Fara í efni
Menning

Ríki í ríkinu – fjarri skarkala og solli

Mynd: US Army

GAMLI SKÓLI – 10

  • Í þessum mánuði eru 120 ár síðan hið gamla, glæsilega skólahús Menntaskólans á Akureyri var tekið í notkun. Akureyri.net birtir af því tilefni einn kafla á dag út mánuðinn úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri.

Lengi var talað um skólann sem ríki í ríkinu. Af ráðnum hug var skólahúsið reist nyrst á Eyrarlandstúninu, fjarri skarkala frá bryggjunum á Torfunefi og solli öldurhúsa á Oddeyri og óhollum áhrifum frá dönsku nýlendunni inni á gömlu Akureyri. Nemendur voru einnig sjálfum sér nógir um flest. Í skólanum var heimavist og mötuneyti, samkomusalur, þar sem haldnar voru samkomur í hverjum mánuði, þar var bókasafn og náttúrugripasafn og leikfimishús og lengi ríkti sterk stjórn þar sem orð skólameistara voru lög. Lega skólans kemur vel fram á myndinni. Gamli skóli er neðst til hægri. Norður og niður frá skólanum liggur Eyrarlandsvegur í sveig fyrir neðan nýja barnaskólahúsið og niður Grófargil á Torfunef þar sem kom til tals að reisa skólahús eftir að Möðruvallaskólinn brann í mars 1902.

Vestan skólahúsanna gengur bein gata, Þórunnarstræti, norður í Þingvallastræti á miðri mynd. Þar austan við er Sundlaug Akureyrar. Norðan Þingvallastrætis eru gömlu grasbýlin Hamarkot og Staðarhóll. Vestar eru býlin Kotá, Setberg og Skarð. Þingvallastræti gengur niður í Oddeyrargötu sem tengist Brekkugötu gegnt Gránufélagsgötu, sem var lengi aðalsamgönguæð um Oddeyri. Strandgatan liggur með Pollinum niður á Tanga. Neðst á Oddeyri sjást síkin að baki húsum Gránufélagsins frá því um 1870.

Í miðbænum, Bótinni, sjást bryggjurnar á Torfunefi og Dokkin og strandferðaskipið Esja liggur við bryggju. Á horni Hafnarstrætis og Kaupvangsstrætis er nýtt hús Kaupfélags Eyfirðinga á Akureyri, KEA, andspænis Hamborg, París og Hótel Akureyri. Norður úr Hofsbót
gengur Brekkugata í sveig norður yfir Myllunef og Klettaborgir ofan Sambandsverksmiðjanna upp með Glerá sem rennur í kvíslum sínum til sjávar sunnan Sandgerðisbótar.

  • Ríki í ríkinu er kafli úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri sem Völuspá gaf út árið 2013. Höfundur bókarinnar er Tryggvi Gíslason, skólameistari frá 1972 til 2003.