Ólafur Gísli Hilmarsson

Í dag kveðjum við Óla Hilmars.
Sem barn og unglingur varði ég löngum stundum á heimili Hilmars og Ingibjargar þar sem við Stína systir Óla vorum og erum mjög góðar vinkonur. Óli var háværi, hressi og káti fjölskyldumeðlimurinn og engum duldist hvort hann var heima eða að heiman.
Óli var risastór karakter og í minningunni var hann alltaf kátur. Hann gerði oft og iðulega góðlátlegt grín að okkur vinkonunum og hló hátt að vitleysunni sem okkur datt í hug að framkvæma.
Óli var blíður og góður drengur og bóngóður með eindæmum. Sem dæmi um góðmennskuna á ég minningar um að hafa vakið hann eftir miðnætti til að biðja hann um að skutla mér heim eftir videókvöld hjá okkur Stínu. Kristín sofnaði yfirleitt yfir myndunum á upphafsmínútunum og þegar myndin var búin var vonlaust að vekja hana. Þá var auðveldara að vekja Óla og meira að segja undir þeim kringumstæðum varð hann ekki geðvondur heldur skutlaði mér heim fyrir eitt orð. Í eitt skiptið var orðið svo illfært um bæinn að mér var skutlað heim á snjósleða.
Vinátta og væntumþykja okkar Óla hélst alla tíð. Ég fékk alltaf knús og hlýtt viðmót þegar við hittumst og mér þótti vænt um það. Það er sjónarsviptir af þessum stóra og hreinskilna karakter sem var hvers manns hugljúfi. Takk elsku Óli fyrir samfylgina, vináttuna og væntumþykjuna.
Elsku Eva, börn og barnabarn, Þorvaldur, Stína og fjölskyldur missir ykkar er mestur og óska ég þess að góður Guð styrki ykkur og leiði í sorginni.
Hanna Dóra Markúsdóttir


Ólafur Gísli Hilmarsson

Ólafur Gísli Hilmarsson

Ólafur Gísli Hilmarsson – lífshlaupið

Kristján Gunnarsson
