Fara í efni
Minningargreinar

Einar Marteinn Gunnlaugsson

Vinur minn og tengdapabbi, Einar í Lindu er látinn 89 ára, hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri þriðjudaginn 13. september. Útför Einars hefur fram í kyrrþey að hans ósk.

Hann tengdapabbi minn var dásamlegur maður fyrst og síðast, húmoristi, stríðinn, réttsýnn, vel lesinn, nákvæmur, nýtinn og ekki síst kassalaga bara i jákvæðri merkingu þess orðs. Það var alltaf allt klárt hjá honum nema eftir að ég komst í hlutina hans þá var þeim oftast hent, t.d. málningarrúllunum og penslunum sem hann hafði átt i áratugi. Mér var alltaf fyrirgefið.

Áhugi hans lá víða, hann hreyfði sig mikið sagði alltaf að stóllinn væri versti óvinur mannsins og borðaði hógvært enda átti enginn að standa saddur upp frá borðum. Því miður náði hann ekki að berja þetta inn i höfuðið á mér. Mikill áhugamaður um veðrið og skráði það hjá sér i áratugi, hafði gaman af að skoða hvernig veðrið var á sama degi jafnvel mörg ár aftur í tímann og upplýsa okkur sauðina sína. Íþróttum fylgdist hann mjög vel með ekki síst öllum stórum mótum i frjálsum, hann þekkti flestar helstu hetjur dagsins í dag og allar hetjur gærdagsins og hafði gaman af því að rifja upp afrek þeirra. Uppbyggingin i bænum og landið okkar var honum hugleikið. Stóri fjársjóðurinn var samt í börnunum, barnabörnunum og tengdabörnunum, allur hópurinn fékk sinn skammt af athygli. Hvort sem það var skólinn, íþróttir eða einkalífið.

Nákvæmni
(Einar var alltaf á sama tíma)

Úr Álfabyggðinni leiðin lá.
Lögreglustöðinni framhjá.
Þörfin engin þótti þá.
Löggunum að kíkja klukkuna á.

Einar var oftast kenndur við Súkkulaðiverksmiðjuna Lindu enda starfaði hann þar í ein 30 ár. Fyrstu kynni mín af honum voru einmitt þar en þangað þurfti ég að sækja sófasett sem ég hafði fest kaup á úr Reykjavík, þar sem að flutningsaðilinn hafði aðsetur fyrir sína frakt í Lindu. Ég var rétt kominn á staðinn og eiginlega alls ekki tilbúinn í að mæta hugsanlega jafnvel kannski tilvonandi tengdaföður mínum en ég komst ekki undan, Einar var sá fyrsti sem ég mætti og ljóst var að hann hafði haft spurnir af því að við dóttir hans vorum að stinga saman nefjum . Einar var frægur fyrir „mjög þétt“ handtak, það vissi ég ekki á þessum tíma en var fljótur að átta mig á því. Þegar hann rétti fram hönd sína og eftirfarandi leikþáttur fór í gang.

Fyrstu kynnin!

Þétt var gripið, þótti hraust.
Bar hann, af sér mikið traust.
Er hitti fyrst „líklegan“ tengdason,
og sagði, Einar heiti ég Gunnlaugsson.

Hafðir ekki uppi, hótanir.
Hætt þó taldi mig kominn.
Minningagreina mótanir,
manstu mig „Tengdasoninn“.

Ég sagði lítið, læddist á brott.
Lítið fór fyrir mínum.
Dóttirina, á hafði horft.
Dansað á línum fínum.

Sambandið við tengdaforeldra mína hefur alla tíð verið dásamlegt, mikil samskipti og jólin hafa skipað stóran sess þar en þau fyrstu fóru ekki eins og til stóð. Langsíðasti geirfuglinn var borinn á borðið. Eftir þetta upphlaup hefur aldrei annað verið á borðum hjá okkur á jólunum en hamborgarahryggur...

1985

Jólaboðið bar nú að.
Vandað var til veislu.
Fuglinn á borðið eða hvað?
Alls ekki hæfur til neyslu.

Svangur hélt því heim á leið.
Hagkvæmt þótti boðið?
Sár og svekktur, undan sveið.
Færði þeim samt síðar í soðið.

Ég ætla að láta eftirfarandi „vísur“ fljóta með, þær lýsa best okkar samskiptum og stelpnanna minna við afa Einar. Þær og við öll vorum svo heppin að hafa afa Einar alltaf í næsta nágrenni, alltaf tilbúinn að hjálpa til sama hvað var, þægilegt og ljúft að leita til hans.

Vinskapur!

Vinskapur okkar, vandist vel.
Væntumþykja mikil.
Ef vandamál mín í hendur þér fel.
Þú færir mér lausnarlykil.

Barnabörnin!

Hann spáir í veðrið.
Hann spáir í margt.
Hann spáir því að verði heldur kalt.
Hann lítur til himins og stjörnur þar sér.
Hann hringir þá stundum, vill horfa með þér.

Viska!

Ef stóra sannleikann, kallað var á.
Engin svörin foreldrarnir höfðu þá.
Hringdu í afa, viðkvæðið var.
Þar var ljóst, að barnið fengi svar.

Stríðni!

Íþróttir eru hans áhugamál.
Kallar fram pirring, hjá lítilli sál.
Húmorinn, honum heldur við.
Í leikslokin, flestir fá þó frið.

Heima!

Hamhleypa og hagsýnn er.
Harður í horn að taka.
Þegar í hvíldina sækir sér,
skrabblar við sinn maka.

Allir hinir!

Hann heldur með hinum.
Hann hampar þeim vel.
Hann lýsir upp skammdegið líka.
Hann hreykir ei sér.
Hann gagnrýnir flest, jafnvel Davíð þar með.
Hann rýnir Moggann og líkar vel.
Hann veit hvað hann syngur.
Hann fylgist með mér.

Minningin!

Nægjusamur, nákvæmur.
Nostrar hann við sína.
Handtakið hraust
Þú faðminn bauðst
Hjartarætur hlýna.

Hann er flottastur flestra,
er finnast á jörð.
Hann býr í, bananalýðveldi líka.
Hann sækir þó ekkert í þá hjörð,
er lítt gera annað, en svíkja.

Það er ljóst að öll fjölskyldan hefur misst mikið en minningin um dásamlegan mann, maka, pabba, afa, vin og tengdapabba mun lifa um ókomin ár.

Hvíldu í friði Einar minn, þakka þér fyrir allt og allt.

Þinn vinur og tengdasonur

Nói Björnsson

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00