Fara í efni
Menning

Þórssigur í hörðum baráttuleik í kvöld

Oft var barist í leiknum í kvöld og stigahæsti Þórsarinn, Tim Dalger, fékk stundum að finna fyrir því hjá gestunum. Hann féll í gólfið eftir lokaskot leiksins og var dreginn á fætur af leikmönnum Selfoss. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar unnu sinn annan heimasigur á leiktíðinni í 1. deild karla í körfubolta þegar þeir mættu botnliði Selfyssinga í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld. Munurinn varð að lokum 16 stig eftir jafnan leik lengst af. Góður kafli í lok þriðja leikhluta skipti sköpum, en ekki mátti þó miklu muna að forystan sem þá náðist fyki út í veður og vind.

Þórsarar héldu forystunni nær allan leikinn, en gekk illa að slíta sig frá gestunum, munurinn aldrei meiri en tíu stig lengst af. Það var ekki fyrr en undir lok þriðja leikhluta sem þeir náðu góðum kipp, skoruðu 11 síðustu stigin í leikhlutanum og leiddu með 14 stigum fyrir lokafjórðunginn, juku svo muninn í 16 stig í byrjun fjórða leikhluta.

Villuvandræði á lokakaflanum hefðu getað sett strik í reikninginn, einn Þórsari kominn út af með fimm villur og tveir inni á vellinum með fjórar. Reyndar tveir leikmenn gestanna einnig með fjórar villur. Þórsarar orðnir pirraðir á köflum og nóg eftir til að Selfyssingar eygðu von um að jafna leikinn, níu stiga munur og tvær mínútur eftir.


Síðasta skot leiksins geigaði og Þórsurum tókst ekki að ná stiginu sem þurfti til að hafa betur í innbyrðis viðureignum liðanna. Þeir áttu innkast þegar rúmar fimm sekúndur voru eftir og einhver smá ruglingur varð reyndar um það hvort þeir ættu eftir leikhlé eða ekki. Svo var ekki og því ekki tækifæri til að teikna sérstaklega upp kerfi til að ná körfu í þessari sókn. Tim Dalger náði reyndar skoti, en hitti ekki ofan í körfuna. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Þröstur þjálfari Þórs hafði nýlega tekið leikhlé og stillt höfuðuð af á sínum mönnum, sem skilaði sér í tveimur þriggja stiga körfum frá Smára Jónssyni í næstu sóknum og svo þeirri þriðju frá Tim Dalger, sigurinn þar með tryggður. Andri Már Jóhannesson kórónaði svo góðan endi með enn einni þriggja stiga körfunni, en lokasekúndurnar snérust um það hvort liðið hefði betri stöðu í innbyrðis viðureignum liðanna. Selfyssingar unnu nefnilega sinn heimaleik í byrjun tímabils með 17 stiga mun og náðu að minnka muninn niður í 16 stig með þriggja stiga körfu í lokin og því með betri árangur í innbyrðis viðureignum eftir að Þórsurum mistókst að skora úr lokasókn leiksins. Besta ráðið við því er auðvitað að vera fyrir ofan hitt liðið þannig að þær skipti ekki máli þegar upp er staðið.

Tim Dalger var langstigahæstur Þórsara með 30 stig og Reynir Bjarkan Róbertsson næstur með 18. Andrius Globys tók 16 fráköst. Vojtéch Novák var stigahæstur Selfyssinga með 24 stig.

Þórsarar hafa nú unnið fimm leiki í fyrstu 12 umferðunum og sitja í 7. sæti deildarinnar.

  • Gangur leiksins: Þór - Selfoss (26-23) (17-17) 43-40  (24-13) (20-18) 87-71 
  • Byjunarlið Þórs: Andrius Globys, Orri Már Svavarsson, Reynir Bjarkan Róbertsson, Tim Dalger, Veigar Örn Svavarson..
  • Staðan í deildinni
  • Ítarleg tölfræði leiksins

Helsta tölfræði leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar

  • Tim Dalger 30 - 12 - 4 - 32 framlagsstig
  • Reynir Bjarkan Róbertsson 18 - 11 - 8
  • Andrius Globys 13 - 16 - 1
  • Smári Jónsson 11 - 4 - 3
  • Andri Már Jóhannesson 11 - 3 - 2
  • Orri Már Svavarsson 4 - 2 - 1
  • Veigar Örn Svavarsson 0 - 7 - 2