Fara í efni
Menning

Vel samstillt Þórslið gjörsigraði Hörð

Kristján Páll Steinsson augnabliki áður en hann varði viti gegn Herði í gær. Kristján fór hreinlega hamförum í markinu og varði 27 skot. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar gjörsigruðu lið Harðar frá Ísafirði í gær, laugardag, í næst efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Grill66 deildinni. Liðin mættust í Íþróttahöllinni á Akureyri, staðan í hálfleik var 16:11 fyrir Þór en í lokin munaði 14 mörkum – lokatölur 33:19.

Þórsliðið er eitt í efsta sæti deildarinnar með 10 stig. Það laut í lægra fyrir Víkingi á útivelli í jöfnum leik í fyrstu umferðinni en hefur nú unnið fimm leiki í röð. Hörður hafði unnið þrjá leiki en aðeins tapað einum þar til í gær. 

Leikurinn í gær var hnífjafn fyrstu 22 mínúturnar. Að þeim tíma liðnum var staðan 11:10 fyrir Þórsara en þeir stigu hressilega á bensíngjöfina síðustu mínúturnar auk þess sem Kristján Páll Steinsson markvörður skellti í lás.

Oddur Gretarsson veður í gegnum vörn Harðar í gær og gerir eitt sjö marka sinna í leiknum.

Kristján Páll reyndist gestunum erfiður í gær. Hann var magnaður í fyrri hálfleiknum, varði þá 11 skot, og þótt það hljómi ótrúlega var hann miklu betri í þeim seinni! Þá varði Kristján 16 skot og því hvorki meira né minna en 27 alls, flest úr dauðafærum, þar af þrjú víti. Skv. opinberri tölfræði HSÍ varði Kristján 58,7% þeirra skota sem komu á markið – á mannamáli þýðir það að hann varði nærri sex af hverjum 10 skotum sem hittu á markrammann. Það er fáheyrð tölfræði.

Kristján varði þrjú fyrstu skot gestanna í seinni hálfleik og Þórsarar gerðu fjögur fyrstu mörkin. Staðan var þá orðin 20:11 og ljóst hvert stefndi. Þór náði mest 15 marka forystu, 30:15, þegar rúmar sex mínútur voru eftir.

Þórður Tandri Ásgeirsson berst um boltann við einn leikmanna Harðar en félagar hans, Aron Hólm Kristjánsson og Kristján Páll markvörður gefa dómurunum vinsamlegar leiðbeiningar um hvernig skuli dæma ...

Þórsarar voru mjög sannfærandi í gær. Eftir jafnfræði fyrsta þriðjung leiktímans tóku þeir öll völd og gáfu hvergi eftir. Héldu sínu striki allt þar til á lokasekúndunni og kláruðu verkefnið með miklum sóma. Liðsheild Þórsara var góð allan tímann en þegar gestirnir hófu seinni hálfleikinn var eins og þeir hefðu ákveðið að hætta að spila sem lið heldur hver eftir eigin höfði; sóknarleikurinn var slakur, vörn Þórs aftur á móti öflug og Kristján stórkostlegur í markinu sem fyrr segir.

Mörk Þórs: Oddur Gretarsson 7, Brynjar Hólm Grétarsson 7, Þórður Tandri Ágústsson 6, Hafþór Már Vignisson 5, Arnór Þorri Þorsteinsson 3, Þormar Sigurðsson 3, Leó Friðriksson 1, Sigurður Ringsted Sigurðsson 1.

Varin skot: Kristján Páll Steinsson 27 (58,7%)

Mörk Harðar: Daníel Wale Adeleye 7, Endijs Kusners 3, Admilson Furtado 2, Jhonatan C. Santos 2, Óli Björn Vilhjálmsson 2, Christos Kederis 1, Guðmundur Brynjar Björgvinsson 1, Kenya Kasahara 1.

Varin skot: Jonas Maier 9, Stefán Freyr Jónsson 7.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni

Hafþór Már Vignisson á flugi í gær og augabragði síðar lá knötturinn í neti Harðarmarksins. Hafþór gerði fimm mörk í leiknum.

Gleðin var við völd í herbúðum Þórs í leikslok. Hér fagna leikmenn sigrinum og kætin var síst minni á áhorfendapöllunum.