Fara í efni
Menning

Háspennusigur Þórs á Sauðárkróki

Esther Fokke, til hægri, var frábær í kvöld; gerði sjö 3ja stiga körfur og 25 stig alls, og tók 11 fráköst. Amandine Toi, sem einnig lék mjög vel, gerði sigurkörfuna með 3ja stiga skoti á lokasekúndunni. Myndir: Skapti Hallgrímsson og Helgi Heiðar Jóhannesson

Kvennalið Þórs í körfuknattleik vann sinn áttunda sigur í röð í Bónusdeildinni, níunda að meðtöldum bikarleik, þegar stelpurnar unnu lið Tindastóls í háspennuleik þar sem Amandine Toi skoraði þriggja stiga körfu á lokasekúndu leiksins. Esther Fokke og Amandine Toi voru frábærar og leiddu Þórsliðið í stigaskorinu, ásamt Evu Wium. Maddie Sutton, Esther og Emma Karólína sáu um fráköstin. 

Leikurinn var hnífjafn frá upphafi, jafnt eftir fyrsta leikhlutann, en þegar leið á annan leikhluta sigu heimakonur á Króknum aðeins fram úr, náðu mest tíu stiga forystu, en munurinn fimm stig eftir fyrri hálfleikinn. Skotnýtingin í þriggja stiga skotum heldur betri hjá heimakonum.

Randi Brown var illviðráðanleg í sókninni hjá Tindastóli og skoraði 24 stig í fyrri hálfleik, en þó ekki nema tíu í þeim seinni og 34 stig samanlagt og stigahæst Stólanna. 

Frábær þriðji leikhluti

Þórsliðið setti meiri kraft og ákafa í varnarleikinn í þriðja leikhluta og hleypti heimakonum ekki lengra frá sér og náðu svo góðu áhlaupi á meðan Tindastólsliðinu tókst ekki að skora í um það bil fimm mínútur. Á meðan keyrði Þórsliðið áfram skoraði 12 stig í röð og breytti stöðunni úr 53-51 í 53-63 áður en þriðja leikhluta lauk. Þór vann leikhlutann 24-9! Esther Fokke var frábær og leiddi Þórsliðið í þessu áhlaupi. Stigin urðu reyndar 14 í röð því tvö bættust við í fjórða leikhluta áður en fyrstu stig Tindastóls í tæpar sex leikmínútur komu loks. 

Hlutur þjálfara gleymist stundum þegar taldir eru upp tölfræðiþættir í leikjum. Daníel Andri Halldórsson segir hér Maddie Sutton til í leik fyrr í vetur. Daníel hefur sannað sig sem einn af færustu þjálfurum deildarinnar, og þó víðar væri leitað. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Heimakonur neituðu reyndar að gefast upp og náðu þremur þriggja stiga körfum á upphafsmínútum fjórða leikhlutans, héldu áfram að hamra járnið og minnkuðu muninn niður í þrjú stig áður en fjórði leikhluti var hálfnaður og eitt stig þegar um fjórar mínútur voru eftir. Aftur náðu Þórsarar fimm stiga forskoti, en fengu áhlaup til baka og Tindastóll náði forystunni, 78-77, í fyrsta skipti frá því um miðjan þriðja leikhluta. 

Flautukarfa á spennandi lokakafla

Lokamínúturnar urðu æsispennandi, Eva jafnaði í 80-80 úr vítaskotum. Tindastóll fór í sókn og fékk tvö vítaskot sem Randi Brown misnotaði. Maddie náði frákastinu, boltinn fram á Evu sem kom honum á Amandine og hún skoraði þriggja stiga körfu þegar leiktíminn var að renna út. Þetta var svo reyndar eina stoðsending sem Eva fékk skráða á sig í leiknum.

Eftir körfuna tóku dómararnir þá ákvörðun að 0,5 sekúndur væru eftir. Tindastóll með boltann en náðu ekki að nýta þann örstutta tíma til að jafna leikinn. Seiglusigur Þórs í höfn eftir æsispennandi lokakafla þar sem Þórsliðið hafði næstum misst góða forystu niður í tapaðan leik, en taugarnar héldu í lokin og áttundi sigur Þórs í röð í höfn. 

  • Gangur leiksins: Tindastóll - Þór (18-18) (26-21) 44-39 (9-24) (27-20) 80-83 
  • Byrjunarlið Þórs: Amandine Toi, Emma Karólína Snæbjarnardóttir, Esther Fokke, Eva Wium Elíasdóttir, Maddie Sutton.
  • Staðan í deildinni
  • Ítarleg tölfræði leiksins

Helstu tölur leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Esther Fokke 25 - 11 - 2 - 27 framlagsstig
  • Amandine Toi 23 - 2 - 3
  • Eva Wium Elíasdóttir 17 - 0 - 1
  • Maddie Sutton 9 - 14 - 5
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 9 - 9 - 2
  • Natalia Lalic 0 - 1 - 1

Þórsliðið situr því áfram eitt í 2. sæti Bónusdeildarinnar, hefur unnið tíu leiki af 14. Haukar eru áfram á toppnum með 12 sigra. Haukar eru einmitt næstu mótherjar Þórsliðsins, bæði næstkomandi laugardag þegar liðin mætast í átta liða úrslitum VÍS-bikarsins og svo aftur á þriðjudagskvöld þegar liðin mætast í seinni umferð deildarinnar. Haukar eru einmitt síðasta liðið sem vann Þór, þegar liðin mættust í Hafnarfirðinum 16. nóvember.