Kristinn Páll Einarsson
Ástkær og elskulegur faðir minn lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri þann 22. mars síðastliðinn 72 ára að aldri eftir erfiða baráttu við veikindi
Pabbi kvartaði aldrei í veikindunum, sýndi fádæma styrk og æðruleysi og hélt í húmorinn til síðasta dags
Pabbi byrjaði sína starfsævi sem sjómaður þar sem hann sigldi um öll heimsins höf, varð síðan lögreglumaður, svo Eftirlitsmaður Vegagerðarinnar og loks síðustu árin sem boðunarmaður Sýslumanns. Hann skilur eftir sig eiginkonu til 50 ára, okkur 4 systkinin, 6 barnabörn og 2 tengdabörn.
Pabbi var eiginlega einn ótrúlegasti karakter og einstaklingur sem ég hef kynnst. Ótrúlega góðhjartaður, hjálpsamur og tilfinningagreindur. Mátti ekkert aumt sjá. Virkilega fær í mannlegum samskiptum og á köflum pínu sérlundaður og sérvitur. Skemmtilega hreinskilinn. Mjög næmur á fólk, umhverfi og aðstæður, afar tilfinningaríkur, orðheppinn með eindæmum og bjó eiginlega til sína eigin mállýsku með ótrúlegum orðaforða og nafngiftum. Hann varð ekki oft reiður en þegar hann varð reiður þá fór það ekki á milli mála.
Svo fyndinn var hann oft að ég táraðist úr hlátri. Hann tók eftir öllum smáatriðum í fari fólks eins og röddum, töktum, göngulagi, kækjum eða kippum og lék það eftir. Hann hugsaði fyrst um fólkið sitt en síðast um sig. Hann vildi helst styrkja öll hjálpar- og góðgerðarsamtök sem á vegi hans urðu og vildi helst borga meira en hæsta upphæðin gat til um.
Hann var mikil félagsvera en um leið líka mikill einfari og undi sér hvergi betur í frið og ró einn heima við yfir bók, sjónvarpi eða tölvu. Allra best leið honum þó í hita og sól erlendis með öl og sígó í hendi.
Fólk sem var fatlað eða jaðarsett á einhvern hátt í samfélaginu á Akureyri sogaðist til pabba þegar það sá hann úti í bæ, úti á götu eða úti í búð. Það var ótrúlegt að fylgjast með því. Alltaf gaf hann sér tíma til að tala, sýndi því athygli og eftirtekt sem þau höfðu að segja og kvaddi það með virktum eftir langt spjall. Öll erum við jafningjar en fáum ólík hlutskipti og endum á mismunandi stöðum í lífinu, sagði kallinn.
Kvenfólk var líka oft afar áhugasamt og lifnaði við í kringum kallinn og það var einhver sérstakur þokki, sjarmi, áhrif og aðdráttarafl sem pabbi hafði.
Sorgin, söknuðurinn, missirinn, vanlíðanin, tómleikinn og depurðin yfir fráfalli föður míns eru eiginlega meiri en orð fá lýst. Það mun taka einhvern tíma að ná utan um það að hann sé farinn. En minningarnar og sögurnar af honum munu lifa og í það verður haldið fast.
Davíð Már Kristinsson