafa útskýrt mína líðan. Að geta séð manneskju með reynslu af kvíða og þunglyndi hefði gefið mér tækifæri til að takast á við sjálfan mig með faglegri aðstoð. Þannig að það er mikil vinna að baki en guð minn almáttugur hvað ég er þakklátur öllum þeim sem hafa hjálpað mér uppúr svartholinu.

Ég veit að ég er ekki fullkominn frekar en aðrir en ég reyni að gera mitt besta eins og flestir vil ég trúa. Afleiðingar af geðröskunum geta leitt af sér stoðkerfisvandamál og í dag hef ég farið í þrjár mjaðmaliðaskiptingar sömu megin. Ég glími í dag við slitgigt og króníska verki sem sést ekki alltaf en skapa líka síþreytu. Ég nefni stoðkerfisvandann svo að kerfið geri sér almennilega grein fyrir að afleiðingar af geðröskunum eru margbreytilegar sem fylgir meiri kostnaður. Með fyrirbyggjandi íhlutun að taka á vandanum strax er ég viss um að ávinningur verði fljótur að skila sér fyrir samfélagið. Heildræn nálgun fyrir fjölskylduna er það sem þarf að vinna að og þannig sköpum við verðmæti samfélaginu til heilla. Góðar stundir.

Hægt er að sjá dagskrá 10. október á Akureyri hér 

Eymundur L. Eymundsson er ráðgjafi og félagsliði.

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00