Þorleifur Jóhannsson
Á Þorláksmessu kvaddi minn elskulegi vinur Þorleifur Jóhannsson, Leibbi, þetta jarðlíf og verður til moldar borinn í dag, 11. janúar. Veikindi Leibba voru stutt og snörp en eins og öðru í sinni tilveru, tók hann þeim af einstöku æðruleysi og ró.
Við hittumst síðast nokkrum vikum fyrir andlátið, þá sátum við í eldhúsinu með henni Ellen, rifjuðum upp atvik úr ferðalögum, hlógum saman og það var vel hægt að gleyma því þessa stund að hann væri mikið veikur. Dæmigert fyrir öðlinginn og ljúfmennið hann Leibba. Hann lét fólki líða vel í öllum kringustæðum, hvort sem það voru vinir hans og fjölskylda, unglingarnir sem hann kenndi eða vinnufélagar.
Ég var bara krakki þegar ég kynntist Leibba fyrst, enda hann 12 árum eldri en ég. Hann trommaði með hljómsveitinni hans pabba míns, í mínum huga fullorðinn maður og ekki datt mér í hug þá að hann yrði einn af mínum kærustu vinum. Haustið 1980 varð til hljómsveit sem spilaði þann vetur á Hótel Kea en í henni voru auk mín, þeir Leibbi, Brynleifur Hallsson/Billi og svo pabbi Ingimar. Allir eru þeir nú látnir en Billi varð bráðkvaddur síðastliðið haust. Við Leibbi vorum saman í hljómsveit næstu 20 árin og enginn spilaði með mér lengur en hann þótt margir fleiri ættu eftir að bætast í hljómsveitina, sem var líka vinahópur. Vinátta okkar varð ennþá lengri enda bar aldrei á hana nokkurn skugga. Alltaf varð með okkur sami fagnaðarfundurinn hvenær sem við hittumst og það var í raun merkilegt hvað það gerðist oft án þess að við hefðum skipulagt það neitt. Við hittumst auðvitað ekki eins oft og við gerðum á tímum samspils og samvinnu en það skipti ekki máli. Vináttan og kærleikurinn sem hann átti svo mikið af var samur. Ég þekki fáa sem voru jafn vel metnir af öllum samferðarmönnum og það sökum hógværðar og elskusemi. Hann var ekki fyrir að hrósa sjálfum sér eða láta á sér bera en verkin hans og framkoma lýstu fallegri sál og listamanni. Leibbi var sannarlega hagur,- smíðar, teikningar, tónlist, allt lék í höndunum hans og bar smekkvísi hans vitni.
Þessa dimmu janúardaga hafa endalausar minningar um Leibba komið upp í hugann. Öll okkar spilamennska, böllin um landið vítt og breitt, ferðalögin utanlands og innan, endalaus hlátursköst, gleði og samvera. Regnbogageymslan, krapageymslan, veltingurinn á Eddunni yfir Atlanshafið, flugfreyjan sem færði Leibba (að ósk okkar Snorra) litabók og liti, klukkan sem var kortér gengin af göflunum, allar stundirnar í Spítalaveginum. Þeir Leibbi og Snorri, Knold og Tot, voru með tveggja manna uppistand að öllu jöfnu og það sem ég gat hlegið endalaust að vitleysunni allri.
Ellen hans Leibba, sem hann kynntist í hljómsveitarferð til Stokkhólms, börnin, barnabörnin, Símon bróðir hans, Snorri, vinirnir allir og fjölskyldan, ég votta ykkur öllum mína dýpstu samúð. Það er erfitt að ímynda sér tilveruna án Leibba en hann lifir áfram í minningum okkar allra.
Fjölskyldan mín, mamma og systkini senda hjartans kveðjur og þökk fyrir vináttu og elskusemi alla tíð.
Inga Dagný Eydal